10.01.1945
Neðri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (3539)

234. mál, stimpilgjald

Garðar Þorsteinsson:

Mig langaði aðeins að segja örfá orð í sambandi við þetta mál; ég ætlaði eiginlega að gera það í gær við 1. umr., en það var enginn, sem mælti sérstaklega fyrir frv., svo að það féll niður. Mig langaði að spyrja hv. fjhn., sem flytur þetta mál, hvort ástæða muni vera til þess að setja stimpilgjald miðað við fimmfalt fasteignamat. Í grg. segir, að þess kunni að vera dæmi, að fasteignir séu seldar fyrir fimmfalt fasteignamat, en þau dæmi finnast ekki nema þegar verðbólgan er sem allra hæst vegna húsnæðisvandræða. Ég tel alveg undantekningu, ef fasteignir eru seldar fyrir fimmfalt verð, og miklu eðlilegra að miða við brunabótavirðingu. Það kann vel að vera, að ekki sé rétt að skylda menn til að gefa upp verð á fasteignum, eða sérstaklega þegar um makaskipti er að ræða, að þá kunni að vera eðlilegra undir vissum kringumstæðum, að það sé ekki gert, en ég vil skjóta því til hv. fjhn., hvort ekki mætti standa þrefalt eða fjórfalt eða þá brunabótavirðing. Þetta sama og útilokar, að stimpilgjald sé miðað við fasteignamat.