17.11.1944
Neðri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í C-deild Alþingistíðinda. (3543)

182. mál, vatnalög

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. — Vatnalögin, sem sett voru 1923, voru vel og vandlega undirbúin á sínum tíma, enda hafa ekki miklar breyt. verið gerðar á þeim síðan, sízt um stærstu atriðin. Þau hafa lítt komið til framkvæmda um vatnavirkjanir. Stærstu orkuverin, við Sog og Laxá, hafa verið reist án vatnsmiðlunar og án þess að af hlytust nokkur teljandi landspjöll. Með vatnal. er gengið vandlega frá því, að ekki sé hægt að bregða fæti fyrir vatnsvirkjanir og aðrar nauðsynlegar framkvæmdir, þótt landspjöllum valdi. Og í öðru lagi, að eigendur þessa lands og þeir, sem verða fyrir sérstökum átroðningi, fái skaða sinn að fullu bættan. Frá þessu er mjög vandlega gengið í l. Og við þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið að þessu, hefur ekki komið í ljós, að þar hafi verið neinir ágallar á.

En nú hefur svo farið, þegar þriðja mannvirkið var reist, sem verið er að vinna að, Skeiðsfossvirkjunin, þá er fyrirhuguð mikil vatnsmiðlun, sem eyðileggur eða stórspillir öllum jörðum, svo að það er óhætt að segja, að það er mjög mikið alvörumál fyrir það sveitarfélag, sem fyrir þessu verður. — Eins og ég sagði áðan, þá er eftir löggjöfinni, eins og hún er nú, leitazt við að tryggja, að ekki sé hægt að hindra almennar framkvæmdir og réttur einstaklinga til bóta tryggður í þessum efnum. Aftur virðast sveitarfélögin hafa gleymzt. Og við vatnsmiðlun, þegar stór landssvæði eru tekin undir vatn, má alltaf búast við, að það taki til margra jarða, og sú hefur líka reyndin orðið á. — Nú gera l. ráð fyrir, að þeir menn, sem. fyrir þessu verða, eigi sinn kröfurétt á bótum. Og ég ber út af fyrir sig ekki kvíðboga fyrir því, að þessir menn fái ekki skaða sinn bættan. En við skulum hugsa okkur, að eigandi einnar jarðar eða eigendur fleiri jarða, sem fyrir tjóni hefðu orðið vegna vatnsmiðlunar, flyttu sig og settust að í öðrum sveitarfélögum. Hann eða þeir fá sinn skaða bættan, sína peninga greidda. En setjum svo, að jörðin eða jarðirnar þyki svo lítils virði eftir þetta, að það verði til þess, að hún eða þær fari í eyði, af því að jörðin eða jarðirnar eru rýrðar og kannske hálfeyðilagðar. Og ef enginn ábúandi fæst á þær, þá missir sveitarfélagið þar með gjaldendur. — Það getur verið þannig í slíkum tilfellum, að maður, sem á slíka jörð, sé kannake kominn á gamals aldur og vilji ekki leggja í þær jarðabætur, sem þarf til þess að bæta jörðinni þau landspjöll, sem hún hefur orðið fyrir, og flytji því burt úr sveitinni með sína peninga, sem hann hefur fengið í skaðabætur. — Þetta er gloppa á vatnal., sem nauðsynlega þarf að bæta. Þó að þetta sé nokkuð einstakt í sinni röð hjá okkur, eins og nú standa sakir, þá verðum við að hugsa til þess, að hér á landi verði í framtíðinni miklar vatnsvirkjanir og miklar vatnsmiðlanir í sambandi við þær. Megum við þá búast við, að auðveldlega geti svo farið, að ekki aðeins Fljótin verði fyrir barðinu á þessu, heldur mörg önnur sveitarfélög og jafnvel enn tilfinnanlegar en hér hefur átt sér stað. Það er því full ástæða til þess hér á hæstv. Alþingi að taka þessi atriði að nýju til athugunar.

Ég vil ekki fullyrða, að sú breyt., sem við höfum hér lagt til, sé það eina, sem til mála geti komið. Það má vel vera, að það megi ná þessu með öðrum leiðum. Og ég er fús til þess að ræða við hv. allshn., sem ég geri ráð fyrir, að málið fari til, um breyt. á þessum till., sem í frv. eru, sem kæmu að betra haldi. Aðalatriðið, sem fyrir okkur flm. vakir, er, að við viljum ekki á neinn hátt bregða fæti fyrir þær virkjanir, sem nauðsynlegar eru. Við viljum ekki heldur skerða rétt einstaklinga, þannig að þeir fái ekki sínar bætur, og við viljum reyna að gera þeim svo lítið ógagn sem mögulegt er. En við teljum rétt og skylt að gera kröfu til þess, að því sé hagað þannig, að sveitarfélagi, sem verður fyrir tjóni vegna vatnsvirkjana, verði ekki komið í fjárhagsleg vandræði og öngþveiti, sem ófyrirsjáanlegt er, hvaða áhrif kann að hafa. Og þetta gildir ekki aðeins viðkomandi sveitarfélag, heldur einnig viðkomandi sýslufélag, því að ef eitt sveitarfélag kemst í fjárhagslegt öngþveiti, bitnar það á sýslufélaginu, sem það sveitarfélag er í, þar sem sveitarfélagið er einn aðili og gjaldandi sýslufélagsins.

Ég vil þess vegna vænta þess, að þetta mál verði gaumgæfilega athugað. Þetta er alvörumál, því að þó að það í svipinn snerti ekki nema eitt sveitarfélag, þá getur svo farið, að það snerti mörg sveitarfélög áður en lýkur. Og bezt er þá í þessu efni að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í, — það er bezt að gera ráðstafanir, sem tryggja ekki aðeins einstaklinginn, heldur líka sveitarfélagið að þessu leyti.

Legg ég svo til, að málinu verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og allshn.