12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (3510)

154. mál, hafnargerð á Akranesi

Flm. (Pétur Ottesen):

Það hefur verið á það drepið í grg. þeirri, sem fylgir þessu frv., hve mikil og stór svæði eru í Faxaflóa, sem liggja mjög vel við til fiskisóknar þar. Reynslan hefur sýnt, að það eru mjög áhöld um fiskignægð á nyrztu og syðstu miðum flóans. En það hefur einnig sýnt sig, að það skiptir nokkuð miklu máli hvað einn meginþátt útgerðarinnar snertir, veiðarfæraeyðsluna, hvort sótt eru miðin við norðanverðan flóann frá Akranesi eða af Reykjanesskaga að sunnan. Reynslan undanfarin ár hefur sýnt, að veiðarfæraslitið er heldur minna við norðanverðan Faxaflóa en við sunnanverðan. Munurinn liggur í því, að við sunnanverðan flóann er ákaflega mikið hraun í botni, en á hraunbotni slitna veiðarfærin mjög mikið, og auk þess er straumurinn þar ákaflega mikill. Að norðanverðu er botninn miklu sléttari og ekki nærri jafnmikil föll í sjó. Þetta er þess vegna mjög mikilsvert atriði, þegar veiðarfæranotkunin er orðin jafnstór og veigamikill liður í útgerðinni eins og nú er. Ég vil taka þetta hér fram með sérstöku tilliti til þess, að hafnargerð er ákaflega veigamikill þáttur í því að greiða götu manna víðs vegar utan úr verstöðvum í landinu, til þess að geta notað hin fiskiauðugu mið í Faxaflóa á vetrarvertíðinni einmitt á þeim tíma, þegar lítil fiskivon er víða í verstöðvum annars staðar á landinu.

En til þess að Akranes geti orðið slíkur staður, að aðkomubátar geti átt öruggt innhlaup þar og fengið sæmilega aðstöðu, þarf miklar umbætur frá því, sem nú er, og þetta snertir jöfnum höndum þá menn, sem þar eiga heima, og þá, sem aðeins stunda þar útgerð.

Á Akranesi hefur undanfarin ár verið lagt stórfé í hafnarbætur, en þessar hafnarbætur hafa aðeins snúizt um að skapa afgreiðsluskilyrði fyrir báta og einnig fyrir stærri skip, sem bezt hefur sýnt sig í því undanfarnar vertíðir, að fiskiskip, sem hér hafa verið, hafa aðstöðu til þess að geta verið á Akranesi. En það, sem þarf að gera þar, er að skapa hafnarskilyrði fyrir örugga og góða bátalegu. Þetta hefur verið nákvæmlega athugað af vitamálastjórn, og er það til áframhaldandi athugunar.

Nú er svo komið, að gert er ráð fyrir, að með þeim fjárhagsgrundvelli, sem skapast, ef þetta frv. nær fram að ganga, þá sé hægt að koma í verk á Akranesi þeim umbótum, hvað örugga bátalegu snertir, að þar geti rúmazt í öruggri höfn fjöldi báta. Er það hugsað á þeim grundvelli að lengja hafnargarðinn og setja hliðarálmu frá honum í stefnu til lands, sem fyrirbyggir, að sjógangur geti valdið skemmdum eða bátar slitni upp á höfninni. Þar sem pláss þetta er nokkuð þröngt, verður að hafa sérstaka tilhögun á hagnýtingu legunnar, sem þegar hefur fengizt reynsla fyrir, að vel hefur gefizt bæði í Vestmannaeyjum og Keflavík.

Þess vegna felst í þessu frv. möguleiki fyrir að greiða götu þess, að fjöldi báta úr öðrum verstöðvum á landinu geti notað hin fiskiauðugu mið í Faxaflóa og einmitt þau, sem langsamlega auðveldast og ódýrast er að hagnýta.

Það hefur verið talað um landshöfn við Faxaflóa á öðrum stað við sunnanverðan flóann, en ég býst við eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um kostnað við þessa hafnargerð eins og hún er hugsuð, — það hafa legið fyrir tvenns konar áætlanir, önnur 16 millj., en hin 24 millj. — að það eigi svo langt í land að leysa það spursmál, að fiskimenn úr öðrum veiðistöðvum geti fengið aðstöðu til fiskveiða við Faxaflóa, að það ætti sannarlega að stuðla að að koma á þeim endurbótum á Akranesi, sem ég hef farið fram á í þessu frv.

Nú er það svo, að fjárveiting til hafnargerðar á Akranesi hefur verið með sama hætti og til annarra stærri hafna á landinu eða sem eru í sama flokki hvað þetta snertir og Akraneshöfn. Það er alveg rétt, að að þessu leyti hefur ekki verið tekið neitt tillit til þeirrar sérstöku aðstöðu, sem Akranes hefur til að leysa þetta mál á miklu breiðari grundvelli varðandi þá, sem gera út frá þessum stað. Till. mín er einmitt byggð á því, að fé sé veitt úr hafnarsjóði bæði með tilliti til þess, að þarna er fjárhagsaðstaða til að láta af mörkum fjárhæð, sem getur skapað fjölda manns aðstöðu til fiskveiða við Faxaflóa. Auk þess er um svo dýra framkvæmd að ræða, að mér finnst, að ef lagt er saman, hve framkvæmdin er dýr og hve almenn not fást af henni, þá sé fullkomlega eðlilegt að gera ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram hlutfallslega hærri fjárhæð til þessarar hafnargerðar en gert hefur verið að undanförnu.

Ég ætla þess vegna, að hv. d., sem fær þetta mál til meðferðar, geti fallizt á, að þetta frv. sé á fullum rökum reist og sá grundvöllur, sem hér hefur verið lagður, sé miðaður við málavexti mjög eðlilega. Hér er verið að leysa þarfir fjölda manna, því að ef þessar umbætur eru gerðar, getur rúmazt stór bátafloti á Akranesi. Aðstaðan á Akranesi er sú, að á hafnarsvæðinu er mjög mikið dýpi, og þess vegna eru framkvæmdir á hafnargerð þar ákaflega kostnaðarsamar, sem að því leyti er ókostur; hins vegar er þetta að því leyti kostur, að sú höfn, sem þarna yrði byggð, gæti fullkomlega svarað til þeirrar þróunar, sem við ætlum að verði á útgerðinni hér á landi, sem sé að þarna geti hafzt við stærri skip heldur en nú eru gerð út til fiskveiða hér á landi. Þetta er þess vegna að því leyti til kostur, eins og áður hefur verið sagt, sem gert yrði með þessum dýru framkvæmdum, því að jafnframt yrði séð fyrir þeirri framtíðarþróun á útgerðinni, sem yfirleitt er gengið út frá að muni verða hér á landi. Ég held þess vegna, að þar sem farið er fram á að veita fé úr hafnarbótasjóði, samræmist það fullkomlega þeirri hugsun, sem liggur til grundvallar hafnarbótasjóði, en það er að hrinda í framkvæmd varanlegri hafnargerð, sem getur haft varanlega þýðingu fyrir mjög mikinn hluta af bátaútgerð landsmanna. Við þau erfiðu skilyrði, sem nú eru og hafa verið á Akranesi, að því er öryggi á legu snertir, þá hefur það sýnt sig, að þangað hefur verið mikil aðsókn víðs vegar að úr verstöðvum til þess að fá þar viðlegu, eins og það er kallað, yfir vetrarvertíðina. Það hefur orðið að standa á móti þessu, af því að við höfum ekki haft afgreiðsluskilyrði til þess að taka á móti mjög auknum bátaflota. Úr þessu hefur þó nokkuð verið bætt, þar sem á síðastliðnu vori var byrjað að byggja bryggju innan við hafnargarðinn, sem nú er verið að ljúka við, svo að nú þarf ekki að vísa eins mörgum bátum frá eins og hingað til af þeim ástæðum, að þar væri ekki aðstaða til að afgreiða þá. Hins vegar hafa engar úrbætur fengizt til þessa hvað það snertir að skapa öryggi fyrir báta, og hafa oft á tíðum slys borið að höndum af þeim ástæðum; bátar hafa slitnað upp af legunni og rekið á land og brotnað svo mikið, að nauðsynlegt hefur verið að hafa þá í viðgerð langan tíma, eða þá að þeir hafa eyðilagzt algerlega, eins og átti sér stað um einn bát á síðastliðinni vertíð. Úr þessu yrði bætt, ef sá fjárhagsgrundvöllur undir hafnarbætur á Akranesi fengist, sem lagður er með því frv., sem hér liggur nú fyrir hv. d. Vænti ég og veit, að hv. Alþ. muni verða mjög fúst til þess að líta á allar kringumstæður og greiða götu þess, að á þessum málum, sem hafa jafnmikla fjárhagslega þýðingu fyrir heildarbátaútgerð landsmanna eins og í þeim raunverulega felst, verði þannig tekið, að þau fái viðunandi lausn hér á Alþ. Það er að vísu mikið í ráðizt fyrir Akurnesinga, sem hafa nú með höndum hafnargerð, sem kostar mikið fé, — og verður kaupstaðurinn að bera 3/5 af þeim kostnaði, auk þess sem á honum hvílir enn skuld af hafnarmálum, — að leggja nú fram á næsta ári 1 millj. kr. í þessum tilgangi og taka auk þess að láni jafnháa upphæð úr hafnarbótasjóði. Að vísu geri ég ráð fyrir því, ef fjárhagsástæður breytast ekki á Akranesi, að þegar á næsta ári muni verða tekin með í útsvör veruleg upphæð til þess að ljúka greiðslum á þeim hluta, sem fellur í hlut kaupstaðarins að greiða. Að undanförnu hafa verið lagðar á um 400 þús. kr. í útsvör, sem eingöngu hafa verið látnar ganga til hafnarbóta á staðnum, en það nemur nokkru meira en 1/3 af þeirri upphæð, sem innheimt er með útsvörum á þessum stað. Sýnir það ljóslega, hvað Akurnesingar vilja á sig leggja fyrir þessar framkvæmdir á höfninni á Akranesi. En þrátt fyrir það, að mikið sé í ráðizt fyrir kaupstaðinn, þá veit ég, að hann hikar ekki við að leggja í þessar framkvæmdir, ef sá fjárstuðningur fæst, sem gert er ráð fyrir með þessu frv. Ég verð því að segja það, að það væri sannarlega betur af stað farið en heima setið með hafnarbótasjóð, ef fyrsta átakinu varðandi fjárveitingu úr sjóðnum yrði varið til framkvæmda, sem hafa jafnmikla og almenna fjárhagslega þýðingu fyrir bátaútgerðina á Íslandi eins og það áreiðanlega hefur, ef hægt væri að skapa þær hafnaraðstæður á Akranesi, sem möguleikar eru til með þessu frv. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál og vænti, að það fái góðar undirtektir. Ég hef alltaf átt að mæta fullum skilningi hér á Alþ., þegar ég hef átt að berjast fyrir hagsmunamálum Akurnesinga eða annarra, sem njóta hliðstæðra hagsmunamála, og eins vænti ég að fari í sambandi við þann fjárstuðning, sem farið er fram á með þessu frv. Að lokinni þessari umr. vil ég svo fara fram á, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn., því að það er alveg rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. N-Ísf., að þessi frv., þetta sem hér liggur fyrir, og frv. til l. um breyt. á l. um hafnarbótasjóð, verður bæði að ræða samtímis, því að afdrif þessa frv., sem ég er frsm. fyrir, er á því byggt, að settar verði reglur um úthlutun fjár úr hafnarbótasjóði. Með öðrum hætti verður ekkert fé veitt úr sjóðnum, þar sem lögin mæla því í gegn, eins og þau eru nú. Ég vil svo aðeins bæta því við, að ég get fullkomlega látið það í ljós hér, að ef þessi fjárveiting fæst, þá verði, að óbreyttum kringumstæðum, árið 1946 sköpuð skilyrði fyrir allstóran bátaflota á Akranesi, svo að þar geti hafzt við bæði bátar frá Akranesi og einnig víðsvegar að úr verstöðvum.