05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (3657)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Þetta frv. er orðið einstakt í sinni röð, því að með því er einu félagi í landinu gefin heimild til skattlagningar (PZ: Á sjálft sig.), — ekki á félagið, en á vissar tekjur manna í landinu. (BÁ: Á meðlimi sína.) Ég hygg, að það yrði ákaflega undarlegt upplit á mönnum, sem eru með þessu, ef till. kæmi hér fram á Alþ. um það, að t.d. Alþýðusamband Íslands mætti taka í sjóð hjá sér vissa prósentu af vinnulaunum þeim, sem útborguð væru í landinu. Ég fæ þess vegna í raun og veru ekki skilið, hvernig Alþ. getur afgr. frv. eins og þetta, þar sem stöðugt er nú verið að kvarta undan því — og raunar með réttu —, hvað ríkið leggi á mikla skatta. Mér þykir undarlegt, að Alþ. skuli einnig vera farið að ganga inn á þær brautir að láta einstök félög í landinu taka skatta af mönnum.

Ég vildi láta þessa skoðun mína í ljós á þessu frv. Ég tel það eiginlega vera brot á allri reglu, sem gilt hefur hér á hv. Alþ. áður. Og þess vegna ætla ég mér að greiða atkv. á móti frv.