05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (3659)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Mér þykir dálítið einkennileg sú breyting, sem hefur orðið á hugarfari ýmissa hv. þm., síðan þetta frv. var lagt fyrir síðast. Þá gekk það hér í gegnum þrjár umr., eins og þingsköp ákveða, án þess að hreyft væri slíkum andmælum gegn frv. sem nú hafa komið fram við þessa einu umr. um málið. Ég veit satt að segja ekki, hvar á að leita að orsökinni fyrir þessari skoðanabreytingu, sem fram hefur komið í þessu efni. Og á ég þar við allar þær brtt., sem fram hafa komið, og ummæli hæstv. dóms- og félagsmrh., sem hafði náttúrlega alveg sömu aðstöðu til þess að koma þessari skoðun sinni á framfæri þá eins og nú.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, sem raunar hefur komið fram áður við þessar umr., að það er síður en svo, að hér sé verið að læðast aftan að mönnum, sem hér er gert ráð fyrir, að eigi að leggja þennan skatt á. Það er búið að senda drög að þessu frv. út til allra búnaðarsamtaka á landinu, og að þessum samtökum stendur meginþorri allra bænda í þessu landi, því að undirstaða búnaðarsamtakanna eru hreppabúnaðarfélögin, sem eru starfandi úti um allar byggðir þessa lands. Þessi félög kjósa fulltrúa til þess að mæta á búnaðarsambandsfundum, auk þess, sem búnaðarsambandsfundir eru sóttir af áhugasömum bændum, sem ekki mæta beint sem fulltrúar. Það hafa komið samþykktir frá öllum búnaðarsamtökum um, að þessi skattur verði lagður á eins og frv. fer fram á. Og búnaðarþinginu, sem er forsvarsaðili bændastéttarinnar, gefst kostur á betri aðstöðu til þess að vinna að hagsbótum bænda með því að fá þessar tekjur. Ég fyrir mitt leyti skil ekki þessa afstöðu Alþ., að vilja ekki verða við eindreginni ósk bænda, sem er aðeins vegna þess, að heppilegra þykir að fá þetta sett í lagaform og skapa því þannig grundvöll, að öll innheimta yrði auðveldari og hægari að innheimta þetta gjald.

Það er mjög hliðstætt þessu, sem gert hefur verið gagnvart sjávarútveginum, því að skattur hefur verið lagður á sjávarútvegsmenn í því formi, að hann rennur í fiskveiðasjóð. Og með þeim hætti eiga útvegsmenn kost á hagstæðari lánum heldur en þeir annars ættu. Svo að það er áreiðanlega fordæmi fyrir því að fara inn á þessa braut, þó að þarna sé dálítill aðferðamunur um ráðstöfun fjárins.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 918, frá hv. þm. V.-Húnv., virðist hún vera gersamlega ástæðulaus. Því að það var í þessu formi, sem búnaðarsamböndin mæltu með framgangi frv., og ég ætla, að samþykkt væri gerð um það líka í hans héraði. Eins og hefur verið lýst, er það líklega það óskiljanlegasta, sem fram hefur komið í þessu máli, að leggja til að taka ráðstöfunarréttinn á þessu fé af búnaðarþinginu. eða vilja láta ráðstöfunarréttinn vera háðan samþykki eins ákveðins ráðh. Ég satt að segja skil ekki þann hugsanaferil, sem liggur bak við brtt., sem fer fram á slíkt. Þetta er fé, sem eingöngu er lagt á bændastétt landsins. Þessi bændastétt hefur fengið lögfest form fyrir meðferð sinna mála, sem m.a. felst í því, að bændur halda búnaðarþing. Og þar sem um er að ræða þeirra eigið fé, þá er það harla undarlegt, að stofnun þessara bændasamtaka skuli ekki mega upp á eindæmi ráðstafa þessu fé í þágu bænda. Ég var undrandi, þegar ég sá slíka brtt. fram komna sem þessa frá hv. meiri hl. landbn. Það er vitað, að það fé, sem lagt er til Fiskifélags Íslands og Búnaðarfélags Íslands samkvæmt fjárl. árlega, er háð, hvað úthlutun snertir, samþykki viðkomandi ráðh. Og það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, þótt svo sé. Þessar stofnanir verja þessu fé í margs konar starfsemi fyrir ríkisvaldið og þjóðfélagið. Hitt gegnir öðru máli með það fé, sem rennur til þessarar stofnunar beint frá bændunum sjálfum og er ekki á neinn hátt tekið af öðrum en þeim. Og þar sem þetta er gert með einróma samþykki þeirra sjálfra, þá virðist það vera ósanngjarnt, ef Alþ. fer að seilast inn á umráðasvið búnaðarþings yfir þessum fjármunum og fela það í hendur eins ráðh. Þar sem Búnaðarfélag Íslands er alveg óháð stofnun ríkisvaldinu, virðist það einkennilegt, að bændur skuli ekki mega efla þessa stofnun með fjárframlögum til nytsamrar starfsemi án þess að setja það undir yfirráðasvæði ríkisvaldsins. Mér virðist ekki nokkur heil brú í þeirri hugsun. sem liggur bak við þessa ásælni, sem fram kemur í slíkri brtt. sem þessari. Og mér er það blátt áfram hryggðarefni, að einn af bændafulltrúunum á Alþ. skuli hafa gerzt forgangsmaður og 1. flm. þessarar brtt.

Ég þarf svo ekki meiru við þetta að bæta. Ég vil mjög taka undir það, sem kom fram hér frá hv. minni hl. landbn., hv. þm. Mýr., að þetta frv. nái nú fram að ganga eins og það liggur fyrir og að það verði ekki stofnað til breyt. á því. Og ég vil mjög eindregið mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt hér við þessa einu umr. og gert að l. í því formi, sem það nú er.