16.01.1945
Efri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Hv. frsm. og hæstv. fjmrh. lögðu sérstaka áherzlu á, að þetta mundi vera vilji bændastéttarinnar, og færðu það til síns máls, að þetta hefði verið samþ. nær einróma á búnaðarþingi og fulltrúafundum búnaðarsambandanna. Ég tel þetta ekki örugga sönnun þess, að þetta sé almennur vilji bændastéttarinnar. Það mætti nefna dæmi þess, að samþ. hefði verið á þessum samkomum ýmislegt, sem vafi gæti leikið á, að hafi verið almennur vilji bændastéttarinnar. En frá mínu sjónarmiði er þetta ekki aðalatriðið. Þó að um sé að ræða almennan vilja stéttarinnar að leggja þetta fé af mörkum, þá tel ég, að hér sé farið inn á ranga braut. Ég tel það á sama hátt ranga braut og ef Alþýðusamband Íslands fengi að leggja 1/2% á öll vinnulaun og fengi þannig aðstöðu til að afla sér nokkurra milljóna í félagssjóð sinn. (GJ: Gera þeir það ekki án aðstoðar ríkisvaldsins?) Þeir gera það aðeins af frjálsum vilja, og búnaðarþing getur, gert það sama, og mun enginn amast við því. Ég tel, að ef svo er, að almennur vilji bændastéttarinnar sé fyrir, að þetta gjald sé lagt á, þá sé því minni ástæða til að koma til ríkisvaldsins og skylda menn til að greiða þetta gjald, því að þá getur Búnaðarfélagið framkvæmt þetta af frjálsum vilja bændastéttarinnar sjálfrar. Það er t.d. mögulegt fyrir Búnaðarfélagið að leggja kvaðir á sína félagsmenn, og þarf ekki annað til þess en frjálsa félagssamþykkt. Það kann að vera, að benda megi á, að til þess að innheimta þetta gjald eins og hér er gert ráð fyrir þyrfti aðstoð löggjafans. Ég fyrir mitt leyti hefði ekkert á móti því, þó að til kæmi aðstoð löggjafarvaldsins til að innheimta þessi gjöld, sem bændur ákvæðu af frjálsum vilja að greiða, en þá er um allt annað mál að ræða.