15.02.1944
Neðri deild: 13. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki á þessu stigi fara mörgum orðum um þetta mál. En af þeirri deilu, sem orðið hefur um þetta, hvort heldur ætti að verja þessu fé sem styrkjum eða lánum, þá vil ég láta koma fram sem mína skoðun á því, sem hér um ræðir, að ég hafði litið þannig á, að þetta fé yrði veitt sem styrkir. Og það var með sérstöku tilliti til þess, að þessi fjárveiting var hugsuð sem hvöt og örvun til manna að ráðast nú þegar í aukningu skipaflotans. Og með tilliti til þess, að þetta væri gert, þá er það vitað, að það verð, sem verða kann á þeim skipum, sem nú á næstunni verða smíðuð, gæti orðið í mjög öfugu hlutfalli við það afurðaverð, sem standa ætti undir rekstri og útgerð skipanna. Þess vegna var þetta hugsað sem þátttaka frá ríkisins hálfu til þess að afskrifa þessa dýru báta, en hins vegar mjög brýn og aðkallandi þörf á því, að nú þegar væri undinn að því bráður bugur að auka fiskiskipaflotann. Þetta var það, sem vakti fyrir meiri hl. fjvn., sem stóð að því að bera fram þessa till. og beita sér fyrir samþykkt hennar.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í sambandi við þetta frv. og í sambandi við þá stefnu, sem komið hefur fram, að hér sé um að ræða að fara báðar þessar leiðir. Og það gefur mér líka enn meiri ástæðu til að láta þessa skoðun koma fram, að það mátti jafnvel skilja á ræðu hæstv. atvmrh., að hafi hann með framkvæmd þessa máls að gera, mundi hann frekar hallast að lánaleiðinni. Ég álít, að það sé ekki heldur heppilegt að hafa á þessu lánasnið og jafnvel undirskilið, að ekki þurfi að borga þessi lán aftur. Ég held, að það sé yfirleitt ekki heppilegt að vera að leiða þessi mál inn á þá braut að veita mönnum þessi óafturkræfu lán með það fyrir augum, að lánin skuli ekki verða endurgoldin. En aðalatriðið að áliti meiri hl. fjvn. var þetta, að við vildum ýta undir það, að nú þegar yrði gripið fyrsta tækifæri til þess að ráðast í skipasmíðar, þrátt fyrir það að þær yrðu allmiklu dýrari en ef lengur yrði beðið með slíkar framkvæmdir.