28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Herra for,seti. — Ef til vill væri viðkunnanlegra, að hæstv. atvmrh. væri viðstaddur við þessar umr., en þar sem nauðsynlegt er að ljúka þessu, áður en Alþ. verður frestað, tel ég rétt að reyna að flýta því að koma málinu til 3. umr.

N., sem hafði málið til meðferðar, hefur klofnað, og skilaði hv. 6. landsk. sérstöku nál., og auk þess hafa tveir nm., hv. 7. þm. Reykv. og ég, gert sérstakan fyrirvara.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt. við 5. gr., að af vaxtalausum lánum, sem veitt kunni að verða, skuli innheimtu hagað þannig, að hennar vegna þurfi ekki að verða stöðvun á rekstri hjá hlutaðeigandi skuldunaut, enda hafi fullrar hagsýni verið gætt í rekstrinum og fé eigi dregið út úr honum til annarra hluta. — Þessi brtt. er eins konar brú milli þeirra, sem vilja láta stuðninginn koma sem lán, og hinna, sem vilja láta hann vera styrk.

Hæstv. ríkisstj. hefur lagt til í upphaflega frv., að það yrði á valdi atvmrh., hvora leiðina yrði farið í hverju tilfelli, en hins vegar hefur minni hl. n. lagt til, að einungis verði veitt lán, engir styrkir, og leggur fram sérstaka brtt. á þskj. 66, sem hann eflaust gerir grein fyrir.

Það er almennt viðurkennt, að nauðsynlegt sé að endurnýja skipastólinn, og einnig, að smáskipastóllinn verður ekki endurnýjaður, nema veittir verði til þess einhvers konar styrkir. Byggingarkostnaður hefur nú margfaldazt svo, frá því sem var fyrir stríð, að það er auðséð, að nauðsynlegt er að veita styrki í einhverri mynd. Um það voru allir nm. sammála. Ágreiningurinn í n. var fyrst og fremst um það, hvort veita ætti styrki eða lán. Við tveir nm., sem höfum gert sérstakan fyrirvara, teljum rétt að láta það vera á valdi þess, sem stuðninginn á að fá, en jafnframt teljum við, að svo sé framtíð sjávarútvegsins bezt tryggð, að styrkir verði yfirleitt veittir, þótt heimild sé til hvors tveggja.

Ég vil benda á, að jafnvel á friðartímum sjá nágrannaþjóðir okkar, Danir og Norðmenn, ástæðu til að efla skipastól sinn, bæði með hagkvæmum lánum og styrkveitingum til smíði fiskiskipa, þannig að nokkru fyrir ófriðinn voru smíðuð 500 vélskip í Noregi með ríkisstyrk, sem nam 1/4 kostnaðar. Enn fremur eru styrkveitingar í samræmi við það, hvernig búið er að öðrum atvinnuvegum hér, t.d. styrkir til jarðræktar. Við 2 nm. viljum þó ekki gera mikinn ágreining um þetta, þótt við hefðum kosið, að styrkjaleiðin væri valin strax í byrjun.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta og óska, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.