29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (3500)

138. mál, bygging og rekstur sjúkrahúss á Akureyri

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Mér kemur þetta mál dálítið kynduglega fyrir. Á þessu sama þingi — fyrsta hluta þess — var rætt hér allmikið um lækna í landinu og sjúkrahús og spítala, og á endanum var samþ. þál., sem afgreidd var frá Alþ. 11. marz, sem, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til að athuga, hverjar breytingar kunna að vera nauðsynlegar á skipun læknishéraða og þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við byggingu og rekstur læknabústaða og sjúkraskýla, svo og hverjar aðrar ráðstafanir væri nauðsynlegt að gera til þess að tryggja sveitahéruðum sem bezta læknisþjónustu.

Einn nefndarmanna skal skipaður samkvæmt tilnefningu heilbrigðis- og félagsmálanefnda Alþingis, annar samkvæmt tilnefningu Læknafélags Íslands og hinn þriðji án tilnefningar, og er hann formaður nefndarinnar.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þessi n. var skipuð. Magnús Pétursson bæjarlæknir í Reykjavík var skipaður samkvæmt tilnefningu Læknafélags Íslands; sá, sem heilbr.- og félmn. Alþ. skipuðu í n., er Gunnar Thoroddsen, og án tilnefningar var landlæknir skipaður í n. Þessi n. hefur haldið marga fundi, en er ekki nærri búin með sitt starf. Hún hefur m. a. athugað, hvernig þátttaka ríkissjóðs á að vera um rekstur sjúkrahúsa á landinu á móti sýslu- og bæjarfélögum, og eins þátttaka í stofnkostnaði þeirra. Þessi n., sem falið hefur verið að gera þetta, er að leita upplýsinga til þess að byggja athuganir og niðurstöður sínar á. En nú bregður svo við, að áður en n. er einu sinni búin að afla sér þessara upplýsinga, hvað þá að komast að niðurstöðu í málinu, þá er komið hér með frv., sem markar stefnu í málinu, þá stefnu, að eitt bæjarfélag vill losa sig alveg við útgjöld við að byggja og reka spítala hjá sér. — Mér virðist hins vegar það eitt vera skýlaust rétt að gera í þessu máli að bíða eftir áliti n. þeirrar, sem skipuð hefur verið samkv. þál. frá hæstv. Alþ. til að athuga þessi mál, áður en stefna er mörkuð um það, að ríkið eigi eitt út af fyrir sig að kosta spítala, bæði byggingu og rekstur, í læknishéruðum, og í þessu tilfelli á Akureyri. Og þegar það er komið, er fyrst tími til þess kominn að mínu áliti að athuga, hvaða heildarstefnu við tökum í málinu. Úr því að við höfum sett n. til þess að athuga málið, eigum við að bíða eftir upplýsingum frá henni, og það því fremur sem hún ætlar sér að ljúka störfum fyrir næstu áramót. En hvort það verður, get ég ekki fullyrt, því að menn hafa oft gert áætlanir, — þriggja daga áætlanir, átta daga áætlanir o. s. frv. —, sem svo hefur orðið að hvika frá. Og hvort líkt á sér stað um þessa n., skal ég ekkert segja. En mér virðist eiga að bíða í þessu efni eftir því, hvaða álit og upplýsingar þessi n. gefur út.