15.02.1945
Neðri deild: 130. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (3489)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er þegar búið að ræða svo mikið á mörgum fundum, að það fer að verða óþarfi að halda umr. lengi áfram um það, enda hygg ég, að ég hafi verið búinn að svara flestu af því, sem fram kom á síðasta fundi, og er þegar farið að fyrnast yfir mest af því, sem brýn þörf hefði verið að minnast á, þegar þannig líður á milli, að mál eru tekin til umræðu. — Það voru þó nokkur atriði, sem ég átti eftir að minnast á, sérstaklega í sambandi við ræðu hv. 7. þm. Reykv., sem ekki er hér viðstaddur nú frekar en þá, eftir að hann hafði losað sig við það, sem hann taldi sig þurfa að hella út af þeim góða vökva, sem inni fyrir bjó í þessum efnum, og verður ekki hjá því komizt að minnast ofurlítið á það, sem hann sagði í því sambandi. Hann sagði t. d, að það væri ýmislegt, sem væri ábótavant um vörugæði við sölu mjólkurafurða, en mér skildist, að hann viðurkenndi, að það væri töluvert að kenna því ástandi, sem skapazt hefði vegna styrjaldarinnar og ekki væri á okkar valdi að bæta úr. — Ég verð að segja það, að þetta er lengra gengið en margir hafa viljað gera í þessum efnum í því að viðurkenna það, sem rétt er, því að það virðist hafa ríkt ótrúlega lítill skilningur á því hjá fjölda manna, hvílíkum erfiðleikum það hefur verið bundið í því styrjaldarástandi, sem nú er, að dreifa mjólkurvörunum út um bæinn. Hv. þm. vildi þó draga nokkuð úr þessari viðurkenningu sinni síðar meir, sem ég skal minnast ofurlítið á. Hann sagði t. d., að áður fyrr hefði mjólkin verið seld í flöskum, en nú hefði verið fellt niður að láta hana í flöskur, en hins vegar á smástöðum úti um land væri það fyrirkomulag enn þá haft. Þetta atriði, sem einmitt er sprottið af styrjaldarástæðum, hefur ekki náð til skilnings hv. 7. þm. Reykv. og þess vegna skilur hann ekki þann mismun, sem er á því að fella mjólk á flöskur á smástöðunum úti um land og að framkvæma slíkt hér í Reykjavík, þar sem dreifingin er jafngífurleg sem raun ber vitni. Það er hins vegar vitanlegt, að það hefur alltaf verið gert nokkuð af því í mjólkursamsölunni að fella mjólk á flöskur, þrátt fyrir þá erfiðleika, sem á því eru. En þar sem ekki er hægt að fá aluminium og vélar til þess að loka flöskunum í jafnstórum stíl og hér þarf, þá verður að gera þetta allt með lítilli handvél, sem vitanlega er hægt að nota á nokkur hundruð flöskur, en ógerningur, þar sem þarf að afgreiða um 30 þús. flöskur á dag. Þetta er það, sem veldur því, að ekki er hægt að koma í framkvæmd að láta mjólk á flöskur í svo stórum stíl eins og þarf hér í Reykjavík, þótt það sé hins vegar ákaflega auðvelt þar, sem ekki þarf að afgreiða nema 1–2 þús. lítra á dag. Þetta er það, sem gerir mismuninn úti um land, þar sem dagleg sala er lítil, að þar er auðvelt að fella mjólk á flöskur og loka þeim, en hins vegar ómögulegt að koma slíku við þar, sem hin daglega sala er milli 30–40 þús. lítrar, nema með sérstökum og fullkomnum vélum.

Þá var hv. 7. þm. Reykv. að tala um það, hversu vörurnar væru oft vondar og minntist í því sambandi á skyrið frá mjólkurbúunum. Er þetta í rauninni tiltölulega gömul kvörtun, sem hefur legið niðri um margra ára skeið, þannig að ég hef ekki heyrt kvartað yfir skyri frá mjólkurbúunum í mörg ár svo að neinu nemi. Ef hv. 7. þm. Reykv. hefur komið á bóndabæ uppi í Mosfellssveit og fengið þar skyr, sem honum þótti hið bezta skyr, þá skal ég segja hv. þm. það, að ég gæti svo sem vel trúað því, að þetta skyr hefði verið frá mjólkursamsölunni eða úr mjólkurbúi, því að mér er ekki kunnugt um, að mikið sé um, að bændur búi skyrið til sjálfir, því að mér er ekki kunnugt um, að bændur framleiði skyr heima, síðan mjólkurbúin tóku til starfa. En það bar til, að maður var á ferð í Rangárþingi, og kom hann þar á bæ og var borið skyr að borða. Það var vitað, að hann var ekki hrifinn af mjólkursamsölunni. Hann talaði um, hve dásamlegur matur væri á borðið borinn, þar sem skyr þetta væri; það væri eitthvað annað, sem hann til tók, varan, sem fengist hjá mjólkursamsölunni. En húsfreyjan var svo hreinskilin að segja, að því miður hefði hún ekki búið þetta skyr til, heldur væri það komið til sín frá mjólkurbúi Flóamanna. Og ég hygg, að svo sé í flestum tilfellum, að þegar sumir menn fá skyr frá svæðinu rétt í kringum Reykjavík, þá sé smekkurinn orðinn einhver annar fyrir það en þegar þeir koma lengra út í sveitir og þiggja góðgerðir á bæjum, sem þeir þiggja af húsfreyjunni sjálfri, sem þeir vilja þá koma sér vel við hverju sinni. Og mér þætti ekki ósennilegt, að hv. 7. þm. Reykv. hefði lent í nákvæmlega því sama og bæjarfélagi hans lenti í austur í Rangárvallasýslu, að hafa óafvitandi dáðst að því skyri, sem frá mjólkursamsölunni hefði komið.

Þá talaði hv. 7. þm. Reykv. um það, að ef fundið væri að einhverju, væri því jafnan svarað með ofsa og lítið hirt um að bæta úr því, sem aflaga færi hjá mjólkursamsölunni. Ég vil segja þessum hv. þm. það, að allar þær aðfinnslur, sem fram hafa komið gagnvart mjólkursamsölunni og á rökum hafa verið reistar, hafa verið teknar til greina og leitazt við að bæta úr því, sem þurft hefur, eftir föngum, þó að enn séu margir erfiðleikar á því að fullnægja þeim kröfum, sem réttmætar væru, ef eðlilegir tímar væru nú. En þeir menn, sem af fullkominni illgirni og ofstæki bera fram ásakanir um hluti, sem þeir hafa tiltölulega lítið vit á, geta ekki vænzt þess, að það sé alltaf fyrir hendi sú þolinmæði og umburðarlyndi hjá þeim, sem á er deilt, að það geti ekki einhvern tíma líka hrokkið orð á móti, sem sé ekki fullkomlega vegið, en raunverulega er fullkomlega verðskuldað, þegar árásirnar eru miðaðar við það að ná sér persónulega niðri á manni. Ég verð að segja, að það mætti vera meiri geðprýðismaðurinn, sem ætti að standa í þessu, ef hann hefði fengið yfir sig allt, sem komið hefur t. d. frá hv. 7. þm. Reykv., og hefur hann þó sannarlega ekki verið skilningssljórri en aðrir í þessum efnum, ef sá maður, sem fyrir slíku hefði orðið, hefði aldrei látið frá sér fara neitt styggðaryrði til neinna þeirra, sem í þessum efnum hafa þótzt öllum mönnum betur hafa vit á því, sem gert hefur verið á undanförnum árum í þessu. Máske er hv. 7. þm. Reykv. slíkur skapstillingarmaður. En ég hef, satt að segja, ekki orðið var við þessa kosti hans sérstaklega, það sem ég hef kynnzt honum hér á hæstv. Alþ.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði, að Reykvíkingar sjálfir ættu að hafa eftirlit með vöruvönduninni á þessu sviði, og er ég honum þar sammála. Ég álít, að neytendur eigi að hafa þau afskipti af þessu máli, eins og ætlazt er til í löggjöf, og það er eingöngu sjálfum þeim að kenna, ef þeir hafa það ekki. Ég skal ekki segja, hvort þeir þyrftu nýja löggjöf í viðbót, til þess að það gæti orðið eins og æskilegt væri. En í heilbrigðislöggjöfinni hafa þeir heimild til þess að láta heilbrigðiseftirlitið sjá um þetta. Og mér er ekki kunnugt um annað en að þeir hafi látið heilbrigðiseftirlitið gera margar ráðstafanir í þessu efni. Hitt er annað mál, að það faglega eftirlit, sem kostað er a. m. k. að hálfu leyti af samsölunni, ætti vitanlega að vera á hendi neytenda. Og það er eingöngu tekið upp af Samsölunni sjálfri af því að neytendur höfðu vanrækt þetta. Og vitanlega væri okkur kærara, að neytendur kostuðu þetta. Því að mér dettur ekki í hug að halda, að það mundi hafa nokkur minnstu áhrif á þann mann, sem framkvæmir eftirlitið, hvort hann væri í þjónustu okkar eða neytendanna. Ég vona yfirleitt, að hinir ýmsu vísindamenn í okkar landi gefi ekki út mismunandi vottorð eftir því, við hvaða aðila þeirra starfi er kenndur. Slíkan áburð væri vitanlega alveg óheiðarlegt að bera á vísindamenn. Og ég álít, að ef vísindamaður yrði fyrir slíku, væri það hreint og beint skylda hans annaðhvort að höfða mál eða tafarlaust að leggja niður embætti sitt, því að þar væri algerlega barizt um það, hvort vísindamaður gæfi út vottorð um vísindaniðurstöðu mismunandi eftir því, hvaða aðili í hlut ætti.

Hv. þm. Ak. minntist á það m. a., að hann taldi, að í Þýzkalandi hefðu menn fyrir styrjöldina verið komnir lengst í verðjöfnun. En skömmu fyrir styrjöldina kynntist ég þessu í Þýzkalandi, á Norðurlöndum og á Englandi, og ég held, að það hafí verið samhljóða álit allra, sem ég talaði við um það, að Norðmenn hefðu þá verið komnir lengst í verðjöfnun á vörum, og það var álit Þjóðverja sjálfra, sem ég talaði við um þessi mál og við þessi mál fengust 1937. Í Noregi var fyrirkomulagið svo þá, að menn fengu jafngott verð fyrir vöruna, hvort sem þeir voru nærri eða fjarri sölustöðum.