10.01.1945
Neðri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (3540)

234. mál, stimpilgjald

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og við segjum í grg., þá er málið flutt fyrir hönd hæstv. ríkisstj. eftir ósk hæstv. fjmrh.

Ég hef skilið frv. svo, að menn eftir sem áður borgi af söluverði, þannig að þegar það er lægra en fimmfalt fasteignamat, þá borgi þeir ekki af fimmföldu. heldur raunverulegu söluverði, en aftur á móti sé þetta ákvæði um fimmfalt fasteignamat haft svo hátt, til þess að nokkurn veginn öruggt sé, að menn borgi af öllu söluverðinu í því tilfelli, þegar þeir ekki kjósa að gefa upp hið raunverulega söluverð. Nú getur verið að menn kæri sig ekki um að taka söluverðið fram í afsalinu og kjósi heldur að borga af fimmföldu fasteignamati, og þá er það fyllilega heimilt. Ég hef ekki kannað það að vísu, en ég bjóst við, að þetta mundi ekki vera strangar nú en hitt á sinni tíð, þegar ákveðið var að borga af tvöföldu fasteignamati, ef ekkert var gefið upp.

Tilgangur löggjafans er vitanlega sá, að borgað sé stimpilgjald af þeim raunverulegu upphæðum, sem verzlað er í. Það er ekki hægt að tryggja það með öðru móti en því að hafa áætlaða verðið nokkuð hátt.