13.02.1945
Neðri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (3484)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég ætlaði í rauninni ekki að ræða mikið það atriði, sem hér liggur fyrir, stækkun verðjöfnunarsvæðisins. Frekar er það viðvíkjandi því áliti, sem fram hefur komið frá mþn., eða í sambandi við það.

Eins og hér hefur verið vitnað í í umr., var samþ. hér 1943 þáltill. um nefndarskipun. Mér er ekki kunnugt um, hvenær nefndin var skipuð, en hún er víst búin að starfa í eitt ár, því að það er komið nokkuð á annað ár síðan þessi till. var samþ. Þarf ekki að rifja upp efni hennar, en þess má geta út af þeirri ásökun, sem hér hefur komið fram á hendur hv. þm. Snæf. um það, að hann ætli með till. að setja alla bændur á mjólkursölusvæðinu undir sakamálarannsókn, að till. hans, eins og hún var samþ., var að efni til mjög lík því, sem upphaflega till. var. Það var aðeins formsbreyt., þannig að í staðinn fyrir rannsóknarnefnd, sem ætlazt var til að starfaði samkvæmt upphaflegu till., þá var þál. aðeins um nefndarskipun og tilgreint, hvaða stofnanir skyldu nefna menn í n. Þessi sex manna nefnd hefur sem sagt starfað nú í a. m. k. eitt ár, en ég minnist þess ekki að hafa heyrt neitt frá henni annað en þetta nál., sem hún hefur gefið út í tilefni af þessari till. um stækkun mjólkurverðjöfnunarsvæðis Reykjavíkur. En verkefni n. voru mörg og ákaflega þýðingarmíkil. Ég hef ekki þessa ályktun hér við höndina, en ég held, að ég muni rétt, að það eru ein sex eða sjö atriði, sem n. átti að rannsaka og gefa bendingar um, hvort hægt sé að bæta úr, um þrifnað mjólkurinnar, hvernig varan er hirt, hvernig henni er komið til neytenda, hvernig eigi að sjá neytendum fyrir nægri mjólk og mjólkurafurðum, svo sem skyri, smjöri o. s. frv.

Mér hefur heyrzt á umr. þeim, sem hér hafa farið fram, að litið sé svo á, sem nefndarskipunin hafi verið alveg óþörf, og af verkum n. er ekki hægt að sjá, hvort hún er þessu sammála eða ekki. En ef menn halda, að þetta sé hégómamál, vil ég taka fram, að ég hef ekki orðið var við neinar breyt. til batnaðar í mjólkurmálum. Þegar þetta mál var hér til umr. seint á árinu 1943, skýrði ég frá nokkrum atriðum, sem snúa að neytendum og mér fannst alveg óviðunandi, en ég hef ekki orðið var við, að úr þessu hafi verið bætt. Ég tók þá fram, að mér væri kunnugt um margs konar örðugleika á því að geta farið svo með mjólkina, að viðunandi væri fyrir neytendur. Ég geri ráð fyrir, að ýmsir af þessum örðugleikum séu þess eðlis, að mjög erfitt sé að bæta úr þeim meðan ófriðurinn stendur yfir, því að það mun að nokkru leyti standa á innflutningi á nauðsynlegum tækjum til þess að hægt sé að fullnægja að öllu leyti meðferð mjólkurinnar, svo að viðunandi sé. En mjög mörg atriði eru það áreiðanlega, sem bæta má úr, þau, er þessi mþn. hafði átt að rannsaka og gera till. um, þó að maður hafi ekki orðið var við neitt frá henni nema þetta nál. enn sem komið er. Ástandið er þó þannig, að mjólkin kemur alltaf skemmd til neytenda. Sömuleiðis er mjög sjaldgæft, að maður fái óskemmt skyr. Það er ævinlega súrt og auk þess oft mjög gallaður tilbúningur þess, en maður þarf ekki að fara nema nokkra km. til að fá mjög gott skyr. Það er ekki lengra en ein vika síðan ég fór upp í Mosfellssveit og borðaði þar skyr, fyrirtaks skyr. En þegar ég kem heim, fæ ég gallsúrt graðhestaskyr frá mjólkurbúðunum. Það er eitthvað bogið við þetta. Um mjólkurskortinn þarf ekki mikið að ræða. Þó að hann sé bagalegur, er hann ekki nema vissan tíma árs og mjög miklar líkur til, að úr þessu mætti bæta með samstarfi við bændur, þannig að burður kúnna væri ekki svona bundinn við vissa tíma eins og nú virðist vera, því að stundum er mjólkin nóg, en stundum er skortur á henni. Þetta er engan veginn aðalgallinn í sambandi við mjólkurmálin. Hann er sá, hvað mjólkin er vond. Einu sinni var tekin upp sú regla hér að hafa skráð á flöskurnar, hvað mjólkin væri gömul. Má vitanlega villa í slíkum sökum, en þessu var nú hætt og síðan hafa flöskur ekki verið notaðar. Mér er sagt, að á mjólkurstöðvum úti um land sé slíkur útbúnaður, að aldrei sé máli dýft í mjólkina, heldur gangi þetta fyrir sig á þann hátt, að mjólkin renni í gegnum pípu og þurfi ekkert á henni að snerta. En hér standa menn með ausur og ausa rétt eins og þeir væru að ausa úr forinni hjá sér, og það er ekkert skemmtilegt. Hvað mjólkin er gömul, veit enginn nema af því, hvað hún er súr.

Ég veit ekkert um það, hvernig mjólkurflutningi er hagað til mjólkurbúanna. Ég sé, þegar ég fer um Suðurlandsundirlendið, hrúgur af mjólkurbrúsum í holtum, og held ég, að það sé mjög svipað enn í dag. Ég veit ekki, hvort þessi mþn. hefur nokkuð athugað, hvort gerlegt muni að haga þessum brúsaflutningi þannig, að ekki þurfi að flytja brúsana og láta þá standa úti í sól og regni. Þetta er fráleitt fyrirkomulag.

Ég veit, eins og ég tók fram í upphafi, að það er ekki auðvelt að haga þessum flutningum svo, að í bezta lagi sé. Með þessa vöru er mjög vandfarið og að sjálfsögðu mikil vanefni í byrjun á tækjum og ýmsri aðstöðu, og það er ekki rétt að standa og stappa niður fótunum og skamma skipulagið alveg einhliða. En það er líka mjög óviðeigandi það mikla ofstæki, sem maður mætir alltaf, er fundið er að og óskað leiðréttingar á hlutum, sem er auðvelt að leiðrétta.