28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Eins og hér hefur fram komið, gat n. ekki orðið sammála. Ég lýsti yfir því við 1. umr., að það væru tvö mikilvæg atriði, sem ég gæti ekki fallizt á og mundi leitast við að fá breytt. Þótt ég hafi þá gert grein fyrir þessum atriðum, held ég, að rétt sé að fara nokkrum orðum til viðbótar um þau.

Meiri hl. n. vill veita þeim, sem smíða eða kaupa fiskiskip, beina, óafturkræfa styrki, en ég hef lagt til, að veitt verði hagkvæm lán. Ástæðan til þess, að ég tel lánaleiðina heppilegri, er fyrst og fremst sú, að ég tel, að á þann hátt sé hægt að auka fiskiskipaflotann meira. Ef styrkir verða veittir, eru það 60–70 aðilar, sem smíða eða kaupa 60–70 skip og fá þessar 5 millj. kr., en verði veitt lán, geta miklu fleiri notið hlunnindanna.

Undanfarið hefur byggingarkostnaður á fiskiskipum verið mjög hár, talið, að hver smálest kosti hér 10–12 þús. kr., og hefur þá átt- til tífaldazt frá því fyrir stríð. Nú hefur verið mikið rætt um skipakaup frá Svíþjóð, og eru það einu fiskiskipakaupin, sem standa fyrir dyrum. Því er verið að setja þessar reglur í sambandi við þessi kaup. Talað er um, að þau skip muni kosta 3–4 þús. kr. á smálest, þriðjung þess, sem hér hefur verið að undanförnu. Ég tel fullvíst, — er reyndar kunnugt um það í sumum tilfellum, — að það eru ekki fáir, sem vilja leggja í að kaupa skip fyrir þetta verð án þess að vera hvattir sérstaklega til þess með beinum peningagjöfum. Ég held því, að þótt styrkjaleiðin yrði farin og 60–70 aðilum veittar þessar 5 millj. kr., fengjum við ekki fleiri skip til landsins en ef við veittum lánin. En sá er munurinn að mínum dómi, að upphæðin er þá úr leik og ekki hægt að nota hana framar til að auka við skipastólinn. En þá álít ég, að farið sé út fyrir þá braut, sem stefnt var að á sínum tíma.

Því hefur verið haldið fram af þeim, sem telja styrkjaleiðina rétta, að verðið á skipunum sé svo hátt miðað við venjulega tíma, að því sé nokkur þörf á að veita mönnum þennan styrk til skipakaupa sem nokkurs konar fyrirframafskrift á verði skipanna. En ég álít, að slík afskrift sé annað úrlausnarefni en hér liggur beint fyrir í bili, því að það er vitað, að fjölmörg atvinnufyrirtæki í landinu, skipasmíðastöðvar, bátar og verksmiðjur; standa í of háu verði, og það er sérstakt úrlausnarefni að koma því svo fyrir, að þau framleiðslutæki, sem til eru, geti risið undir þeim stofnkostnaði, sem á þeim hvílir. Þetta eru t.d. þeir bátar, sem á síðastliðnu ári voru smíðaðir hér á landi og kostuðu 10–12 þús. kr. hver smálest, sem geta verið komnir ofan í 4 þús. kr. hver smálest að stríðinu loknu. Það er því ekki ástæða að veita styrk til þessara skipakaupa frekar en til ýmissa hliðstæðra fyrirtækja í landinu. Auk þess hef ég bent á það, að ég tel mjög mikinn vanda að eiga að velja 50–60 aðila af 2–3 hundruðum manna, sem óska að kaupa þessi sænsku skip, og svo til viðbótar er það, að það á að færa þeim útvöldu, sem fá að kaupa skipin, veruleg fjárframlög með skipunum sem raunverulega gjöf. Ég sé ekki annað en þetta verði nokkuð vandasamt á sama tíma og menn bjóðast til að kaupa skipin fullu verði. Ég held sem sagt, ef þetta reynist svo sem allt bendir á, að sænsku fiskiskipin muni ekki kosta nema 3–4 þús. kr. hver smálest, að þá sé ekki þörf á að veita neinn beinan styrk til þessara skipakaupa. En hins vegar álít ég, að til séu ýmsir sjómenn og útgerðarmenn, sem nauðsynlegt er að veita nokkur viðbótarlán umfram það, er lánsstofnanir veita. Mér finnst því rétt að gera ráð fyrir því, að verja megi nokkurri upphæð í lán til slíkra manna, sem sýna, að þeir þurfi á þeim að halda og ættu að eignast skip að dómi þeirra manna, sem með þessi mál kunna að fara.

Ég hef líka bent á það, að rétt væri, að ríkið notaði þessar 5 millj. kr. til þess að láta smíða fyrir skip hér á landi og selja þau svo þeim, sem geta og vilja kaupa þau. Auk þess er það skoðun mín eins og margra fleiri, að styrkjaleiðin sé mjög hvimleið og að forðast beri þessa styrkjapólitík, sem rekin hefur verið hér undanfarið. Ég hef heyrt á mönnum úr öllum flokkum, að þeir vilja losna við þessa styrkjapólitík og stefna inn á þá braut. En svo hafa aðrir komið fram með þau rök, að vegna þess að hliðstæðir styrkir hafi verið veittir í öðrum tilfellum, þá sé rétt að veita þá hér líka. Með þessu finnst mér, að verið sé að festa sig í ógöngum í stað þess að hverfa frá þeim, áður en að sök kemur.

Ég hef líka bent á, að nokkur hætta væri á því, að ekki verði hægt að kaupa hina smærri báta frá Svíþjóð. En við notum allmikið 10–12 tonna báta, og það mun verða áframhald á því. En ólíklegt er, að þeir bátar, sem við fáum frá Svíþjóð, verði undir 30 smálestum. En ef það hins vegar blasir við þeim, sem þurfa að endurnýja þessar smáfleytur, að þessi endurnýjun kosti 10–12 þús. kr. á hverja smálest, þá getur vel komið til mála, að hið opinbera þurfi að skerast í leik með sérstaka aðstoð. Það væri illa farið, ef þá væri búið að veita 5 millj. kr. að óþörfu í óafturkræfan styrk til aðila, sem kaupa stór og ódýr skip, án þess á nokkurn hátt að efla skipastól landsmanna fram yfir það, sem yrði, ef menn nytu lánskjara.

Þá er það annað atriði í frv., sem ég er óánægður með, en það er atriðið í 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að atvmrh. veiti styrkinn. Mér finnst með öllu óeðlilegt, þegar um slíkan stuðning er að ræða eins og hér, 5 millj. kr. styrk úr ríkissjóði, að þá sé einn maður látinn hafa með þetta að gera eða svo til. Ég hefði helzt kosið, að sérstök n. hefði með þetta að gera, skipuð fulltrúum frá þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli. Þess vegna geri ég ráð fyrir því í till. minni, að sérstök fimm manna n. annist ráðstöfun fjárins samkvæmt því, sem l. leyfa, þannig að Alþýðusamband Íslands, sem eru skipulögð samtök sjómannastéttarinnar almennt, tilnefni einn fulltrúa, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, sem er samtök yfirmanna á fiskiskipaflotanum, tilnefni einn mann og Fiskifélag Íslands tilnefni einn mann sem fulltrúa útgerðarmanna sjálfra. Fjórði maðurinn skal skipaður eftir tilnefningu frá Fiskveiðasjóði Íslands, sem er opinber stofnun og sér sérstaklega um þessi mál. Fimmta manninn skipar atvmrh. án tilnefningar. Með þessu álít ég, að þeir aðilar, sem ganga eiga fyrir um stuðning, sem sé sjómenn og útgerðarmenn, komi til með að hafa áhrif á það, hverjir njóta þessa stuðnings og komi þar til greina, eftir því sem Alþ. nánar ákveður. En hina leiðina, að aðeins atvmrh. sjái um þetta, að vísu eftir till. frá Fiskifélagi Íslands, get ég ekki fallizt á og tel hana óeðlilega.

Till. mínar miða fyrst og fremst að þessu tvennu, að hverfa frá styrkjapólitíkinni og breyta því ákvæði, að atvmrh. fari með þessi mál, en setja í staðinn sérstaka nefnd. En vegna þess, að þessi tvö atriði grípa inn í hverja einustu gr. frv., hef ég flutt brtt. við nálega allar gr. þess. Verði fyrsta brtt. mín felld, þá falla hinar reyndar af sjálfu sér, og þá mundi ég taka þær aftur, en reyna við 3. umr. að koma fram nokkrum breyt., ef menn geta ekki fallizt á þessar núna.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta.