10.01.1945
Neðri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

234. mál, stimpilgjald

Páll Zóphóníasson:

Ég ætla að beina þeirri athugasemd til hv. fjhn., hvort hún vildi milli umr. athuga, hvort ekki væri rétt að setja einnig inn í þessi l. lágmark, sem stimpilgjald er greitt af. Þegar menn gefa ekki upp söluverð, þá er það sjaldnast út af fyrir sig af því, að þeir vilji komast undan stimpilgjaldi, heldur miklu algengara til þess að koma ekki upp um fé, sem áður hefur verið svikið undan skatti. Menn eru búnir að svíkja undan skatti svo og svo mikið fé, sem þeir hafa síðan lagt í fasteignir, og ef þeir þinglýsa verðið eins hátt og það er, þá kemst upp um skattsvikin. Þetta er ákaflega algengt, og á hverju ári eru margir menn, sem kaupa eignir háu verði og nota til þess fé, sem þeir hafa ekki talið fram. Ef hið háa kaupverð þá kemst upp, verða þeir að gera grein fyrir, hvaðan þeir hafi haft fé til að greiða með, og geti þeir það ekki, kemst upp um skattsvik. Til þess að komast hjá þessu, fá margir kaupverðið sett lægra en það er raunverulega og láta þinglýsa því. Lágmarkssöluverð fasteigna er nú aldrei innan við þrefalt fasteignamat og svo upp í fimmfalt. Þess vegna vildi ég láta athuga, hvort ekki gæti komið til mála, að aldrei væri borgað minna en af þreföldu fasteignamati, og ef ekkert er gefið upp, þá fimmfalt.

Þetta vildi ég biðja n. að athuga fyrir næstu umr. Mönnum er alveg sama um stimpilgjaldið út af fyrir sig, en hitt er það, að þeir verja til kaupanna fé, sem þeir eru áður búnir að fela og vilja ekki láta komast upp um. Þess vegna gefa þeir ekki neitt upp, og þá er það vægasta, sem hægt er að gera við þá, að skylda þá til að greiða af þreföldu fasteignamati. Ég vona, að n. athugi þetta milli umr., og skal ég ekki hafa þessi orð lengri.