16.11.1944
Neðri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. Nd. hefur fjallað um þetta mál og orðið einhuga um að mæla með samþykkt frv. með ofur litlum orðabreytingum. Hún var öll þess álits, að það væri tímabært, að Búnaðarfélag Íslands aflaði sér eigin fjár til starfsemi sinnar, en þetta gjald greiðist af sölu landbúnaðarvara. Er þetta hliðstætt því, að ákveðinn hluti af verði útflluttra sjávarafurða gengur til eflingar fiskveiðasjóði.

Ég hef áður farið nokkuð ýtarlega út í þetta frv. og tel ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég þá sagði, og mæli með því við hv. d., að hún veiti frv. brautargengi. Brtt. er á þskj. 453 og er aðeins til nánari skýringar á tilsvarandi greinum. Breytingarnar eru þær við 1. gr., að í stað orðanna „heilsöluverði varanna“ komi: því verði, er framleiðendum er greitt fyrir vöruna á hverjum tíma. — Í öðru lagi, að á eftir orðunum „eða söluverð erlendis (cif.) að“ komi: að viðbættum útflutningsuppbótum, ef greiddar eru, en að. Niðurlag 2. gr. orðist svo: svo og loðskinnum og öðrum söluvörum landbúnaðarins. — Með öðrum orðum, að loðskinn verði líka gjaldskyld, og er það samkv. bendingu búnaðarþings. En búnaðarþing fékk þetta mál til meðferðar og lagði eindregið til, að það næði fram að ganga með þessum breyt.