14.12.1944
Neðri deild: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (3552)

182. mál, vatnalög

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

— Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð. Ég get skírskotað til nál. á þskj. 676 um afstöðu meiri hl. n. til málsins. Hv. 2. landsk. gat ekki orðið sammála n. um afgr. frv., og hygg ég, að hann muni gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins, en hann telur frv. óþarft. Hins vegar sýnist meiri hl. n. málið þannig vaxið, þótt ekki sé búið að ganga frá því, að það kunni að snerta það mikið hagsmuni þessara tveggja sveitarfélaga, sem virkjunin kemur til með að hafa áhrif á, þ. á m. sumar jarðir stórvægilega, að ekki sé annað hægt af þingsins hálfu en að tryggja eitthvað betur en gildandi löggjöf gerir hagsmuni þessara sveitarfélaga, því að eftir því, sem kunnugir menn telja, þá hefur þetta svo mikil áhrif á fjárhag og afkomu sveitarfélaganna, að það er því nær óhjákvæmilegt að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem bæta sveitarfélögunum að einhverju leyti upp það tjón, sem þau kunna að bíða af virkjuninni, meira en skylt er að gera eftir núgildandi l. Það er á engan hátt verið að sveigja að þeim, sem þessar framkvæmdir annast. Þeir hafa þar farið að lögum, og við því er ekkert að segja.

Annar tilgangur okkar meiri hl. n. er sá, ef skyldi nú verða annað fyrirkomulag á slíkum málefnum í framtíðinni, að tryggja það, að til þess komi ekki, þegar samningar eru gerðir um slíkar framkvæmdir, að hagsmunum sveitarfélaganna sé þá ekki vel borgið með slíkum samningagerðum, og tryggt verði, að það megi heppnast, ef þeir einstaklingar, sem slíkar framkvæmdir snerta, sveitarfélög og ríkið sjálft, eiga þar hlut að máli og geta alveg tryggt þessa hagsmuni, áður en til framkvæmda er ráðizt.

Ég held líka, að það sé með mestu forsjá gert að hafa löggjöfina þannig úr garði gerða, að ekki sé mikil hætta á því, að það geti endurtekið sig, að hið opinbera þurfi að hlaupa undir bagga, eftir að ráðizt hefur verið í framkvæmdir, og þessu til áréttingar flytur meiri hl. n. þessa brtt. við frv.

3. liður brtt. snertir aftur á móti þá einstaklinga, er kunna að verða fyrir þungum búsifjum. Við viljum, að þeir hafi frjálsræði til að velja um, hvort þeir dvelja í sveitarfélaginu áfram eða kjósa sér fremur að starfa utan þess. Því að það getum við ekki fallizt á, að sett sé slíkt haft á frjálsræði manna, að þeir séu af fjárhagslegum ástæðum bundnir og geti sig ekki hreyft, enda mun það ekki vera meining hv. flm., að þetta ákvæði sé skilið á þennan hátt. En við viljum með þessari brtt. taka af allan vafa um, að menn séu frjálsir að því, hvort þeir nota þessa fjármuni, sem þeir kunna að fá fyrir sínar jarðir heima í sveitinni, eða flytja búferlum og taka upp störf annars staðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar af hálfu meiri hl. nefndarinnar.