05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (3654)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Mér voru sýndar þessar brtt., sem hv. þm. a.-Húnv. reifaði hér, áður en þær voru fluttar. Eins og hv. þm. sagði, neitaði ég ekki að vera með samþykkt þeirrar brtt., sem fjallar um það, að þessi kostnaður megi ekki leggjast á vörurnar í útsölu. En ég tel ákvæði frv. um þetta efni svo skýr, að sú brtt. sé alveg óþörf. Það hefur aldrei verið tilgangurinn að koma þessu máli þannig fyrir, að hægt yrði að velta þessu yfir á aðra heldur en bændur sjálfa. Ég sé ekki ástæðu til þess, að þegar bændum er einum ætlað að greiða þennan skatt, að fara að taka af þeim yfirráðin yfir honum og hvernig honum yrði varið. Ég held að meðnm. minn í minni hl. landbn., hv. 2. þm. Skagf., hafi haft sama álit um þetta efni, og ég get því talað fyrir hönd okkar beggja um þetta atriði.

Ég er sömuleiðis á móti öðrum brtt., sem fram hafa komið. Ég sé ekki ástæðu til þess að hrekja þetta frv. til hv. Ed., og legg ég því til, að allar brtt. verði felldar og frv. verði samþ. óbreytt eins og það lá fyrir.