08.02.1945
Neðri deild: 125. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (3639)

267. mál, raforkulög

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég get ekki látið hjá líða að láta í ljós, að mér finnst, að þetta mál hefði hæglega getað beðið með afgreiðslu til morguns. Það er ekki svo aðkallandi og einnig fyrir fram séð, að þetta mál fær ekki aðra afgreiðslu hér á þ. en að því kynni að verða vísað til 2. umr., vegna þess, hversu flm. hafa lengi með það fjallað.

Mál þetta hefur verið hér til umr. áður og stóð þannig, er umr. var frestað, að aðalflm. hafði talað frekar almennt um málið heldur en farið nánar út í einstakar gr. þess. Hann dýrðaðist mjög yfir því, að þetta frv., ef að l. yrði, mundi mjög verða til stuðnings landbúnaði vorum. Það er að vísu rétt, að landbúnaðinum veitir ekki af, að honum yrði stuðningur veittur, þar sem hann er nú, eftir tveggja áratuga stjórn Framsfl. á skipan þeirra mála, í hinu mesta öngþveiti. Hv. flm. lagði út af því, að við mættum ganga út frá því, að ef byggðirnar fengju ekki rafmagn, stæði fyrir dyrum gereyðing á þeim, en þetta frv. væri bjargráð við þessu.

Ég sýndi fram á, að með samþ. þessa frv. væri verið að ganga inn á þá pólitík, sem Framsfl. hefur hingað til rekið í landbúnaðarmálum vorum. Með þessu frv. er farið inn á verðjöfnunarleiðir, þar eð frv. gerir ráð fyrir því, að raforkuna skuli selja með sama verði, hvort sem um þéttbýli eða dreifbýli er að ræða, þótt vitað sé, að rafveitur í dreifbýli eru svo langsamlega örðugri fjárhagslega séð heldur en rafveitur í þéttbýli. — Ég sýndi einnig fram á það, að með því að fara þessa leið, væri verið að stuðla að því að viðhalda dreifbýlinu, sem Framsfl. vill fyrir alla muni varðveita, og það stóð í Tímanum í gær, að það væri alveg bráðnauðsyn fyrir þjóðina, að dreifbýlið héldist. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er landbúnaðinum ekki til stuðnings og miðar ekki að raunhæfum aðgerðum, sem væru landbúnaðinum til eflingar, heldur fer beint inn á pólitík Framsfl. Flm. leitaðist við að sýna fram á, að þessi mál þyrfti að taka föstum tökum og skipuleggja þau og hugsa bæri um hag alþjóðar, en ég sýndi fram á, að því færi svo fjarri, að frv. miðaði að þessu.

Hv. flm. sagði, að ég vildi ekki ganga inn á miðlunartilraun, og taldi þess vegna, að ég vildi ekki hlynna að landbúnaðarmálum. Við sósíalistar höfum sýnt hið gagnstæða, og það er eins mikil fjarstæða að segja, að við séum andvígir landbúnaðinum, eins og að segja, að Framsfl. sé bjargvættur hans. Það er ekkert hjálpræði fyrir landbúnaðinn, þótt þetta frv. verði samþ. og rafmagn lagt inn í eina sýslu og láta svo þar staðar numið. Hér á Alþ. voru samþ. í gær kaup á efni til raforkuveitu til Þykkvabæjar, sem áætlað er, að kosti um 1 millj. kr., og nær hún til 40 bæja. Og ef maður gerir ráð fyrir 5 manns á hverjum bæ, þá verður kostnaðurinn 5000 kr. á hvert nef. Ég hef átt tal við forstöðumann Rafmagnseftirlits ríkisins, og kveður hann kostnaðinn ekki mega fara fram úr 1900 kr. og helzt ekki fram úr 1200 kr. á mann, ef það á að bera sig, og þá sér maður, hvernig útkoman verður með 5000 kr. kostnað á mann.

Hv. flm. sagðist ekki vera svo bjartsýnn, að hann áliti, að rafmagn kæmist inn á hvern bæ. Þetta eru framfarir, því að hingað til hefur ekki verið dregið úr þessu í Tímanum. Þó sagði hann nú síðar, að það yrði að sjá dreifbýlinu fyrir rafmagni, en þeir athuga það ekkert, hvort þessar fullyrðingar hafa við rök að styðjast eða ekki, hvort þetta sé framkvæmanlegt eða geti borið sig, heldur eingöngu, hvort það sé vænlegt til áróðurs. Hann tók Reykjavík til samanburðar og lét svo, sem í nágrenni hennar hefðu allir rafmagn, en því fer bara alls fjarri, að svo sé, og ef þeir vilja fá rafmagn, þá verða þeir að kosta leiðslurnar heim til sín sjálfir, og fá þeir það eftir ákvörðun bæjarráðs, sem gerir þær kröfur til dreifbýlisins, að það tryggi minnsta notkun, og er sú notkun miðuð við, að hún standi undir kostnaði að einhverju leyti. Ég vil benda hv. flm. á það, að hér er og hitaveita, sem er eingöngu innan Hringbrautar. Þar er ekki verið að hita upp dreifbýlið. Samanburður hv. flm. nær því ekki nokkurri átt. Það, sem hér í Reykjavík er gert, er það, að fyrst eru lagðar þær leiðslur, sem helzt bera sig, og það er eina leiðin, sem við hljótum að fara.

Hv. flm. sagði, að við mættum ekki fara í meting, en það gerði hann þó einmitt sjálfur. Hann sagði, að hér væru embættismenn, og þess vegna hefði Reykjavík betri aðstöðu. Það er að vísu rétt, að hér er mikið af embættismönnum, og þeim fækkaði ekki á stjórnarárum Framsfl. Ég tel víst, að sú leið verði farin, að veiturnar verði fyrst lagðar um þéttbýlið og síðar um dreifbýlið, en ekki byrjað á því að elta hvern dalakofa.

Þá minntist hv. flm. á Siglufjarðarveituna, að hún hefði ekki borið sig. Það er rétt, ég treysti þá þeim áætlunum, sem fyrir lágu og sýndu þetta vera gott fyrirtæki, en öllum getur nú skjátlazt, og við höfðum ekki á öðru að byggja en þessum áætlunum. En þetta sýnir einungis, að áætlanir verkfræðinga geta verið varhugaverðar, og hversu miklu síður er þá ekki hægt að byggja á bráðabirgðaágizkunum um þetta mál, eins og hv. flm. vill.

Þá eyddi hv. flm. miklum hluta af ræðutíma sínum í að sýna fram á, að skoðanamunur væri um meginatriði þessa máls, en ég er þar ekki á sama máli. Við erum sammála um það höfuðatriði, að framkvæmd raforkul. sé í höndum ríkisins, og vissulega ætti það að reisa orkuver. Ég er þeirrar skoðunar, að í þessu verði svo miklar framkvæmdir, að það taki út yfir sérhagsmuni einstakra héraða. Það, sem hv. flm. hengdi hatt sinn á, voru ummæli mín viðvíkjandi kaupstöðum, en það var þó ekki um neinn skoðanamun að ræða að þessu frádregnu og þess vegna ekkert mikilsvert atriði, sem á milli bar. En í 1. gr. frv. segir:

„Þó er þeim kaupstöðum, kauptúnum eða héruðum, sem nú eiga að reka raforkuver, heimilt að reka þau áfram.“

Í þessu fannst mér gæta ósamræmis og því ekki um skoðanamun að ræða, þegar þessu atriði er sleppt, sem hv. flm. kallar meginatriði, en þá eru meginatriðin líka mörg. En nokkru síðar í frv. segir, að engum, nema rafveitum ríkisins, sé heimilt að selja raforku. Hér er ekki um dreifingu að ræða, heldur að selja orkuna til smástaða. Þetta er undanþága, sem ekki gat staðizt. Ég gat ekki annað en bent á ósamræmið í þessu viðvíkjandi því, sem n. sagði um Reykjanesrafveituna. Þá lagði hún til, að sama aðferð yrði höfð annars staðar. Og þarna gátum við verið samferða. En hvað kemur þá til, að nú skuli n. vera á allt annarri skoðun? Nú á engum að vera heimilt að selja raforku nema rafveitum ríkisins. Þetta minnir mjög á þann hringlandahátt, sem á sér stað í störfum þessarar n., og er skammt að minnast, hvað oft hún breytti um skoðun í sambandi við Andakílsárvirkjunina. Það, sem mér og hv. flm. ber á milli, er það, hvort ákveða skuli með l., hvaða gjald skuli vera á rafmagninu á öllu landinu. Þetta er að mínu áliti alls óframkvæmanlegt, þar sem staðhættir eru svo mjög misjafnir. Þá væri með þessu verið að koma veitum, sem illa bæru sig, yfir á þéttbýlið, eða þá, að það er verið að leyna, hvað þetta kostar í raun og veru.

Þá er ég og á móti því að lögbinda þær bráðabirgðaáætlanir, sem frv. fylgja. Ég benti á það hér áður, hvað mikið væri á þessum áætlunum að byggja. En nefndin hikaði ekki við að lögbinda raforkukerfið eftir þessum áætlunum. Þá er ákveðið að byggja 6 orkuver, en ekki nefnt, hvar þau skulu byggð, en það hefði þó verið nær að álíta, að þetta hefði eitthvað verið athugað, ef svo hefði verið. Ég benti því á, að 7. gr. væri alls ófær, þannig að ekkert væri á henni að byggja. Eftir henni mætti ætla, að aðalveitan væri frekar byggð á innsæi en rannsóknum, enda er hún ekkert nema upptalning á sýslum landsins, og er það alveg óþarft, nema vera kynni, að það væri líklegt til áróðurs. Ég ætla svo ekki að endurtaka það, sem ég hef áður sagt, en ég tel, að réttara sé, að raforkusjóður sé notaður, þegar á liggur, en ekki að nota hann í eina veitu, sem svo ef til vill ber sig ekki.

Ég hef í þessari ræðu minni stytt mál mitt eins mikið og ég hef séð mér fært. Það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, stendur óhrakið af öllum. Ég mun leiða hjá mér að mestu að svara því, sem hv. flm. sagði við mig persónulega. Eitt af því, sem hv. flm. sagði, var, að hjá mér hefði gætt menntunarhroka, þegar ég flutti mína fyrri ræðu. Ég verð að mótmæla því, en hins vegar ætti ég, ég vil ekki segja að ég hafi, en ég ætti að hafa eins góða aðstöðu í þessu efni og meðnm. mínir, og ég held, að hjá mér hafi ekki gætt eins mikils hroka og hjá hv. flm., þegar hann kom með föðurlegar áminningar í minn garð sem óreynds þm.

Hv. flm. sagði, að ég hefði ekki komið með neinar till. til úrbóta á því, sem ég taldi miður fara. En ef hann hefði hlustað betur, hefði hann getað heyrt, að ég bætti við eftir hverja aðfinnslu till. um, hvernig betur mætti fara. Ég skal því í stuttu máli lýsa því, hverja ég tel bezta lausn þessa máls. Ríkið annist flutning orkunnar milli landshluta. Frá héraða- og kaupstaðastöðvum sé orkunni veitt innan héraðanna. Enn fremur má kaupa orku hjá rafveitu ríkisins. Ég gæti hugsað mér, að þessi fyrirtæki veittu einkarétt til þess að samkeppni kæmi ekki til greina.

Þá taldi ég nauðsynlegt að veita þeim stöðum, sem ekki gætu staðið undir kostnaðinum af eigin rammleik, styrk af opinberu fé. Ég benti á að nota raforkusjóð til að stofna rafveitur, en fé væri lánað úr sjóðnum með vægum vöxtum. Þá benti ég á, að almenn rannsókn á sviði rafmagnsmála þyrfti fram að fara. Þessi mál skyldu heyra undir stjórn ráðherra og rafmagnsstjóra.

Sé ég svo ekki ástæðu til að hafa ræðu mína lengri.