05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (3660)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég átti kost á því í landbn. þessarar hv. d. að fylgjast með afgreiðslu þessa máls og lagði, þá til, að frv. yrði samþ. eins og það lá þá fyrir. Ég er sama sinnis enn, að það út af fyrir sig er ekki óeðlilegt, að það verði að greiða einhverja upphæð af framleiðsluvörum landbúnaðarins, fyrir sitt leyti á svipaðan hátt eins og greitt er af framleiðsluvörum sjávarútvegsins, til þess að standa undir ýmiss konar starfsemi, sem þessar stéttir hafa báðar með höndum. Og um það þarf ég ekki frekar að ræða, því að nánar var gerð grein fyrir því, þegar málið var rætt í landbn.

En ég stóð upp í tilefni af brtt., sem fram eru komnar, og þeim umr., sem um þær hafa fram farið. Út af brtt. á þskj. 918, frá hv. þm. V.-Húnv., vil ég segja það, að mér virðist hún heldur miða að því að draga úr þeim möguleikum, sem opnaðir eru með þessari lagasetningu, og jafnvel gera þá að engu, ef heimildinni er beitt, sem í brtt. felst, því að þar er lagt til, að búnaðarþingi sé heimilt að fella niður þetta gjald alveg, ef því sýnist ástæða til um ákveðinn tíma. Og er þá vitanlega að engu gerð þessi lagasetning. Ég get ekki greitt þeirri brtt. atkv.

En út af brtt. meiri hl. landbn. vil ég segja það, að síðari brtt. er ekkert annað en nánari skýring á því, sem fyrir landbn. vakti, að þetta gjald yrði ekki til þess að hækka verð vörunnar. Svo að því leyti er brtt. ekki efnislega ný, heldur nánari skýring á þessu ákvæði.

Um þá brtt., sem aðallega hefur verið rætt um hér, sem fer fram á, að samþykki landbrh. þurfi til þess að veita af þessu fé, vil ég segja, að ég mun einnig fylgja þeirri brtt., og það af þeim ástæðum, sem hv. þm. Borgf. undirstrikaði hvað gleggst nú. Því að mér þótti hv. þm. Borgf. oft hafa verið rökvissari heldur en í sinni ræðu áðan. Hann dró upp samanburð nokkurn á milli þessara útgjalda, af sjávarafurðum til fiskveiðasjóðs og því gjaldi, sem hér er um að ræða til búnaðarmáiasjóðs. En hér er ekki um sambærilega hluti að ræða. Þær prósentur, sem teknar eru af sjávarafurðum, renna í fiskveiðasjóð. En fjárveiting úr fiskveiðasjóði er háð samþykki ráðh. Það er ekki hægt fyrir fiskimálan. eða Fiskifélagið að veita fé úr þessum sjóði án samþykkis ráðh. Og með þessari brtt. er einmitt lagt til. að farið verði inn á þá sömu braut og með gjaldið af sjávarafurðum. Hv. þm. Borgf. sagði, að hér væri tekinn ráðstöfunarrétturinn af Búnaðarfélagi Íslands. En þessi réttur er þá líka tekinn af útvegsbændum og þeim ekki leyft að úthluta fé án samþykkis ráðh. Og mér virðist það ekki óeðlilegt, því að með þessu er tekinn skattur af heilli stétt, og það er ekki óeðlilegt, að einhver aðili frá hinu opinbera hafi íhlutun um það, hvernig þessum skatti verði varið. Ég gæti hugsað mér að taka þetta til athugunar, að það verði í því formi, sem frv. gerir ráð fyrir um landbúnaðarafurðir, ef t.d. sjávarútveginum væri frjálst að fara einn með sitt fé og falið Fiskifélagi Íslands eða öðrum aðila, sem hliðstæður væri Búnaðarfélagi Íslands, að ráðstafa þessu fé, en slíkt gæti ég ekki hugsað mér, að veita úr þessum sjóði án samþykkis ráðh. Og þess vegna þykir mér rétt að fjárveiting úr búnaðarmálasjóði sé háð samþykki landbrh., eins og fjárveiting úr fiskimálasjóði er háð samþykki þess ráðh., sem fer með sjávarútvegsmál.