29.02.1944
Neðri deild: 22. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég hef gerzt meðflm. með hv. 6. landsk. að tveim brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir. Breyt. þessar hníga í þá átt, að í stað þess, að sagt er í síðustu málsgr. 3. gr., að atvmrh. veiti styrki eða vaxtalaus lán, komi, að stjórn Fiskveiðasjóðs veiti styrkina, einnig að fengnum till. Fiskifélags Íslands.

Í samræmi við þetta er breyt. við 9. gr., þar sem komi, að Fiskveiðasjóður sjái um útgáfu skuldabréfa fyrir lánum og taki við afborgunum o.s.frv. Meginefni þessara till. er það, að í stað þess, að atvmrh., sem samkv. frv. er fengið úthlutunarvald þessara styrk ja og lána, þá er þetta í brtt. okkar lagt undir stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands.

Það þarf ekki mörgum orðum um þetta að fara. Þessar brtt. eru í samræmi við það, sem tíðkazt hefur. Ég vildi aðeins láta þau orð fylgja, að ég tel eðlilegt, að sú aðferð verði höfð, að þessi sjóðsstofnun hafi með úthlutun þessa fjár að gera. Einhver kann að segja, að þar sem ríkissjóður hafi lagt fram svo mikið fé, sé eðlilegt, að hann hafi til tryggingar áhrif á úthlutunina. Þessu er þar til að svara, að með þessu lagafrv. eru atvmrh. tryggð margvísleg afskipti og áhrif um það, hvernig úthlutun lánanna og styrkjanna er háttað, þannig að sæmilega vel virðist séð fyrir áhrifum ríkissjóðs í þeirri úthlutun, sem hér um ræðir.

Ég hef nú raunar ýmislegt fleira að athuga við þetta frv., en mun þó láta kyrrt liggja, en taldi rétt að verða samferða hv. minni hl. sjútvn., hv. 6. landsk., og tel, að með því að fara í þá átt sé meira samræmis gætt í þessu efni en samkv. því, sem meiri hl. sjútvn. og ríkisstj., sem bar fram þetta frv., leggja til. — Vil svo fara þess á leit, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir því, að þessi skriflega brtt. megi koma fyrir, þótt ekki sé búið að prenta hana enn þá.