16.01.1945
Efri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (3614)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Mér finnst, að ekki sé hægt að standa á móti því, að þetta mál nái fram að ganga. Upplýst er, að það hefur gengið gegnum marga hreinsunarelda. Það hefur verið rætt í búnaðarsamböndum og félögum og síðast á búnaðarþingi. Hefur það hlotið, að ég ætla, nær einróma fylgi. Það er því samkvæmt ósk bændanna sjálfra, sem þetta gjald er lagt á þá. En ég kvaddi mér hljóðs til að benda n. á, að eins og frá frv. er gengið nú, er ég hræddur um, að mikil vandræði verði að innheimta þetta gjald. Tollstjórinn í Reykjavík hefur bent mér á, að a.m.k. gjald það, sem lagt er á sumar þessar vörutegundir, yrði mjög illinnheimtanlegt. Það verða sjálfsagt ekki mikil vandræði um innheimtu gjalds af þeim vörum, sem eru seldar gegnum hinar stóru sölumiðstöðvar, svo sem mjólkursamsölur og sláturhús, sem tollheimtumenn eiga vísan aðgang að. Aftur á móti eru aðrar vörur, sem framleiðendur selja beint til kaupmanna víðs vegar um land, svo sem grænmeti og gróðurhúsavörur og jafnvel skinn og gærur. Þetta dreifist svo mikið, að ómögulegt er að henda reiður á, hvert eigi að snúa sér með innheimtu. Það fer þá eftir nákvæmni eða gætni hlutaðeigandi kaupmanns, hvort þetta er gefið upp eða ekki. Þess vegna er vert fyrir n. að athuga, áður en frv. er afgr. endanlega, hvort ekki sé ástæða til að takmarka skattinn, sem lagður er á þessar vörur, eða að öðrum kosti hvort unnt væri að setja einhver ákvæði í l., sem gerðu innheimtuna mögulegri en hún virðist vera eins og frá frv. er gengið nú.