28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Pétur Ottesen:

Ég gat þess hér við fyrstu umr. þessa máls, að ég hefði talið það nær tilgangi þeirra, sem stóðu að þessari till., að veita ríkisstj. heimild til þess að verja 5 millj. kr. til skipasmíða, að fé þetta yrði veitt sem styrkur, en ekki sem lán. Gerði ég þá grein fyrir því og lagði á það áherzlu, að mikils væri um vert, að fé þetta yrði nú við fyrsta tækifæri notað til þess að örva menn til skipasmíða, og mætti búast við, að samfara því að nota fyrsta tækifæri til skipasmíða yrðu menn að mæta þungum kostnaði út af því, hvað skipin yrðu dýr. En til þess sem sagt að hvetja menn til að ráðast í að smíða ný skip, þá væri þannig með þessum fjárframlögum út rétt hönd ríkisvaldsins að taka nokkurn þátt í þeim fyrirsjáanlegu afskriftum, sem yrðu fram að fara þessum skipum, þegar fara ætti að reka þau, eftir að annað verðlag er komið á afurðirnar en nú er.

Þegar frv. þetta kom hér fram, þá lét ég í ljós þá skoðun mína, að tilganginum yrði bezt náð með því, að fé þetta yrði veitt sem styrkur. Ég vildi, að málið hefði verið frá upphafi flutt á þeim grundvelli, og mér er ánægja að sjá, að tveir sjútvnmanna, þm. Ísaf. og 7. þm. Reykv., hafa einmitt tekið undir þessa skoðun og sett hana fram í nál. Ég vil skjóta því til þessara hv. þm., hvort þeir vilji ekki flytja brtt. við 3. umr. um, að tekið verði inn í þetta frv. ákvæði um það, að menn gætu valið á milli styrkja og lána með þeim hagkvæmu kjörum, sem gert er ráð fyrir í frv.

Mér skilst, að eins og frv. er orðað, þá sé gert ráð fyrir, að svo geti staðið á um efnahag manna, að ekki sé ástæða að veita þeim styrk, þó að þeir ráðist í skipakaup. Í öðrum tilfellum skilst mér, að nokkur ástæða geti verið til þess að gera greinarmun á því, hvað styrkurinn verður hár, en í frv., eins og það upphaflega er, er aðeins nefndur hámarksstyrkur.

Hv. 6. landsk. þm. hefur talað hér og sagt, að svo margir óskuðu eftir að fá smíðuð skip, að þar væri ekki yfir neinu að kvarta, og miðaði þá við þau skip, sem við væntanlega fáum smíðuð í Svíþjóð. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að menn hafa skrifað ríkisstj. og sótzt eftir að geta notað þá möguleika, sem þar eru til skipasmíða. En ég býst við, að þessar umsóknir séu miðaðar við það, að gert sé ráð fyrir, að veittur verði styrkur til þessara skipasmíða. Það hefur áður verið farið inn á þá braut, því að Fiskveiðasjóði hefur verið heimilað að verja allt að 2 millj. kr. í styrk til bátaútvegsins, og er þegar farið að veita styrk samkv. heimild þeirra l. Ég veit ekki satt að segja, hvað þau skip, sem við fáum frá Svíþjóð, munu raunverulega kosta. Þar kemur margt til greina, sem upplýsingar vantar enn um. Þótt samið sé um, að skipin fullbúin kosti þetta eða hitt, þá getur vel svo farið, að það þurfi að geyma skipin í Svíþjóð, og sú geymsla getur kostað mikið fé. Það er vitað, að ekki dugir að láta skip, sem búið er að smíða, standa uppi á landi og gisna og rifna í sundur. Það verður að gera ráðstafanir til þess, að þau skemmist ekki við geymsluna. En það kostar stöðugt eftirlit, og auk þess er svo eftir að koma þeim hingað heim. Þetta mál er því ekki komið á það stig, að fullvíst sé, hvað skipin muni kosta komin hingað til landsins.

Það voru nokkur atriði í þessu frv., sem ég vildi minnast á, og vil ég beina þeim athugunum til hv. sjútvn., að hún taki það til athugunar fyrir 3. umr. málsins. — Það er þá í fyrsta lagi við 2. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir, að atvmrn. samþykki teikningar skipanna og Fiskifélag Íslands mæli með þeim. Hins vegar hefur mér skilizt, að að því er snertir vélar skipanna, þá eigi þetta að heyra undir atvmrh. einan, en Fiskifélagið hafi þar ekki tillögurétt, eftir því sem það er orðað í gr. En mér finnst ástæða til að krefja hér til kunnáttumann um það, hvernig haga skuli vélakaupum í þessu skyni. En þennan kunnáttumann hefur Fiskifélag Íslands á sínum vegum. Allir vita, að það er mikið mein hér á Íslandi, hvað margar vélategundir eru í bátunum okkar. Þetta veldur miklum kostnaði, og af þessu stafa mjög miklir örðugleikar, því að það er erfitt og dýrt að hafa alltaf varahluti í allan þennan fjölda véla. En þetta horfir öðruvísi við, ef um færri tegundir véla er að ræða. Ég álít þess vegna, að álits Fiskifélagsins ætti sérstaklega að leita um þetta atriði. Það þarf aðeins að breyta orðalagi gr. til þess að kippa þessu í lag.

Þá er það 3. og 4. gr. Í 3. gr. virðist mér ekki koma nægilega skýrt fram um íhlutun Fiskifélags Íslands, að því er styrkveitingar snertir, og þarf gr. því nokkurra umbóta við. Hins vegar er í 4. gr. gert ráð fyrir því, að ákvörðun um lánveitingar og styrkveitingar verði tekin með tilliti til efnahags umsækjanda. Mér finnst eðlilegt, að álits Fiskifélagsins sé líka leitað um það, hvort aðili komi til greina sem lánþegi eða styrkþegi, og um það, hversu hátt lán eða styrk hver einstakur maður skuli fá. Mér finnst, að Fiskifélagið ætti að fá að gera sínar till. þessu viðvíkjandi.

Þá er í 7. gr. talað um, að styrkir geti orðið endurkræfir, ef skip hættir fiskveiðum eða er tekið til annarra nota í meira en sex mánuði. Mér finnst, að hér ætti að skjóta inn í á eftir orðunum „til fiskveiða“ — „og fiskflutninga“, því að þetta er sama eðlis og nátengt hvort öðru.

Þá er í 9. gr. gert ráð fyrir því, ef um lán sé að ræða, að afhenda skuli Fiskveiðasjóði Íslands lánsfjárhæðina og hann sjái þá um útgáfu skuldabréfa fyrir láninu og taki við greiðslu afborgana. Mér hefði fundizt eðlilegast að láta Fiskveiðasjóð hafa afgreiðslu á lánum og styrkjum og það því fremur sem Fiskveiðasjóður á að gera þetta án endurgjalds. En ef farið væri að fela þetta öðrum aðila, mundi leiða af því einhvern kostnað.

Loks er í 11. gr. svo ákveðið, að nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara geti ráðh. sett með reglugerð. — Það er náttúrlega sjálfsagt, að þar sé bætt við: „að fengnum tillögum Fiskifélags Íslands“. Væri það í samræmi við l. um Fiskveiðasjóð, þar sem gert er ráð fyrir, að ráðh. setji með . reglugerð ákvæði um nánari framkvæmdaatriði og um það eigi að leita álits Fiskifélags Íslands.

Ég vildi aðeins skjóta þessu til hv. sjútvn., að hún taki þessi atriði til athugunar, um leið og ég vil svo endurnýja tilmæli mín til hv. þm. Ísaf. og hv. 7. þm. Reykv. um það, að nokkuð væri betur um þetta búið, ef styrkjaleiðin yrði valin, en gert er í þessu frv. Og mér þykir alveg sérstök ástæða til að gera þetta frá sjónarmiði þeirra manna, sem álíta þetta hagkvæmara, af því að hæstv. atvmrh. lét orð um það falla við 1. umr. þessa máls, að sér væri lánaleiðin hugleiknari.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að setja einhverjar hömlur á, ef eigendaskipti verða á þessum bátum, og það er í samræmi við þá reglugerð, sem gerð var í sambandi við l. um Fiskveiðasjóð Íslands, að því er tekur til styrkveitinga úr sjóðnum. Þó ætla ég, að í þeirri reglugerð sé ákveðið, að þetta skuli aðeins gilda í fimm ár. Og þó að svo sé ákveðið, er náttúrlega hægt að framlengja það. En hér er í þessu frv. ekki sett neitt þannig lagað tímatakmark. Þess vegna er að sjálfsögðu, eins og líka vera ber, tekið ákvæði inn í þetta frv. um það, að ef verð skipanna, — miðað við þær kringumstæður, sem þá eru, þegar til slíks kæmi, hefur fallið vegna verðfalls yfirleitt svo mikið, að styrkurinn væri horfinn af þeim ástæðum, þá komi ekki til, að krafizt verði neinnar endurgreiðslu. Enda hygg ég, að svo sé frá gengið í þessu frv., að öruggt sé, að ekki yrði farið inn á þá braut.