24.10.1944
Neðri deild: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (3525)

172. mál, gjaldeyrir til kaupa á framleiðslutækjum

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Eins og kunnugt er af ræðu þeirri, er ég flutti f. h. ríkisstj. s. l. laugardag, er það einn meginþáttur í stefnu stjórnarinnar að tryggja, að allir Íslendingar geti haft atvinnu við sem arðvænlegastan atvinnurekstur. Og í því skyni að ná þessu marki lagði ríkisstj. til, að af inneignum erlendis séu 300 millj. kr. lagðar á sérstakan reikning hjá bönkum innan lands og megi ekki verja því fé til annars en þeirrar endursköpunar, sem stjórnin gerði nánari grein fyrir, aðallega til kaupa erlendis og smíða hérlendis á framleiðslutækjum til að breyta og bæta framleiðslu manna til lands og sjávar. Enn fremur er þess að vænta, að n., sem ríkisstj. hefur sett til að rannsaka þessi mál og gera tillögur um annan gjaldeyri erlendis, skili áliti um þau efni innan eigi langs tíma. Ég leyfði mér að staðhæfa, að ríkisstj. teldi þetta meginmál sitt og mundi leggja áherzlu á að hrinda því í framkvæmd.

Um það frv., sem framsóknarmenn hafa lagt hér fram, vil ég ekkert segja nema lýsa ánægju minni yfir því, að sá flokkur skuli vera sammála ríkisstj. í meginatriðum málsins. Ég sé ekki ástæðu til að ræða á þessu stigi málsins, hvort einhverjir innan ríkisstj. vildu hnika til einhverjum þeim ákvæðum, sem lagt er til að setja í frv., en veit, að öll ríkisstj. mundi fagna því, ef hægt væri að ná um málið allsherjarsamkomulagi.