30.01.1945
Neðri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (3627)

267. mál, raforkulög

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. — Eins og hv. l. þm. Árn. tók fram, átti ég sæti í mþn. í rafmagnsmálum, tók þar sæti, eftir að Alþingi hafði samþ. ályktun þess efnis, að þar skyldi bæta við manni frá Sósfl. Þessi ályktun var gerð 4. sept. 1942. N. átti að gera till. um fjáröflun til raforkuframkvæmda í því skyni að koma raforku til ljósa, suðu, hita og iðnrekstrar um allar byggðir landsins á sem skemmstum tíma. Þegar Sósfl. átti þess kost að tilnefna mann, þótti honum rétt að taka því, þó að hann liti svo á, að það væru fjarstæðukenndir draumórar að ætla sér að koma nægilegri raforku til suðu og hitunar um allar byggðir landsins.

Flokkurinn taldi það enn fremur óeðlilegt, að aflað væri fjár til þessara framkvæmda sérstaklega, — framkvæmda, sem vitað er, að þurfa að fylgja annarri þróun í atvinnulífi landsmanna og væru henni svo nátengdar, að ekki má gera þar upp á milli.

Loks leit flokkurinn svo á, að ekki næði nokkurri átt að ætla að binda verð raforkunnar, eins og segir í till., þannig að raforka verði ekki seld hærra verði í sveitum og dreifbýli en í stærstu kaupstöðum. Það er vitað, hve miklu hagkvæmari dreifing orkunnar er í þéttbýli en í dreifbýli, og því segin saga, ef farin væri þessi verðjöfnunarleið, að hér væri um nýjan milljónaskatt á kaupstaðabúa að ræða, skatt, sem mundi stuðla að því að viðhalda því óheppilega skipulagi, sem er á landbúnaði vorum. Ný styrkjapólitík í stað raunhæfra aðgerða, sem gerðu landbúnaðinn arðbæran fyrir þjóðina.

Þegar ég tók sæti í n., hafði hún haldið allmarga fundi. Hafði hún lagt það niður fyrir sér, að starfssviði hennar væri of þröngur stakkur skorinn og „að nauðsynlegt væri“, eins og segir í áliti meiri hlutans, „að taka raforkumál landsins í heild til athugunar og gera sér grein fyrir því, á hvern hátt mundi hagkvæmast að fullnægja raforkuþörf þjóðarinnar og hversu mikill kostnaður yrði við þær framkvæmdir“. Þessi atriði gat ég fyrir mitt leyti fallizt á líka, þar sem mér var ljós bæði hin brýna þörf á endurskoðun löggjafar vorrar um raforkumál og hitt, að fróðlegt væri að hafa einhverja hugmynd um kostnað við framkvæmdir þær, sem hér var um að ræða. Um það, að n. gæti gert sér grein fyrir því með nokkurri vissu, á hvern hátt mundi hagkvæmast að fullnægja raforkuþörf þjóðarinnar, var ég vantrúaðri á en sumir aðrir, þar sem mér var ljóst, að á undan þeirri vissu hlytu að fara ýtarlegar rannsóknir, sem mundu taka langan tíma og kosta ærið fé og fyrirhöfn.

Í þessu skyni hafði n. kosið undirnefnd til þess að semja uppkast að heildarlöggjöf um raforkumálin og enn fremur látið hefja samningu bráðabirgðaáætlana um ýmsar rafveitur. Bráðabirgðaáætlanir þessar fylgja nál. meiri hlutans, og mun ég vísa til þeirra hér.

Eins og hv. fyrri þm. Árn. sagði, tók ég vegna fjarvistar ekki þátt í störfum n. síðasta mánuðinn, sem hún starfaði, en á þeim tíma hraðaði hún svo störfum sínum, að hún lauk við samningu frv. til raforkul. og skilaði áliti sínu.

Hafði þetta frv. ekki verið rætt í n., áður en ég fór af landi burt þann 27. okt., og af bókunum n. sést, að það hefur aðeins verið rætt á nokkrum fundum, og má virða flýtinn meiri hl. n. til vorkunnar, að illa hefur tekizt með frv., af hverju svo sem hann hefur stafað.

Meðan ég starfaði í n., skrifaði n. umsögn til ríkisstj. um Reykjanesrafveituna. Þar segir m. a. svo: „... Raforkumálan. lítur svo á, að réttast og heppilegast sé, að ríkið geri þessa rafveitu og annist rekstur hennar. Er n. þeirrar skoðunar, að óhjákvæmilegt sé, að raforkuvinnsla og orkuflutningur til almenningsþarfa í framtíðinni verði rekin af ríkinu. Myndu þær framkvæmdir verða með þeim hætti, að ríkið byggði allar meiri háttar raforkustöðvar, legði aðalháspennulínur og byggði aðalspennistöðvar, sem þarf til að fullnægja raforkuþörf almennings. Mun n. í till. sínum um framkvæmdir í raforkumálum landsins í framtíðinni leggja til, að fylgja beri þessari grundvallarreglu. N. telur því rétt, að ríkið leggi háspennulínuna til Keflavíkur, byggi aðalspennistöðvar og selji orkuna frá þeim. Íbúar hlutaðeigandi hreppa kosti innansveitarkerfin...“.

Af efni þessa kafla bréfsins verður ekki ráðið annað en það sé ætlun n., að ríkið taki að sér vinnslu á raforku handa íbúum landsins og flutning orkunnar milli héraða og landshluta. Hins vegar beri sveitar- og bæjarfélögum að kosta og reka „innansveitarkerfin“.

Leit ég á þeim tíma á þetta sem eins konar stefnuyfirlýsingu n. og gat þá samþ. hana að öðru leyti en því, að ég hafði þá ekki gert upp við mig, hvort raforkuvinnsla og orkuflutningur skyldi heldur rekinn af ríkinu eða bæjar- og sveitarfélögum, eftir því hvað betur hentaði í hvert skipti, sbr. eftirfarandi bókun í fundargerðabók n. Um þessa málsgrein í bréfinu: „Er n. þeirrar skoðunar, að óhjákvæmilegt sé, að raforkuvinnsla og orkuflutningur til almenningsþarfa verði rekin af ríkinu“, lét ég bóka eftirfarandi fyrirvara: „Ég tel sjálfsagt, að raforkuvinnsla og orkuflutningur til almenningsþarfa í framtíðinni verði í eigu þess opinbera og rekin af því, ríkinu eða bæjar- og sveitarfélögum eftir því, hvað betur hentar í hvert skipti“.

Eftir þetta, eða nú, hef ég þó gert upp við mig, eins og ég mun frekar víkja að síðar, að í framtíðinni muni það yfirleitt verða flestum héruðum ofviða að standa undir þeim miklu framkvæmdum, sem hljóta að verða á sviði rafmagnsmálanna, hvað orkuvinnslu og orkuflutning milli héraða snertir, og ekki verði komizt hjá afskiptum ríkisins af þeim hlutum. Hins vegar lít ég svo á, að þeim kaupstöðum og héruðum, sem hafizt hafa handa á þessu sviði, eigi að vera opin leið til að hafa þetta í sínum höndum, að svo miklu leyti, sem það kemur ekki í bága við heildarhag þjóðarinnar. Hvað viðvíkur innansveitarkerfunum eða dreifingu orkunnar til notenda innan héraða, tel ég enn sjálfsagt, að hún sé í höndum héraðanna sjálfra, kostuð og rekin af þeim, með þeirri breytingu þó, er nú skal greina. Þar sem mér er ljós hin brýna nauðsyn þess að sjá væntanlegum byggðahverfum til sveita og ýmsum sveita- og sjávarþorpum fyrir raforku, en geng þess hins vegar ekki dulinn, að þessir staðir verða ekki einfærir að standa undir þeim kostnaði, sem slíkt hefur í för með sér, þá tel ég óumflýjanlegt, að ríkið hlaupi þar að einhverju leyti undir bagga. Mun ég víkja að þessu nánar síðar.

Þegar ég kom heim úr utanför minni og tók að kynna mér nál. meiri hl. og frv. það til raforkul., sem hann hafði samið, varð mér það strax ljóst, að ég gat ekki fylgt meiri hlutanum að málum. Er frv. svo flausturslegt og bar svo mikinn keim vanþekkingar á efnum þeim, sem um er fjallað, að auðséð var, að vart hafði verið leitað til manna með sérþekkingu á þessum málum.

Við athugun á bókunum n. kom líka í ljós, að svo hafði ekki verið gert. Átti ég þá tal við forstjóra Rafmagnseftirlits ríkisins um frv., og tjáði hann mér, að hann væri frv. ósammála að mestu leyti og gæti hann alls ekki mælt með samþ. þess. Kvaðst hann hafa í fórum sínum frv. um sama efni, er hann væri að ljúka við og mundi síðan senda ríkisstj.

Fyrir góðvild forstjórans og af samtölum við hann hefur mér gefizt kostur á að kynnast efni þessa frv., sem ég í öllum aðalatriðum get fallizt á. Er frv. það í öllu heilsteyptara og betur undirbyggt en frv. nefndarmeirihl.

Þar sem mér er ljóst, að ég hef hér á undan tekið alldjúpt í árinni í dómum mínum um nál. meiri hl., skal ég nú reyna að finna þeim orðum mínum stað og rökstyðja þau.

Ég skal þó taka það fram, eins og ég hef bent á áður, að ég er sammála nefndarmeirihl. í því meginatriði, að raforkuvinnsla og orkuflutningur um landið eigi í framtíðinni að vera í höndum ríkisins. Ég get fallizt á þá till. meiri hlutans, að ríkinu verði í framtíðinni áskilinn réttur til að reisa og reka orkuver, sem fara fram úr tiltekinni stærð, og að rafveitur ríkisins verði settar á stofn til að annast þá orkuvinnslu og orkuflutning frá orkuverunum, vegna þess að ég veit, að á því sviði eru stórfelld verkefni fyrir hendi, verkefni, sem taka langt út yfir sérhagsmuni einstakra héraða.

Ég veit líka, að heppileg úrlausn þeirra verkefna verður ekki tryggð nema heildarskipan sé á þeim málum, þar sem fullt tillit er tekið til alþjóðarhagsmuna, en slíkt er varla framkvæmanlegt af öðrum aðila en ríkinu.

Till. um rafveitur ríkisins er raunar ekki ný. Í gildi eru heimildarl. um stofnun þeirra. En meiri hlutinn hefur gert allverulegar breytingar á þeim, og um þær breytingar má segja, eins og um frv. meiri hl. yfirleitt: Hér er á ferðinni margt nýtt og sumt gott, en hið nýja er ekki gott, og hið góða er ekki nýtt.

Ein aðalnýjungin í frv. n. um rafveitur ríkisins er sú, að þær annist ekki aðeins vinnslu raforkunnar og flutning hennar frá orkuveri til héraðanna, eftir aðallínum, heldur hafi þær líka á hendi dreifingu orkunnar innan héraða og smásölu á henni til neytenda, sbr. byrjun 5. gr. frv.: „Engum nema rafveitum ríkisins er heimilt að selja raforku“.

Auk þess sem ég tel þetta mjög misráðið, enda er það eitt af aðalágreiningsefnum mínum við meiri hlutann, get ég ekki látið hjá líða að benda á það misræmi, sem er milli þessa atriðis í álitinu og umsagnar n. um Reykjanesrafveituna, sem ég hef getið um áður, enda er mér ekki grunlaust, að hér vaki fyrir meiri hlutanum, eða hluta hans, annarlegur tilgangur, sem ekki er látinn uppi og ekki miðar að því að tryggja almenningshagsmuni í þessum málum, og mun ég rekja það síðar.

Það má heita, að allar rafveitur til almenningsþarfa, sem nú eru starfandi í landinu, séu í eigu bæjar- og sveitarfélaga og reknar af þeim. Enn er ekki um að ræða nema rafveitur í kaupstöðum og kauptúnum, og það hefur komið af sjálfu sér, að bæjarstjórnir í kaupstöðunum og sveitarstjórnir í kauptúnunum, sem mörg eru hreppar út af fyrir sig, hafa tekizt á hendur lausn þess verkefnis að veita raforku um kaupstaðinn eða kauptúnið. Meðan þessar rafveitur eru smáar og þeim nægir sú orka, sem þær geta unnið í smáum orkuverum heima fyrir, hver um sig, hefur verið eðlilegast, að þær önnuðust sjálfar orkuvinnsluna, eins og raun hefur orðið á; þessir aðilar hafa átt orkuverin og rekið þau. En þegar þar að kemur, að þeim nægir ekki lengur sú orka og þeim er nauðugur einn kostur að sækja hana lengra, þá skapast slík verkefni um vinnslu og flutning orkunnar, sem verður þessum aðilum allajafna um megn. Eftir íslenzkum staðháttum þurfa þessir aðilar víðast hvar að standa saman um stór orkuver. Hér þarf því nýr aðili að koma til, og engum stendur það nær en ríkinu.

En þó að ríkið taki að sér að reisa þessi stóru orkuver og flytja orkuna frá þeim til kaupstaða og kauptúna, þá er ekki þar með sagt, að ástæða sé til þess, að það fari að seilast út fyrir sinn verkahring í þessum efnum og taki úr höndum bæjar- og sveitarfélaganna það verkefni, sem þau hafa haft til þessa og hafa að mínu áliti bezt skilyrði til að leysa af hendi á hagkvæman hátt fyrir íbúana, nefnilega að dreifa orkunni meðal þeirra.

Það hefur að vísu hvarflað að meiri hl. n., að það væri hæpið að taka þetta algerlega úr höndum bæjar- og sveitarfélaga, og hefur hann því sett í frv. sitt undanþáguákvæði um heimild handa kaupstað, kauptúni eða héraði til þess að hafa dreifingu raforku í sínum höndum á svæði sínu. En einnig hér hafa meiri hlutanum verið mislagðar hendur. Í 6. gr. segir: „... og skal þeim (þ. e. kaupstað, kauptúni eða héraði) þá seld raforkan frá rafveitum ríkisins að frádregnum afslætti, sem raforkumálastjóri telur nægan til þess að annast dreifingarkostnaðinn innan svæðisins“.

Ég legg mig ekki niður við að gagnrýna orðalagið, held mér aðeins að því, sem virðist vera efni greinarinnar, og get þá ekki varizt því, að það hvarfli að mér, að hér sé fremur byggt á þekkingu og reynslu á verzlun t. d. með tóbak eða mjólk heldur en kunnugleika á rekstri rafveitna.

Verzlun með raforku er í eðli sínu mjög frábrugðin verzlun með þær vörur, sem ég nú nefndi. Til fullnustu er alllangt mál að gera grein fyrir þeim mun, enda er ég fyrir mitt leyti varla fær um það, en ég skal þó nefna nokkur atriði til skýringar.

Vinnsla og notkun raforku haldast alltaf í hendur og fara fram samtímis. Verður því alveg sérstakt og einkar náið samband milli framleiðanda og neytanda, sem m. a. kemur fram í því, að kaupendur raforkunnar ráða á hverjum tíma yfir því, hve mikil framleiðslan er, eða eins og sagt er í daglegu tali, hve álagið er mikið.

Eftir að framleiðandinn hefur opnað viðskiptasamband sitt við notendur raforkunnar, fær hann litlu eða engu ráðið um álagið, nema að því leyti, sem hann óbeint getur haft áhrif í þá átt að skapa viðleitni hjá neytanda til þess að haga rafmagnsnotkun sinni á þennan eða hinn veginn. Helzta leið framleiðandans til þessara áhrifa er rafmagnsgjaldskrárnar, en þær eru einmitt mjög mismunandi og margbrotnar.

Er þá komið að öðru atriði, sem nefna má í þessu sambandi.

Sama tegund vindla eða sama tegund mjólkurafurða er seld sama verðinu án tillits til þess, hvar, hvenær eða hvernig varan er notuð. Þetta gildir aftur á móti ekki við sölu á raforku. Þar hefur þótt og mun framvegis ekki verða komizt hjá því að selja sömu vöruna, raforkuna, misjöfnu verði, eftir því til hvers hún er notuð og á hvaða tíma. Kemur þetta m. a. af hinum nánu tengslum milli vinnslu og notkunar orkunnar. Má í þessu sambandi minna á þann mun, sem er á ýmsum orkuverum eftir staðháttum. Sum orkuver hafa enga aðstöðu til að geyma vatn, heldur rennur allt það vatn, sem ekki er nýtt til orkuvinnslu, framhjá og til ónýtis. Þessum orkuverum er það hagur að fá notendur til að nota orkuna sem jafnast allan sólarhringinn og allt árið. Þessi orkuver bjóða því hverjum, sem vill nota sér rafmagn, þegar almenn notkun annars er lítil, raforkuna við lægra verði en ella. T. d. selja þau raforku að nóttu til fyrir lágt verð. Þetta er auðsæ hagsýni, því að litlu þarf til að kosta, þótt vélarnar gangi með fullu afli að nóttu til.

Önnur orkuver hafa kannske stóra vatnsuppistöðu, geta geymt vatn frá nóttu til dags og jafnvel frá sumri til vetrar. Slík orkuver hafa engan hag af því að selja ódýrt rafmagn að nóttu til eða sumri til, þar sem þau geta geymt það, sem þá sparast við litla notkun, til næsta dags eða vetrar og selt það þá háu verði. Þau sjá sér ekki heldur hag í því t. d. að selja lágu verði rafmagn til húshitunar, ef þau eiga þess kost að geyma vatnið til annars tíma og vinna úr því raforku til iðnaðar eða annars, sem þau geta selt hærra verði.

Þessi ólíku orkuver verða því að útbúa bæði heildsölu- og smásölugjaldskrár sínar sitt með hverju móti.

Eins og af þessu má sjá, eru raforkuviðskipti sérstök í sinni röð, og er því hvort tveggja hæpið, vægast sagt, bæði að ætla að byggja heildsöluviðskipti rafveitna ríkisins við kaupstaðar- eða héraðsveitur á einföldum afslætti frá smásöluverði þessara veitna og hitt að lögákveða sömu gjaldskrá um allt landið. En hér er enn eitt atriði, um að lögákveða sama gjald fyrir raforku til notenda um allt landið, sem skilur allverulega milli mín og meiri hlutans, enda þótt svo sé til tekið í ályktun Alþ. um nefndarskipunina.

Á ný skal ég víkja að enn einum megingalla frv., að slengja saman í eitt orkuvinnslu og flutningi orkunnar eftir aðallínum annars vegar og dreifingu innan héraðs hins vegar. Öllum er ljóst, hve fjárhagslega örðugt það mun reynast, vegna strjálbýlisins, ef í það verður ráðizt að veita raforku um sveitir landsins, og að þess verður enginn kostur að láta veitur um strjálbýli bera að nokkru verulegu leyti hinn mikla stofnkostnað, sem á þeim verður. Með því að leggja til annars vegar að fella saman orkuvinnslu og dreifingu, en hins vegar að lögfesta eitt og sama rafmagnsverð fyrir allt landið, er stefnt að hvoru tveggja í senn: að láta hinn mikla kostnað af rafveitum um strjálbýlið falla á herðar þeim, sem í þéttbýli búa, og dylja það, hve mikill sá fjárhagslegi baggi er og hve mikið er færzt í fang í þessum efnum. Lítur vissulega svo út, að hér hafi einhliða sjónarmið hinna strjálu byggða ráðið tillögum, eða öllu heldur þeirra, sem pólitískan hag hafa af að viðhalda hinum strjálu byggðum. Er hér reynt með klókindum að næla í meira fé til fjárhagslega hæpinna rafveituframkvæmda í strjálbýli en von þætti til, að annars fengist, og er þetta það, sem ég að framan nefndi „annarlegan tilgang“. En ég tel þetta einnig misráðið út frá sjónarmiði hagsmuna hinna strjálu byggða.

Það verður að gera sér grein fyrir því, að rafveita í sveitum er verkefni, sem er að verulegu leyti ólík rafveitu þéttbýlla bæja bæði fjárhagslega og tæknilega. Þessi tvö ólíku verkefni verður að leysa hvort í sínu lagi, ef ekki á að torvelda framkvæmdir að verulegu leyti, og mér datt í hug, þegar hv. l. flm. frv. sagði, að við ættum að færa okkur í nyt reynslu annarra þjóða, að aðrar þjóðir hafa einmitt í þessum efnum skilið þetta og þar er þessu tvennu ekki ruglað saman. Ég álít þess vegna, að rafveitur ríkisins eigi einungis að fást við raforkuvinnslu, flytja eftir aðallínum og selja alla raforku í heildsölu til bæjar- og héraðsrafveitna. Það má ef til vill skipta þessu niður í ákveðin orkuvinnslusvæði, eftir því sem nánar yrði athugað. Ég álít enn fremur, að kaupstaðir og kauptún eigi enn að hafa rafstöðvar á sínum höndum, en komið verði upp sérstökum stöðvum til þess að annast rafveitur utan kaupstaða og kauptúna. Ef rafveitur ríkisins hafa ekki á hendi smásölu á raforkunni, heldur einungis heildsölu, þá þarf að vísu að ákveða heildsöluverð á raforkunni hjá þeim, en það er hins vegar ekki til bóta, ef hendur þeirra verða bundnar með lagaákvæðum, þannig að þær selji raforkuna sama verði hvar sem er á landinu, og mundi slíkt óhjákvæmilega valda erfiðleikum og óánægju. Ég tel, að aðeins þeim rafveitum ríkisins verði séð fyrir meiri eða minni styrk, sem geta ekki staðið undir stofnkostnaði, en síðar meir, er veitukerfi landsins verður meira samanhangandi, verður hægt að samræma á eðlilegri hátt raforkuverðið um land allt, en tel, að enn sé langt í land um að svo verði, og er því alveg ástæðulaust að vera að ráðgera verðið nú, hvað þá lögbinda það.

Þá er enn eitt atriði í frv., sem ég tel mjög fjarstæðukennt; er það í 7. gr., en þar stendur: „Rafveitur ríkisins skulu reisa og reka raforkuver og raforkuveitur“. Síðan eru taldar upp í gr. þrjár aðalveitur: Suðurlands- og Norðurlandsveita, Vestfjarðaveita og Austfjarðaveita. Enn fremur eru taldar upp sýslur og kaupstaðir, sem veita skal raforku um, og þess getið, frá hvaða veitu skuli veitt. Eftir upphafsorðum gr., sem ég gat um áðan, á hún að innihalda ákvæði um það, hvaða orkuver skuli reist, en nú eru þessi orkuver alls ekki tilgreind í gr., og stafar það að öllum líkindum frekar af flaustri, er frv. var samið, heldur en af hinu, að meiri hl. hafi gert sér grein fyrir því, hvað hæpið það væri á þessu stigi málsins að lögfesta, hvaða orkuver skuli reist. Er því eftir að vita, á hverju eru byggð þessi ákvæði um tilhögun á rafveitum landsins. T. d. er í þessari gr. gert ráð fyrir einni rafveitu fyrir Suðurland og Norðurland, sem nái yfir svæðið frá Mýrdalssandi vestur og norður um land til Norður-Þingeyjarsýslu að meðtöldum Vestmannaeyjum. Síðan er vísað til bráðabirgðaáætlana, sem fylgja frv. Um þessar áætlanir skal ég taka það fram, að því fer fjarri, að hér sé um nokkrar endanlegar niðurstöður eða rannsóknir að ræða, og mér finnst því gegna furðu að fara fram á það við hv. Alþ., að það lögfesti áætlanir um heildartilhögun á rafveitum landsins. Til þess að sýna, hve þessar áætlanir eru úr lausu lofti gripnar, skal ég aðeins benda á, að það er ekki vitað, að neinn maður, sem sérstaka þekkingu hefur á rafveituframkvæmdum, hafi augum litið svæði það eða stað þann, sem ein af stærstu virkjunum, Þverárvirkjunin, á að rísa, hvað þá heldur að virkjunarmöguleikar hafi verið athugaðir og áætlanir gerðar af slíkum manni. Svipað er að segja um Gilsárvirkjunina við Egilsstaði í Fljótsdal, að ekki var farið að mæla fyrir virkjuninni þar þegar bráðabirgðaáætlanir þessar voru gerðar, en um þetta atriði er að vísu getið í grg. frv.

Ég er þess fullviss, að hv. nm. er öllum kunnugt um réttmæti þessara staðhæfinga minna, þar sem þeir hafa mest um þessar áætlanir fjallað. Skal ég þó að vísu geta þess, að meiri hl. hefur fyrirvara um sínar áætlanir, en þó bindur hann till. sínar svo við þessar áætlanir, ekki aðeins við ákvæði í 7. gr. frv., heldur líka í 24. gr., en þar segir í skýringum við þá gr.:

„Eins og að er vikið í umsögn 9. gr. frv., er til þess ætlazt, að þegar eftir gildistöku laga þessara skuli raforkumálastjórn láta byrja á því að gera fullnaðaráætlanir um landsrafveitur þær, sem nefndar eru í 7. gr.

Þó segir í skýringum við 9. gr.:

„Eins og áður er vikið að, eru áætlanir þær, sem fylgja þessu frv., bráðabirgðaáætlanir.“

Hér er því ákveðið, að raforkumálastjórn skuli láta gera fullnaðaráætlanir um landsrafveitur þær, sem taldar eru upp í 7. gr., og á þeim fullnaðaráætlunum verði byggt. Hér hefur hv. meiri hl. hins vegar ekki gert sér grein fyrir þeim mismun, sem felst í orðinu fullnaðaráætlun, en samkvæmt venjulegri notkun þess orðs verður þessi kafli vart skilinn á annan hátt en hér sá beinlínis lagt fyrir raforkumálastjórn að ljúka fullnaðarútreikningum út frá þessum bráðabirgðaáætlunum og byggja síðan á þeim till. til framkvæmda, en yfirleitt slær mjög úr og í hjá hv. meiri hl., að hve miklu leyti hann vill byggja á þessum áætlunum eða hversu framkvæmdir eigi að vera bundnar við þær, en samt vill hann láta lögfesta, að ein og sama rafveita skuli ná yfir Suður- og Norðurland. Er mér nær að halda, að hér sé um hreint tilfinningamál að ræða, en ef svo er, verður það að teljast mjög ótímabært að byggja till. til löggjafar á því.

Ég skal taka það fram, eins og ég gat um áður, að ég var samþ. því, að þessar bráðabirgðaáætlanir voru gerðar, þótt ég hins vegar gagnrýndi notkun hv. meiri hl. á þeim, en tel þær nauðsynlegar til þess að menn geri sér ljóst, í hvaða átt rannsóknunum skuli beint, en tel hins vegar villandi að byggja á þessum áætlunum og fjarstæða að ætla sér að binda löggjöf við þær á nokkurn hátt.

Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að til þess geti komið, að orkuver eða orkuveitur muni ekki gefa nægar tekjur til að greiða allan rekstrarkostnað, þar með taldir vextir og afborganir, og segir þar í þessu sambandi í gr.:

„... og er þá heimilt að borga nokkurn hluta stofnkostnaðar af skuldlausri eign raforkusjóðs, til þess að tekjur af mannvirkjum hrökkvi til greiðslu vaxta og afborgana af þeim hluta stofnkostnaðar, sem þá er eftir, auk annars rekstrarkostnaðar.“

Ég er í fyrsta lagi á móti því, að raforkusjóður verði notaður á þennan hátt, og tel, að hann gerði miklu meira gagn, ef hann yrði notaður sem lánsstofnun, sem gegn vægum vöxtum lánaði fé til þess að koma upp orkuverum eða orkuveitum, og hann veitti jafnvel stjórnum slíkra mannvirkja rekstrarlán til bráðabirgða til þess að koma þeim yfir örðugasta hjallann fyrstu árin; enn fremur mætti veita fé úr sjóðnum til rannsókna, eftir nánari reglum, sem settar yrðu. Þá finnst mér og allóákveðið tekið til orða í gr., þar sem segir, að heimilt sé að greiða nokkurn hluta stofnkostnaðar af skuldlausri eign raforkusjóðs, en ekkert tekið fram um það, hvað mikið megi borga, hvort þetta mætti vera 9/10 stofnkostnaðar eða eitthvað annað. Ef þeir, sem um þessi mál fjalla, reyndust óráðvandir aðilar, gætu þeir gert sér leik að því, vegna flokkssjónarmiða, að koma upp rafveitum í einhverjum kjördæmum, og er samkv. þessari gr. opin leið til þess, hvernig svo sem þær veitur myndu verða, hvort þær með rekstri sínum gætu borið allan stofnkostnað eða aðeins hluta hans. Þeir, sem til þekkja, hljóta því að sjá, að hér er alls ekki nógu vel um hnútana búið, og býst ég við, að það kæmi á daginn, ef þessi aðferð yrði við höfð um raforkusjóð, að hann yrði fljótt þurrausinn og kæmi því að litlu gagni. Ég veit, að ýmsar rafveitur verður að byggja, sem eru þjóðinni nauðsynlegar, en geta ekki staðið undir stofnkostnaði, og teldi því rétt, að til slíkra framkvæmda yrðu veittir styrkir, annaðhvort upphæðir á hverju ári, sem ákveðnar væru á fjárl., eða vissar upphæðir á hverju ári gegn hlutfallslegu framlagi frá viðkomandi héraði, líkt og nú er um hafnargerðir og sýsluvegi.

Í síðari málsgr. 8. gr. segir:

„Nú er áætlun um orkuver og orkuveitur og öðrum undirbúningi svo langt komið, að unnt er að hefja framkvæmdir í fleiri en einu héraði eða víðar en á einu landssvæði á sama tíma, og skal þá það hérað eða sá landshluti ganga fyrir um framkvæmdir, sem veitir mest lánsfé til fyrirtækisins að tiltölu við fólksfjölda á orkuveitusvæðinu.“

Hér er ekki um það að ræða, hvort veiturnar geti borið sig, heldur um hitt, hvort á viðkomandi raforkusvæði búa þannig stæðir menn, sem hafa getað ávaxtað aura sína og fengið sér rafmagn.

Ég vil aðeins benda á það hér, að ég hef komið allvíða við hvað snertir fyrstu þrjá kafla frv., en hef þó leitt hjá mér sumt af því, sem aflaga fer.

IV. kafli frv. er um rafmagnseftirlit ríkisins og er að mestu leyti óbreyttur frá núgildandi l.

V. kafli fjallar um stjórn raforkumála. Þar er lagt til, að stjórn raforkumála skuli skipuð 7 mönnum. Skulu 6 stjórnarmenn kosnir af Alþ. til fjögurra ára í senn, en formaður stj., sem nefnist raforkumálastjóri, skal skipaður af ríkisstj. til jafnlangs tíma. Ég er hv. meiri hl. sammála um það, að þau mál, sem hér um ræðir, eru það mikilvæg fyrir þjóðina, að full ástæða er til þess að hafa sérstaka raforkumálastjórn, en læt mig litlu skipta, hvort hún er skipuð 7 mönnum eða færri mönnum og eins hitt, hvort hún eigi að vera kosin af Alþ. eða tilnefnd á einhvern annan hátt. Hins vegar tel ég, að tveir gallar séu á þessari skipan. Í fyrsta lagi, að það skuli ekki vera ákveðið, að raforkumálastjóri skuli vera maður með sérþekkingu, og finnst mér allt benda til þess, að hann þurfi að vera rafmagnsverkfræðingur. — Hinn gallinn finnst mér vera, að raforkumálastjórnin skuli öll vera kosin til fjögurra ára í senn, en ekki, að úr henni gangi einn eða tveir menn á eins eða tveggja ára fresti. Það segir sig sjálft, að til áframhaldandi starfsemi þessara mála verður lifandi samband milli þeirrar stj., sem situr, og þeirrar, sem tekur við, og ef raforkumálastjóri fer frá á fjögurra ára fresti, gæti hent sig, að skipt yrði um alla menn í stj., og er þá auðvitað, að truflun yrði á gangi þessara mála.

Ég hef nú rætt allýtarlega suma kafla þessa frv. og sýnt fram á það, eins og ég sagði í byrjun, að það er bæði í flaustri gert og af lítilli þekkingu og eins, að hér virðist ekki að öllu leyti hafa verið starfað með hag alþjóðar fyrir augum. Það er einkennilegt, hvað meiri hl. hefur oft reynzt erfitt að koma með rök fyrir þessu frv., en það er hins vegar venja, þegar gerð er grein fyrir frv., að nauðsynlegt þykir að færa fram ástæður fyrir ákvæðum þess, en hér eru þessar skýringar aftan við það vanalega ekki annað en uppprentun á gr. frv., en að vísu sums staðar vikið við orðum. Ég skal taka það fram, að ég hef ekki séð ástæðu til þess, þótt ég hafi gagnrýnt frv., að koma fram með brtt. við það, þar eð ég er meðlimur í mþn. í raforkumálum. Það þyrfti í rauninni nýtt frv. um þessi mál, en eins og ég gat um í upphafi, er mér kunnugt um, að forstöðumaður rafmagnseftirlits ríkisins hefur samið nýtt frv. um þessi efni, sem ég í öllum atriðum get fallizt á, og hef ég því ekki gert neinar till. um fjárhæðir til rafveituframkvæmda og vísa til þess, sem ég lýsti yfir í byrjun máls mín. Frv. þetta þarf mikilla lagfæringa við og fær það ekki afgreiðslu fyrr en væntanlega á næsta þ., en það er áreiðanlegt, að við komumst lengst í þessu nauðsynjamáli með því að setja um það skynsamlega löggjöf.