17.11.1944
Neðri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (3531)

178. mál, fela stjórn Fiskifélags Íslands störf fiskimálanefndar

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. — L. um fiskimálan., útflutning á fiski og hagnýtingu markaða voru sett fyrst, að ég hygg, árið 1935. Síðan hefur þessum l. verið breytt nokkuð, fyrst 1937 og síðan 1940, og snerta þær breyt. eingöngu stjórn fiskimálasjóðs, eða þeirrar stjórnar, sem fer með þessi mál undir umsjón atvmrh.

Upphaflega var ákveðið, að 7 manna n. skyldi standa fyrir framkvæmd þessara l., svokölluð fiskimálan. Eftir 1940 var fækkað mönnum í n. þannig, að hún er ekki skipuð nema 3 mönnum eftir tilnefningu þriggja stærstu flokkanna á Alþ., og sú skipun á n. helzt enn þá. Starfssvið þessarar n., eða tilgangur þeirrar löggjafar, sem hér er um að ræða, er að ýmsu leyti mjög mikilsverður, því að fiskimálasjóður var m. a. stofnaður í þeim tilgangi að stuðla að ýmiss konar nýbreytni í verkun fiskafurða hér á landi með því að stuðla að því, að komið væri upp hraðfrystihúsum hér, fiskniðursuðu, og stuðla að því að leita nýrra markaða og breytinga í veiðiaðferðum, og svo loks að stuðla að því að leita nýrra fiskimiða. Þetta eru allt mjög mikilsverðir þættir í þróun annars aðalatvinnuvegar þjóðarinnar, þ. e. fiskveiðanna. Nú hefur á undanförnum árum eðlilega orðið nokkurt hlé á störfum þessa sjóðs. Eins og kunnugt er, hafa leiðir lokazt um skeið með eðlilegum hætti við ýmis lönd, sem við áður skiptum við og renndum hýrum augum til í þeirri von að geta aukið markaði okkar og fengið greiðari samgöngur. Af þessum ástæðum hefur ekki verið hrundið í framkvæmd nema tiltölulega fáum þáttum á þessu sviði atvinnulífsins, sem þarna átti að stuðla að á þessu tímabili.

Nú, þegar virðist rofa til í styrjaldarblikunni og menn gera sér vonir um, að þessum hildarleik ljúki, kemur að sjálfsögðu aftur að því, að hefjast verður handa um störf, og margt, sem gerzt hefur á styrjaldarárunum, bendir til þess, að greiðari gata ætti að vera fyrir Íslendinga að hrinda í framkvæmd ýmsum þeim umbótum, sem fjallað er um í þessum l., en áður var. Er að þessu vikið í grg. fyrir þessu frv., svo að mér þykir ekki ástæða til að fara hér nánar inn á það á þessu stigi málsins. Nú þarf sú starfsemi, sem fiskimálan. er ætluð á þessu sviði og fyrst og fremst er fólgin í því að vekja áhuga hjá útgerðarmönnum og sjómönnum víðs vegar um landið, að stuðla að því, að þeir séu vakandi á verðinum í þessum efnum, og veita þeim þá fræðslu, sem nauðsynleg er á þessum hlutum. Og svo í áframhaldi af því, þegar áhugi fyrir þessu hefur verið vakinn, þá getur fiskimálasjóður hlaupið undir bagga og veitt þann fjárhagslega stuðning, sem nauðsynlegur er til viðbótar þeirri fjárhagsgetu, sem einstaklingar og félög hafa á þessu sviði.

Ég hef lagt svo til í þessu frv., að stjórn Fiskifélags Íslands sé falin framkvæmd þessara l., og er það gert með sérstöku tilliti til þess viðhorfs, sem nú er í þessu máli, þ. e. aukinnar starfsemi á þessu sviði. Fiskifélag Íslands er áhugafélagsskapur, sem að vísu hefur ekki verið í jafnföstum skorðum út um byggðir landsins að undanförnu og nauðsynlegt hefði verið. Nú hefur nýlega orðið breyt. á þessu, með því að eftir þeim breyt., sem gerðar voru á l. Fiskifélagsins á síðasta fiskiþingi, eru deildir hvarvetna starfandi innan félagsins í verstöðvum landsins. Auk þess hafa þessar fiskifélagsdeildir með sér svokölluð fjórðungasambönd, þar sem rædd eru sameiginleg áhugamál deildanna, og loks eru kosnir fjórðungasambandsmenn til að mæta á fiskiþingum og bera fram óskir og gera ályktanir í þessum málum. Eins og Fiskifélag Íslands er nú byggt upp, þá leiðir af sjálfu sér, að stjórn þess er kjörinn aðili til þess að standa fyrir málum, sem l. um fiskimálasjóð gera ráð fyrir, að unnið sé að. Ég ætla, að það sé gerð góð grein fyrir þessu í grg. frv., svo að ég sé á þessu stigi málsins ekki ástæðu til að fara nánar inn á þetta atriði.

Ég vil bæta því við, að þetta frv. tekur ekki nema til annars þáttarins af breyt. þeim, sem vikið er að hér að framan, að gera þurfi á l. Það er um skipun þeirrar n., sem á að standa fyrir framkvæmd l. En hinn aðalþátturinn í þessari löggjöf er sá, að fiskimálasjóður hafi það fjármagn, sem nauðsynlegt er til þess að sinna þessum mikilsverðu verkefnum, sem nú blasa við okkur: að leita nýrra markaða og breyt. á verkunaraðferðum í sambandi við það, leita breyt. og endurbóta á veiðarfærum og svo loks að hefja leit að nýjum fiskimiðum. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því, að enn þá eru ónumin fiskigrunn á hinu stóra fiskveiðasvæði, sem liggur kringum allar strendur þessa lands. Það er því meiri ástæða til að sinna þessu máli, sem búast má við því, samkvæmt fenginni reynslu, að erlendur fiskifloti flykkist hér inn á miðin, sem, eins og reynsla hefur þegar fengizt fyrir, getur e. t. v. haft þær afleiðingar, að nokkuð dragi úr fiskveiðum á hinum þekktu fiskimiðum. Til þess að fylla í þau skörð og halda við eðlilegri þróun í þessari atvinnugrein þjóðarinnar, er vitanlega bráðnauðsynlegt, að leitað sé eftir nýjum fiskimiðum hér við strendur landsins.

Það væri mjög æskilegt að efla fjárhagsaðstöðu fiskimálasjóðs frá því, sem nú er. Samkv. reikningum fiskimálasjóðs í árslok 1943, voru í sjóðnum 2.300.000 kr. Höfuðstóllinn stendur að miklu leyti í útlánum víðs vegar til frystihúsa og annarra slíkra framkvæmda. Það leiðir því af sjálfu sér, að til þess að geta til fulls sinnt þeim margbreyttu verkefnum, sem nú blasa hér við í sambandi við verkun og sölu fiskafurða og þess alls, sem ég hef minnzt hér á, er nauðsynlegt, að fiskimálasjóður verði verulega efldur frá því, sem nú er. Mér þótti ekki fært, þegar ég bar fram þetta frv., að taka inn í það bein ákvæði um fiskimálasjóð. Eins og þar segir, stendur nú yfir undirbúningur að afgreiðslu fjárl. fyrir næsta ár, og ekki er enn séð, hvaða afstöðu Alþ. tekur til tekjuöflunar til þess að mæta nýjum útgjöldum, en á því veltur, hvort kleift reynist að efla fiskimálasjóð eða ekki. Þótti mér því rétt að láta athuganir á þessu bíða þess, að betur sæist, hvað ofan á yrði í þessum efnum.

Mér þykir svo á þessu stigi málsins ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þetta frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og sjútvn.