28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Ég skal ekki vera fjölorður um þetta, því að nauðsynlegt er, að málið verði samþ. nú til 3. umr. Ég hef í rauninni ekki mikið að segja umfram það, sem ég hef áður sagt. Ég hef lýst afstöðu minni til málsins, útskýrt, hvers vegna ég vil þær brtt., sem tilgreindar eru á þskj. 66. En það voru fáein atriði í ræðu hæstv. atvmrh., sem ég vildi víkja að fáum orðum. Hann dró af ræðu minni þá ályktun, að ég ætti að geta verið samþykkur þeim atriðum frv., sem gera ráð fyrir bæði lánum og styrkjum, af því að ég hafi minnzt á, að komið gæti til mála að gera sérstakar ráðstafanir til styrkja handa smáskipum. En ég vil taka fram, að ég hef lýst yfir, að ákvæði þessa frv. eru fyrst og fremst sett vegna þeirra skipakaupa, sem nú standa fyrir dyrum, sem eru hin sænsku skip, og það ber því fyrst og fremst að miða þessar reglur, sem hér er verið að setja, við kaup á þeim skipum, en ekki skipum smíðuðum hér innan lands. Það er áreiðanlegt, að þótt ákvæðum þessa frv. yrði breytt til hins ýtrasta um beinan styrk þeirra, sem efna til smáskipasmíða innan lands, leysa þeir styrkir ekki á nokkurn hátt vanda þeirra, sem þurfa að smíða þannig. Það þarf því að taka það atriði sérstaklega til athugunar, hvernig veita megi aðstoð þeim mönnum, sem ætla sér að smíða smáskip. En verði frv. samþ. eins og það er nú og gert er ráð fyrir styrkjum, þá þýðir það það, að þeir sem kaupa hin sænsku skip, sækja allir um styrk og verður veittur hann. Í frv. segir, að gert sé ráð fyrir, að menn geti valið um, en ég hélt, að það væri öllum mönnum ljóst, að sé gert ráð fyrir því í frv., að menn geti fengið allt að 75 þús. kr. í styrk út á skip og á sama tíma boðið, að þeir geti fengið 100 þús. kr. lán, sækja auðvitað allir um lán, og það verður gengið fast eftir því að fá þessa styrki. En það þarf ekki að sanna það, að menn hefðu ekki ráð á skipakaupum án alls styrks, ef hann hefði ekki verið boðinn fram. Ég vil líka taka fram, að það gæti verið réttmætt að veita beinan styrk til skipasmíða, en aðeins undir þeim kringumstæðum, að það lægi ljóst fyrir, að ekki veitti auðvelt að auka skipastólinn og mönnum reyndist ekki kleift að kaupa skipin, án þess að þeir væru styrktir til þeirra framkvæmda. En ég lít svo á, að það liggi ekki fyrir, að ýta þurfi að mönnum neinum peningagjöfum, til þess að skipastóllinn verði aukinn.

Ég vil undirstrika í sambandi Við ræður hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ísaf., að enn þá er ekki fullvitað um verðið á sænsku skipunum. Þær upplýsingar liggja fyrir, að smálestin verði sennilega um 4–5 þús. kr., en gæti e.t.v. orðið ódýrari. En þar sem ekki er fullvitað um verðið, er enn þá minni ástæða til þess að fara að ákveða, hvað eigi að veita mönnum háa styrki til kaupa á þessum skipum.

Það hefur verið minnzt á það hér, að Norðmenn hafi fundið ástæðu til að veita beinan styrk til fiskibátakaupa, en eftir því sem ég bezt veit, fylgja þeim styrkjum miklu strangari ákvæði en fylgja eiga þessum styrkjum, því að ríkið gat tekið skipið aftur, ef menn uppfylltu ekki ákveðin skilyrði. Líktist það því miklu meir láni en gjöfum, eins og hér er um að ræða.

Ég hef litið svo á, að þessar 5 millj. kr. ætti að nota þannig, að þær kæmu að sem mestu gagni við aukningu skipastólsins, en ekki til þess að afskrifa þau skip, sem nú yrðu keypt á næstunni. Í þessu held ég, að meginmunurinn á meiri hl. og minni hl. sé fólginn.