18.10.1944
Neðri deild: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (3516)

160. mál, launa- og kaupgjaldsgreiðslur

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Það er nú kannske í raun og veru óþarfi að taka nokkuð til máls um þetta frv. Það vita allir, að það er ekki flutt í þeim tilgangi, að það verði samþ., það er ekki búizt við því af hv. flm., heldur er tilgangurinn hjá honum með því sá að reyna að spilla fyrir þeim samkomulagsumleitunum, sem hafa nú átt sér stað milli flokka hér á þingi um myndun stjórnar. Það er vitað, að Framsfl. er ekki með í því samkomulagi og hann gerir allt, sem hann getur, til þess að spilla því, að slík samtök geti tekizt. Og í þessum samkomulagsumleitunum hefur verið talað um þessi mál, sem frv. þetta er um, og Framsfl. hefur áhuga fyrir því að láta sína menn — hvort sem þeir eru framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn — reyna að spilla fyrir samkomulaginu, og í þeim tilgangi er þetta flutt. Og það er vitanlegt, að þetta frv. mun ekki ganga fram, og þess vegna er kannske ekki ástæða til þess að ræða þessa frumvarpsómynd. — En vegna þess, að bæði í frv. sjálfu og grg. þess og í þeirri ræðu einnig, sem hér var flutt af hv. flm. frv., hefur verið mælt af minnstu viti og minnstum rökum, sem gert hefur verið hér á Alþ. í sambandi við nokkurt frv., og má segja líka, að málstaðurinn, sem þarna er barizt fyrir, sé einna verstur, sem átt hefur sér stað í nokkru frv., sem hér hefur komið fram fyrir það fyrsta, — þá vildi ég leyfa mér að benda á, að það hafa engar till. komið fram frá atvinnurekendum um almennar kauplækkanir. Það virðist því undarlegt, að hv. flm. skuli setja í grg. þessa frv., að kaupgjaldsboginn sé þegar spenntur of hátt. Það virðist undarlegt, ef einhver maður, sem kunnugur er stórbændasjónarmiðum og talar aldrei um landsmál nema frá slíku sjónarmiði, ef hann ætti að hafa meira vit og þekkingu á því, hvað kaupinu liði heldur en atvinnurekendurnir sjálfir. — Ég held, að það þurfi ekki annað en aðeins þetta til þess að sýna fram á, að hér tekur hv. flm. munninn nokkuð fullan. Hér er hann að ræða um mál, sem hann veit ekkert um og er alveg ókunnugur. Ef það væri rétt, að kaupið væri of hátt og atvinnuvegirnir þyldu það ekki, þá hlytu atvinnurekendur að hafa heimtað almenna kauplækkun. Það þarf ekki annað en benda á þetta til þess að sýna, að þetta er gripið úr lausu lofti og stafar af því hyldýpi vanþekkingar, sem á sér stað hjá hv. flm. í þessum efnum.

Þá er sagt í grg. frv., að þetta frv. sé mjög í samræmi við frv. til l. um breyt. á l. um dýrtíðarráðstafanir, sem meiri hl. fjhn. Nd. Alþ. flytur, og er sagt í grg., að þar sé lagt til, að bændur falli frá allt að 10% hækkun á afurðaverði. En það er nú ekki nema 9,4%, — það er ekki nema smávegis ónákvæmni hjá hv. flm. En hvernig er þessari lækkun á afurðaverði bænda varið? Þeir fá í staðinn hvorki meira né minna en margar milljónir í uppbætur, — og það er ekki einu sinni ákveðið, hve mikið. Þeir fá sex manna n. verðið fyrir alla sína framleiðslu, hvort sem hún er seld utan lands eða innan. M. ö. o., fyrir að sleppa hækkuninni tryggja þeir sér milljónastyrki, sem óvíst er, hvort annars fengjust. Það verður að taka tillit til þess, að kaupgjald er yfirleitt ákveðið á milli verkamanna og vinnuveitenda, og er alltaf bezt að láta þá komast að samkomulagi sjálfa. Aftur á móti vita allir, að ekki er um frjálsa sölu að ræða á landbúnaðarvörum. Þvert á móti heimta þeir, sem um verðið fjalla, þvingunarákvæði til að skrúfa verðið upp. Þó að oft sé sagt, að kaupið sé svo hátt, vita allir, að t. d. er kaup í Ameríku miklu hærra en hér. Við getum ekki verið miðdepillinn, sem allt snýst um. Það er eðlilegt, að verðið sé það frjálsa markaðsverð.

Það er talað um það í grg., að það verði öllum til blessunar, ef eitthvað verði gert til að lækka dýrtíðina, og það sé eina leiðin. Og það er sagt, að það verði að hætta togstreitu milli stétta og að allir verði að leggja fram sinn skerf. Hverjir eru þessir „allir“? Það eru ekki aðrir en launþegarnir. Svo er vísað til þess, að bændur hafi offrað nokkru, en það eru öfugmæli. Það voru hrein búhyggindi af bændum að gera það, sem þeir gerðu. En látum svo vera. Ef frv. væri svo samþ., þá kæmu fórnir frá verkamönnum. En hvar er fórnin hjá hinum? Þó að bændur og verkamenn séu fjölmennir, þá hafa með þeim ekki allir fórnað, og það er tvímælalaust, að þeir, sem engu er ætlað að fórna, gætu bezt þolað fórnir.

Frv., sem er látið líta svo út sem það eigi að koma réttu lagi á launakjörin, en er borið fram í þeim tilgangi að spilla fyrir stjórnarmyndun, er skrípi. Það getur aldrei náð samþykki nú, og væri sæmra fyrir Alþ. að láta það sofna strax og eyða ekki dýrmætum tíma þingsins í fánýtar umræður um svo vesalt mál.