13.02.1945
Neðri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (3480)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Í þessu frv. er lagt til, að sú breyting verði gerð á mjólkurlögunum, að verðjöfnunarsvæði verði ákveðin með l. í stað þess að sérstök n. hefur ákveðið þau undanfarið. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að nokkur héruð, sem nú eru utan verðjöfnunarsvæðis Reykjavíkur, verði tekin inn á það svæði. Eitt þessara héraða er Vestur-Húnavatnssýsla. Ég vil geta þess út af þessu, að flm. þessa frv. höfðu ekki samráð við mig um flutning málsins. Með þessu er ég ekki að sakast um það á neinn hátt. Ég geri ekki ráð fyrir því, að ég hefði orðið meðflutningsmaður að frv., þó að mér hefði verið boðið það. Stafar þetta af því, að ég get ekki séð, að þetta geti, eins og nú er ástatt, orðið þeim mönnum að gagni, sem búa í þeim héruðum, sem þarna er ætlazt til, að verði tekin inn á þetta verðjöfnunarsvæði. Til þess vantar okkur enn sem komið er grundvallarskilyrði. Það er sem sé svo um þessar sýslur, sem þarna er gert ráð fyrir, að bætt verði við, Dalasýslu, Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Strandasýslu, að í þeim héruðum eru engin mjólkurbú, en það skilst mér, að sé nauðsynlegt til þess að hægt sé að taka þau inn á svæðið.

Ég veit ekki, hvað vakir fyrir hv. flm. Ef til vill er það meining þeirra, að hægt sé að flytja mjólk beint úr fjósunum vestan úr Dalasýslu og norðan úr Húnavatnssýslu hingað til Reykjavíkur í sölubúðir hér og selja hana án þess að hún sé meðhöndluð í mjólkurbúi. En ég fyrir mitt leyti er hræddur um, að þetta geti ekki blessazt, því að það mundi ekki allt verða talin góð vara, ef þannig væri að farið. Í ræðu, sem hv. þm. Snæf. flutti hér í gær um þetta mál, en hann er annar flm. frv., sagði hann meðal annars, að það væri hægt að flytja nægilega mjólk úr öllum þessum héruðum til Reykjavíkur, og ég hygg, að fyrri flm. frv. hafi haldið þessu sama fram. Þetta tel ég hinn mesta misskilning, og hvað hv. þm. Snæf. snertir, geri ég ráð fyrir, að það sé einkum hans ókunnugleika á samgönguleiðunum að kenna, að hann heldur þessu fram. Það kann að vera, að hann hafi einhvern tíma að sumrinu farið norður í land, en sennilega aldrei að vetrinum, og sé þessu þar af leiðandi ókunnur og hafi hér fullyrt meira en kunnugur maður mundi gera. Út af þessu þykir mér ástæða til að víkja nokkuð að því, hvernig samgöngurnar eru milli þessara héraða og Reykjavíkur. Við höfum ekki, enn sem komið er, fullkomnari tæki til vöruflutninga um landið en bifreiðar. Ég skal ekkert segja um það, hvað kann að verða í framtíðinni, en þetta höfum við við að búa nú hvað samgöngutæki snertir. Á sumrin, þegar vegir eru beztir, er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að vörubifreiðar fari milli Hvammstanga og Reykjavíkur á skemmri tíma en 9–10 klukkutímum. Sé aftur farið milli Blönduóss og Reykjavíkur, bætist við þessa tímalengd 1½ klukkustund eða um það bil. Nú er það svo, að vegir á þessari leið eru yfirleitt góðir, t. d. vegurinn yfir Holtavörðuheiði mun vera einhver bezt gerði vegur á landinu. Eini kaflinn á þessari leið, sem ekki er góður enn sem komið er, er vegurinn meðfram Hvalfirði, en líklegt er, að hann megi endurbæta svo að það mætti fara þessa leið á nokkuð skemmri tíma, en tæplega getur þó unnizt þar meira en klukkutími, því að þarna er ekki um svo langan kafla að ræða. Mér sýnist því ljóst af þessu, að það mundi alltaf verða örðugt og kostnaðarsamt að flytja mjólk úr þessum fjarliggjandi héruðum hingað til Reykjavíkur, jafnvel þótt miðað væri við sumartímann, þegar bezt er að fara. Útkoman verður svo allt önnur að vetrinum, því að þá er oft vegna snjóalaga bifreiðum ófært með öllu þessa leið, t. d. Holtavörðuheiði, eða það illt yfirferðar, að telja má frágangssök að flytja vörur þar yfir á bifreiðum. Þannig hefur það verið t. d. nú mánuðum saman í vetur, að það hefur verið mjög erfitt og ég vil segja allt að því frágangssök, þó að með ærnum tilkostnaði hafi verið brotizt yfir þessa fjallvegi einu sinni eða tvisvar í viku.

Ég hef tekið eftir því, að í grg., sem fylgir frv., hafa flm. reiknað út vegalengdina úr þessum héruðum til Borgarness og virðast miða við það í ályktunum sínum. Ég veit ekki, hvernig á þessu stendur, því að mér er ekki kunnugt um, að það sé mikill mjólkurmarkaður í Borgarnesi, þannig að þeim, sem búa norður í Húnavatnssýslum eða vestur í Dalasýslu, sé þar opinn mikill markaður. Ef til vill stendur þetta í sambandi við það, að það er til mjólkurbú í Borgarnesi, en ég er hræddur um, að þeir, sem búa í þessum héruðum, sem ég nefndi, eigi ekki aðgang að því. Ég get a. m. k. gefið þær upplýsingar, að Vestur-Húnvetningar eiga ekkert í þessu mjólkurbúi í Borgarnesi, og ég held mér sé óhætt að fullyrða, að það sé eins bæði með Austur-Húnvetninga og Dalamenn, að þeir eigi ekkert í því búi né hafi nokkurn umráðarétt yfir því. En hafi það vakað fyrir flm., að það mundi hentugra að flytja mjólkina að norðan hingað sjóleiðina frá Borgarnesi en að flytja hana landleiðina alla leið, þá efast ég um, að það yrði hentugra. Mjólkin mundi ekki koma neitt fyrr hingað, a. m. k. ekki sem neinu næmi, og ég efast einnig um, að það yrði minni kostnaður við það að flytja hana á skip um þann spöl. Ég fæ því ekki séð, hvers vegna þeir miða vegalengdir við Borgarnes, því að eins og ég gat um, mun mjólkurbúið þar algerlega eign Borgfirðinga, og ég geri tæplega ráð fyrir, að t. d. Húnvetningar hugsi sér að fara að reisa mjólkurbú í Borgarnesi, og sennilega ekki Dalamenn heldur. Þegar að því kemur, að Húnvetningar byggja mjólkurbú, sem væntanlega verður áður langt líður, þá held ég, að þeir eigi að hafa það heima hjá sér, en ekki í Borgarnesi eða annars staðar á Suðurlandi. Um það, hvernig samgöngurnar eru, hefði hv. þm. A-Húnv. vitanlega átt að geta fært meðflm. sínum heim sanninn, ef hann hefði talið ástæðu til, því að hann er því auðvitað kunnugur.

Ef við Húnvetningar komum upp mjólkurbúi, eða þegar því verður komið í framkvæmd, þá horfir þetta að ýmsu leyti öðruvísi við, og ég vil benda á það, að í bréfi frá mþn. í mjólkurmálum, sem er prentað á þskj. 1085, er meðal annars að þessu vikið. Þar stendur á einum stað: „Skilyrði til stækkunar verðjöfnunarsvæðisins væru fyrir hendi, ef til væri mjólkursamlag vestur í Dölum eða í Húnavatnssýslu.“ Ég tel, þegar mjólkurbúum fjölgar til muna, þá breytist viðhorfið í þessum málum. En þegar svo er komið, þá er ég alls ekki viss um, að það sé sanngirnis- eða réttlætismál, sem hér er fram borið í þessu frv. og hv. þm. Snæf. ræddi um í gær. Ég er t. d. alls ekki viss um, að það sé réttlæti í því að hafa takmörk verðjöfnunarsvæðisins við Vatnsskarð fyrir norðan. Ég er alls ekki viss um, að það sé sanngjarnt, að Skagfirðingar séu á öðru verðjöfnunarsvæði en Húnvetningar, þegar þar væri einnig komið upp mjólkurbú. Mér þykir líklegt, að þegar mjólkurbúum fjölgar, verði þessu breytt á þann veg, að komið verði á allsherjar verðjöfnun hjá mjólkurbúum í landinu. Það get ég búizt við, að verði það heppilegasta. Mér þótti vænt um að heyra það í ræðu hv. þm. V.-Sk. áðan, að hann virtist einnig vera á þeirri skoðun, að þannig mundi þetta verða í framtíðinni. Þá mundi það verða þannig, að mjólkurbú, sem næst yrðu stærstu kaupstöðunum, þar sem nýmjólkurmarkaður er mestur, mundu fullnægja nýmjólkurþörfinni eftir því sem þau gætu á hverjum tíma, en mjólkurbú, sem fjær lægju þessum aðalmarkaðsstöðum fyrir mjólk, mundu framleiða smjör og aðrar vörur úr mjólkinni að mestu leyti. Hitt, að hugsa sér það að flytja nýmjólk til sölu hér í Reykjavík vestan úr Dölum eða norðan úr Húnavatnssýslum eða jafnvel Skagafirði, held ég að aldrei geti talizt heppilegt fyrirkomulag.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að þetta frv. snertir nokkuð mitt kjördæmi, og þess vegna vildi ég láta koma fram mitt álit á því, og það er í fáum orðum sagt það, að ég get ekki séð, að þetta frv. eða ákvæði þess komi nokkrum manni að gagni, þó að samþykkt yrði, eins og nú er ástatt. Mun ég því ekki ljá því mitt atkv.