13.02.1945
Neðri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í C-deild Alþingistíðinda. (3479)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Ég hafði hér í gær farið nokkrum orðum um þær röksemdir, sem hv. frsm. þessa frv. hafði borið fram bæði í grg. með frv. og eins í ræðu, sem hann flutti hér við þessa umr., en vannst ekki tími til, að ég lyki við að bera fram þær aths., sem ég hafði hugsað mér að koma með, en ég skal vera stuttorður nú um það, sem ég taldi mig eiga einkanlega eftir að skýra. Mál þetta er orðið svo þrautrætt í þessari d., að það verður vitanlega mikið endurtekningar, sem fram koma, ef umr. um það halda lengi áfram enn. Ég get þó ekki látið hjá líða að minna á það, að upphaflega þegar mest var deilt um skipulag mjólkurmálanna, var það aðalárásarefnið á n., sem stýrði framkvæmdunum, að hún teygði verðjöfnunarsvæðið svo mjög út, að varan yrði mjög léleg. Það var meira að segja seilzt svo langt að fá vísindamann, sem svo var kallaður, til að skrifa greinar í blöðin um það, að afar óvarlegt væri að flytja neyzlumjólk austan af Suðurlandsundirlendinu til Reykjavíkur, vegna þess að hún mundi spillast svo mjög við flutninginn á þeirri leið, svo löng væri hún. Þá höfðu Árnesingar flutt neyzlumjólk til Reykjavíkur, en þó ekki nema að litlu leyti, en það þótti þá ekki koma til mála vegalengdar vegna, þó að leiðin austur í Ölfus sé ekki lengri en leiðin upp í Kjós eða suður með sjó, en flutningur þaðan var þó látinn óátalinn. Ég bendi á þetta til að sýna, hvernig ádeilurnar eru á þetta skipulag. Rökin eru alveg eftir því, hvernig vindurinn blæs og hvernig mönnum þykir í þann og þann svipinn heppilegast að haga seglum, en ekki eftir því, hver raunveruleikinn er. Mér kæmi ekki á óvart, þó að þessir menn fengju sérstaka vísindamenn til að koma nú fram og fullyrða, að mjólkin væri jafnvel betri, þegar búið væri að flytja hana 300 km. en ef hún væri af næstu grösum við sölustað. Ég skal ekki um það spá, en annar flm. fullyrti í gær, að það skipti sáralitlu máli, hvort mjólkin væri nokkrum klukkutímum lengur eða skemur í flutningum til sölustaðar, hitt væri aðalatriðið, að hægt væri að ná í nægilega mikið magn, og hann fullyrti, að hægt væri að flytja samdægurs til sölustaðar mjólk úr þeim héruðum, sem hér er lagt til að taka inn á sölusvæðið. Ég hygg nú, að eins og flutningum er háttað nú, mundi verða erfitt að ná henni norðan yfir Holtavörðuheiði og hingað til Reykjavíkur samdægurs, og þó eru vetur oft miklu strangarí og snjókoma meiri en nú. Ef því er haldið fram, að hægt sé að flytja mjólk til Reykjavíkur samdægurs norðan af Ströndum og úr Austur-Húnavatnssýslu, þá má segja, að það sé hægt svo að segja hvaðan sem er af landinu, því að þetta byggist vitanlega á því að fá bættar samgöngur og ný samgöngutæki, því að þá væri náttúrlega hægt að flytja mjólkina samdægurs með flugvélum og jafnvel hraðskreiðum strandferðaskipum. Hinu ætla ég enn að mótmæla, sem hv. flm. hafa viljað mjög halda fram og öll grg. er full af, að hér sé um einhverja einkasölu að ræða fyrir einhverja sérstaka bændur. Það er staðreynd, að söluskipulagið hefur orðið til að opna markað fyrir meira en helmingi fleiri bændur en þá, sem höfðu aðstöðu til mjólkursölu, áður en samsalan tók til starfa. Það er vitað, að allir bændur, sem hafa undirbúið hjá sér mjólkuriðnað og hafa aðstöðu til að flytja til Reykjavíkur, þeim verður ekki neitað um að selja hér. Það mætti því miklu frekar segja, að hér hafi verið sett löggjöf til að reyna að opna markaði fyrir eins marga bændur og aðstaða væri til að skapa hér á landi. Það er því mesta öfugmæli, að hér sé um nokkra einkasölu að ræða.

Þá segir hv. þm. A-Húnv., að verðjöfnunin hafi verið framkvæmd á kostnað þeirra, sem næst eru sölustað. Verðjöfnunin lendir jafnt á öllum, og ég veit ekki til þess, að nokkrir sérstakir bændur séu settir í að greiða verðjöfnun öðrum frekar. Ég þori að fullyrða, að þeir bændur, sem fjær búa á Suðurlandsundirlendinu, greiða miklu meiri uppbætur í verðjöfnunarsjóð en þeir, sem senda mjólkina til stöðvarinnar í Reykjavík. Verðjöfnunin er miðuð við það, hverjir selja og hvað mikið magn er tekið. Verðjöfnunin er ekki sett á kostnað neins framleiðanda, heldur öllum til hagsbóta og öryggis og til þess að koma skipulagi á og hagnýta markaðinn eins og hægt er. Og eins og þeir bera fram í grg. frv., að óskapleg óánægja sé með verðjöfnunina, þá hlýtur það að koma fram við þá, en ekki okkur, sem stöndum að framkvæmdunum. Ég hef ekki heyrt á það minnzt, að menn væru óánægðir. Jafnvel þeim framleiðendum, sem hafa fengið leyfi til að selja utan sölusamtaka Reykjavíkur, hefur verið það ljóst, að þeir verða að greiða til verðjöfnunar.

Mér þykir það skjóta nokkuð skökku við í málsmeðferð hv. flm., þegar þeir segja, að bændur, sem fjær búa, utan verðjöfnunarsvæðis, séu útilokaðir frá því að njóta þeirra hlunninda, sem þessi l. skapa. Eru jafnvel blindir farnir að sjá, ætla ég að segja í þessu efni. Ég veit ekki betur en að báðir þessir hv. flm. hafi oft áður talað um það, að þessi löggjöf væri engin hlunnindi fyrir bændur, heldur bölvun og bezt væri að hún yrði afnumin með öllu. Nú virðist sem þeir telji það ákaflega mikil hlunnindi að verða aðnjótandi löggjafarinnar. Þeir hafa lítið gert til þess að skapa þessi hlunnindi bændum til handa, sem áttu við mikla erfiðleika að stríða við sölu mjólkurafurða áður en löggjöfín var sett. Og það virðist vera sami hugur enn þá, að reyna að spilla löggjöfinni svo, að sem minnst hlunnindi verði fyrir bændur að geta notið hennar. Því að það er vitanlegt, að ef ætti að fella hana niður og gera það svæði ótakmarkað, sem flytja mætti af og skapa sömu samkeppni inn á markaðina eins og áður var, er búið að brjóta niður það, sem bændur óskuðu að fá til þess að tryggja starfsemi sína til sölu afurða. Og þegar talað er um, að bændur, sem eru utan sölusvæðisins, séu útilokaðir frá því að njóta þessara hlunninda, þá vil ég spyrja hv. flm. að því: Hvaða möguleika hafa bændur, sem eru utan svæðisins nú, ef l. um mjólkursöluna væru felld úr gildi? Ég vildi sjá, hvað mikið af mjólk kæmi til Reykjavíkur. Þeir hafa ekki mjólkurbú og ekkert til þess að stunda vinnslu mjólkurafurða. Og ekki er það vitað, að áður en skipulagið kom hafi þeir getað stundað slíka afurðasölu. Skipulagið hefur opnað markað fyrir miklu fleiri framleiðendur en áður höfðu selt.

Þá telja hv. flm., að það mætti auka mjólkursöluna, ef ánægja væri með viðskiptin. Ég ætla nú að segja það, að ef ánægja milli framleiðenda og neytenda er mælikvarðinn á það, hve mikið selst, þá er ekki mikil óánægja um þessa sölu hér í Reykjavík, því að ég þori að fullyrða, að það er ekki til meiri mjólkurneyzla í öðrum bæjum í Evrópu, að því er vitað er, heldur en nú er í Reykjavík. Meðalsala neyzlumjólkur á mann í Reykjavík er talin vera ¾ til 1 lítri á dag. En það þykir ágæt sala í öllum bæjum á Norðurlöndum, eða þótti fyrir stríð, ef hún náði ½ lítra á mann, og er það ekki aðeins neyzlumjólk, heldur mjólk og mjólkurafurðir. Ef hv. flm. telja þar af leiðandi ánægjuna mælikvarða fyrir því, hve mikið selst, þá er ekki af miklu að taka í þeim efnum. Ég er viss um það, að sala mjólkur og mjólkurafurða er miklu meiri hér en á nokkrum öðrum stað. Enda er því ekki að leyna, að salan hefur þrefaldazt frá því að söluskipulagið tók til starfa, og þó hefur íbúatala bæjarins ekki gert það, eins og allir vita.

Mér virðist nú, að bæði frv. þetta og ýmislegt annað, sem hv. flm. hafa flutt um þetta mál, sé ekki miðað við það að skapa ánægju milli framleiðenda og neytenda, heldur séu þeir hræddir við, að óánægjan sé að detta niður og þess vegna verði að taka upp einhver mál til þess að halda við þeim urg, sem var í þessum málum til að byrja með, það sé leiðinlegt, ef hann hverfi. Mér er ekki kunnugt um, að óánægja ríki milli bænda í þessu efni. Þeir hafa sjálfir myndað stjórn fyrir þetta fyrirtæki, og ég hef ekki orðið var við nokkurn ágreining í þeim efnum. Ég hygg, að það sé einsdæmi um svo stóran félagsskap, einn stærsta félagsskap landsins, að ekki skuli meiri óánægja ríkja, eins og öll aðstaða er erfið, þar sem þúsundir bænda eru í honum.

Ég hygg þess vegna, að þessu frv. og þessum umr., sem hv. flm. virðast svo sólgnir í á hverju þingi, sé meira stefnt að því að finna upp ágreiningsefni, þegar þeir vita, að málið hefur verið mjög jafnt eftir fyrstu átökin, sem urðu í þessu efni, sem eðlilegt er, þegar um svo stóra fjárhagshlið er að ræða.

Hv. þm. Snæf. sagði, að með því að halda áfram að flytja þetta frv. og önnur slík, væri viðurkenning fengin fyrir því, að umbóta væri þörf. Ég veit ekki, frá hverjum sú viðurkenning er komin. En okkur, sem stóðum að skipulaginu, hefur verið það ljóst, að það er þörf mikilla umbóta, og við höfum unnið að stöðugum umbótum öll árin síðan samsalan var sett á stofn. Og ég held, að þess sjáist merki í Reykjavík nú, að unnið sé að stórfelldum umbótum í þessu efni. Þar er verið að byggja mjólkurstöð, sem mun verða, ef við fáum vélarnar, einhver sú fullkomnasta, sem reist hefur verið á Norðurlöndum. Það er vitað, að unnið hefur verið að stórkostlegum stækkunum og umbótum á mjólkurbúum undanfarin ár. Í þessar framkvæmdir hefur verið lagt stórfé, miklu meira en var áður en skipulagið var sett.

Það er annað, sem er ábótavant í Reykjavík, og það eru búðirnar, sem mjólkin er seld í. Það hefur verið reynt að bæta úr þessu, en það er hv. þm. ljóst, að það er annað en gott að ná í húsnæði hér í Reykjavík eins og sakir standa. Meira að segja hefur oft reynzt erfitt að halda því húsnæði, sem maður hefur haft, og sumar búðirnar hafa verið byggðar. En í húsnæðislöggjöfinni hefur ekki verið betur að gáð en það, að í einstaka tilfelli hefur maður orðið að víkja úr húsnæði og annað talið þarfara víð það gert en að dreifa mjólk, þó að okkur sé kennt um það á allan hátt. Ég held þess vegna, að hv. þm. Snæf. hafi sannarlega ekki betra auga fyrir því, að umbóta sé þörf, en þeir menn, sem að þessum málum hafa unnið. Ég veit ekki til þess, að hann hafi auga fyrir neinu öðru í þessu efni, enn sem komið er, en að hann taldi mikla þörf að láta rannsaka alla framleiðendur og alla, sem að málinu standa, sem fullkomna sakamenn.

Þessi n., sem skipuð var eftir hans vilja, er starfandi, og ég hygg, að það sé venja, ef mþn. er starfandi í máli, að þá sé beðið eftir áliti n. um það og ekki séu gerðar breyt. á löggjöfinni eða sett ný lög fyrr en umsögn og álit n. liggur fyrir. Ég fékk það að minnsta kosti fljótt í höfuðið, þegar ég flutti þá till. um stofnun menntaskóla, að það væri starfandi mþn. í skólamálum og óþarft að ég flytti till. um þetta efni. Ég flutti líka ásamt öðrum þm. till. um að samræma héraðsskóla og gagnfræðamenntun í landinu, sem mikil þörf er á og raunverulega stórtjón fyrir alla aðila hvert ár, sem dregst að gera þetta. Þá fengum við sama svar, að till. væri vísað til þeirrar n. Nú vita allir, að sú n. hefur setið árum saman, en ekki er líklegt, að nál. komi fyrr en ár eru liðin. Hins vegar tel ég, að sú mþn., sem starfar að mjólkurmálinu eftir till. hv. þm. Snæf., skili nál. innan skamms tíma. Og þau atriði, sem eru í till. frá honum og hv. þm. A-Húnv., hefur n. gefið álit sitt um.

Ég hygg, að þingið hafi skipað þessa n. með það fyrir augum, að hún afli sér sem víðtækastra upplýsinga um það efni, sem hér um ræðir, til þess að gefa álit sitt um. Til hvers annars var hún sett? Var n. sett til þess eins að halda umr. um þetta mál áfram, og var tilgangur flm. sá að tortryggja og taka ekki mark á því, sem n. tók til endurskoðunar? Það virðist vaka fyrir, þegar því er tekið svona illa, sem þessi n. segir um þetta mál. Það er ómögulegt að álíta annað en að meiningin sé, að þessi n. eigi ekki að vinna eftir gögnum, sem hún aflar sér, og gefa út álit um málefnið, heldur sé hún stofnuð í öðrum tilgangi, sem mér er óskiljanlegt að sé annar en sá, sem ég tilgreindi.

Hv. flm. virðast vera mjög hneykslaðir á því, að hér séu sett ákveðin takmörk fyrir verðjöfnunarsvæðum, þar sem einn er útilokaður, en annar ekki. Ég minntist á það í gær, hvers vegna þessir hv. flm. eru ekki hneykslaðir á sinni ástkæru ríkisstjórn, að setja verðjöfnunarsvæði þar, sem landið er bútað í marga parta fyrir fiskframleiðendur. Hvað kemur til, að þessir áhugasömu þm. flytja ekki till. um þetta efni, þar sem enginn fiskframleiðandi er útilokaður frá bezta verðjöfnunarsvæðinu? Eiga sjómenn að hafa allt annan rétt en bændur? Ef það er alveg óþolandi fyrir bændur í Húnavatnssýslu, sem ekki hafa möguleika til þess að selja mjólk, vegna þess að þeir hafa ekki mjólkurbú, að fá ekki að vera í sama verðjöfnunarsvæði og er í Reykjavík, er þá ekki óþolandi fyrir sjómenn við Húnaflóa að vera settir í annan flokk en sjómenn við Faxaflóa? Þessir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki komið með neinar till. um þessi verðjöfnunarsvæði, og þó er þar um margfalt meira verðmæti að ræða. Að minnsta kosti hafa sumir menn haldið því fram, að fiskur sé aðalverðmætið, sem Íslendingar framleiða. Ef það er órétt gagnvart bændum í Húnavatnssýslu að vera ekki í sama verðjöfnunarsvæði og þeir, sem búa sunnanlands og hafa nýtízku mjólkurbú, hvað þá með fiskimenn við Húnaflóa, sem hafa sömu tæki til að fiska með og fiskimenn við Faxaflóa, en eru í allt öðru verðjöfnunarsvæði en þeir? Af þessu verður þessum hv. þm. ekki flökurt. Það er engin lagasetning fyrir því, hvernig þessi verðjöfnunarsvæði eru ákveðin, það er tæpast að það sé heimilt að lögum að setja þau eins og þau eru sett, að minnsta kosti er það mjög vafasamt. Hvers vegna ekki að flytja frv. þannig, að allir sjómenn njóti sama réttar? Ég fyrir mitt leyti væri því fylgjandi, að landið verði gert að einu verðjöfnunarsvæði, þegar bændur landsins eru búnir að koma framleiðslunni þannig fyrir, að þeir hafa komið sér upp nýtízku mjólkurbúum. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það er framtíðin. En það er ógerningur fyrr en búið er smátt og smátt að byggja upp fullnægjandi mjólkurbú til þess að varan sé góð og samkeppnisfær á markaði hvar sem er. Þessu er ekki til að dreifa með fisk. Ég hugsa, að hann sé jafngóður í Húnaflóa eða Austfjörðum og í Faxaflóa. Það getur verið, að hann sé mismunandi magur á sumum stöðum. Hvaða vit er í því að setja hann í marga flokka? Hér virðist vera sú regla, sem mér kemur ekki á óvart, að minnsta kosti ekki af hendi flm. þessa frv., að það er hægara að sjá flísina hjá öðrum o. s. frv.

Ég hef nú rætt það nokkuð í aðalatriðum, sem fram kom hjá hv. flm. um þetta efni. Þeir telja sig báðir eindregna stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar, og á stefnuskrá sinni hefur hún látið það uppi, að nýsköpun sé þeim eitt og allt. Ég hygg, að það verði ekki um það deilt, að mjólkurskipulagið sé stærsta nýsköpun í atvinnumálum Íslendinga á síðari árum. Og það hefur verið sýnt í verki á mjög myndarlegan hátt, að bændur, sem alltaf er verið að segja, að séu á eftir öðrum með alla hluti, að þeir hafa haft sig upp úr þeim vandræðum, sem áður voru, og skapað í þessu efni nýtt skipulag, sem hefur þrefaldað framleiðsluna á síðustu 10 árum. Ef þessum hv. þm. er ákaflega mikið í mun að fá nú breytt þessum verðjöfnunarsvæðum, sem þeir, sem til þekkja, telja mjög haganleg eins og sakir standa, þá vil ég ráðleggja þeim að fara fyrst til sinnar heitt elskuðu ríkisstjórnar og fá bætt úr þeim misrétti, sem hún hefur gert fiskimönnum þjóðarinnar.