14.12.1944
Neðri deild: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (3556)

182. mál, vatnalög

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki skilað sérstöku áliti um þetta mál og mun láta mig það litlu skipta. Ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á, að farið er inn á varhugaverða braut, ef þessi l. verða samþ. og farið verður eftir því, sem meiri hl. n. leggur til.

Það, sem mér í fyrsta lagi þykir mestu máli skipta, er það, að ég tel mjög óréttlátt, ef menn, sem eiga jarðir, er fara undir vatn, eins og hér er um að ræða, mega ekki hafa umráðarétt yfir því fé, sem þeir fá með samkomulagi eða beinu mati, ef aðeins vatnsvirkjun er framkvæmd. Hugsum okkur t. d, að þannig stæði á, að tveir menn ættu jarðir í sömu sveit. Annar maðurinn selur jörð sína fyrir ákveðið verð og getur farið með andvirðið eins og sína eign. Hinn maðurinn, aftur á móti, sem er ekki heppinn, má ekki ráðstafa því fé, sem hann getur fengið fyrir sína jörð, og mundi hann þá vafalaust telja sig mjög illa leikinn.

Í öðru lagi, ef farið er hér inn á þessa braut, dregur það mikinn dilk á eftir sér fyrir ríkissjóð. Hjá því verður ekki komizt, því að svo er ráð fyrir gert, að maður, sem þannig selur jörð sína eða missir undir vatn, eigi heimtingu á bótafé til að koma upp nýbýli á betri stað innan sama þjóðfélags. Allir sjá, að ef ekki verður um þetta samkomulag, sem alltaf getur komið fyrir, og maðurinn getur svo krafizt þess, að jarðakaupasjóður ríkisins taki við jörðinni með þeim skyldum, sem slíku fylgja, fyrir það matsverð, sem miðað er við bændur, — getur svo farið, að ríkissjóði verði bundinn þungur baggi. Tökum dæmi úr Fljótum. Þar hefur farið fram undirmat á þeim jörðum, sem hafa farið í vatn. Matið er 13 þús. kr. á nokkrum jörðum, en vitanlega hefði eigendunum ekki dottið í hug að selja þessar jarðir fyrir tveimur árum, með húsbyggingum og öllu, fyrir meira en helming þess fjár, sem nú er metið, að fari undir vatn. Og það, sem segir í grg., að hér sé um landspjöll að ræða, er hreinasta vitleysa, heldur er aðeins um að ræða skika af hverri jörð. Allar þessar jarðir eru byggilegar áfram, og ég er viss um, að ekki þarf að minnka bú á neinni þeirra. Þetta í nál. er því talað af eintómri vanþekkingu.

Það er því tvennt, sem mér finnst mestu máli skipta. Annars vegar óréttlæti gagnvart þeim mönnum, sem kunna að missa jarðir sínar, og svo hins vegar, að ef farið verður inn á þessa braut, er óhætt að reikna með því, að um stór útgjöld geti orðið að ræða, því að þótt talað sé um það hér í nál., að ætlazt sé til, að það verði ekki svo í framtíðinni, mun þetta vissulega draga dilk á eftir sér fyrir ríkissjóð.

Ég veit, að hérna liggja á bak við mismunandi lífsskoðanir. Það eru til menn, sem álíta, að miða eigi alla atvinnu landsmanna við landbúnaðinn. Með því standi og falli landsmenn. Hins vegar er það skoðun annarra, að við eigum að byggja á sjávarútveginum.

Án þess að ég vilji eyða meiri tíma, vil ég minna á, að þar sem verið er að tala um, að þetta geti komið svo þungt niður á sveitarfélaginu í sambandi við virkjunina, þá er það svo í Fljótum, að þótt þar rýrni búrekstur á þremur eða fjórum jörðum, þá koma þessir vélaverðir til með að borga hærra útsvar en þessir bændur allir saman, svo að sveitarfélagið kemur til með að græða á þessu. Ég vil því eindregið leggja til, að þetta vanhugsaða frv. verði fellt.