07.02.1945
Efri deild: 120. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (3679)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það má lengi deila um það, hvað mikið form og hvað mikið efni felst í þeirri breytingu, sem gerð var á þessu frv. í Nd.

En þar sem málið var borið fram fyrir beiðni búnaðarsamtakanna og áherzla lögð á það, að búnaðarþing hefði féð til umráða, þá verður maður að ætla, að knýjandi ástæður hafi legið fyrir því, að farið var að breyta frv. í Nd. og gera bændur ómynduga yfir því fé, sem þeir leggja sjálfir til. Og þótt hæstv. fjmrh. vilji halda því fram, að ráðh, muni ekki neyta þessa valds, þá er með þessu raunverulega búið að taka fjárveitingarvaldið af búnaðarþingi.

Ráðh. getur komið í veg fyrir, að því fé sé ráðstafað og að búnaðarþingið ráðstafi því á þann hátt, sem það óskar, og stöðvað alla ráðstöfun á þessum fjármunum.

Nú er það með þessa stétt, eins og aðrar stéttir, að hún hefur ekki frekar en þær nokkra tryggingu fyrir því, að valdi, sem er í höndum ráðh., verði ekki misbeitt. Það er meira en aðeins að forminu til, sem verið er að taka yfirráðin yfir þessu fé af bændastéttinni. Þetta sýnir bezt hug þeirra manna, sem berjast fyrir þessu, hvernig þeir hugsa til íslenzku bændastéttarinnar og hvað mikla vantrú þeir hafa á henni.

Það er ekki aðeins stj. Búnaðarfélagsins, sem á að ráðstafa þessu fé, — það er þing bændanna sjálfra, búnaðarþingið, sem verður að ganga frá samþykkt um ráðstöfun fjárins.

Ég álít, að verði þetta ákvæði samþ., sé það beinlínis móðgun við bændastétt landsins, því að það er vitað mál, að hún hefur aldrei sýnt sig í því að fara verr með fé en aðrar stéttir landsins, og þetta er þar að auki fé, sem bændurnir greiða sjálfir og enginn annar aðili, og þeir hafa samþ. að greiða það. Þetta er skattur, sem þeir leggja á sig sjálfir til þess að byggja upp sín samtök stétt sinni til framdráttar. (Menntmrh.: Geta ekki fleiri stéttir gert það sama?) Verkalýðsfélögin geta gert það í þéttbýlinu, af því að það er auðveldari aðstaða fyrir þau.

En þetta er hliðstætt því, ef l. væru sett um það, að verkalýðsfélögin mættu engu af sínu fé ráðstafa nema með samþykki ríkisstj. Þetta er hvort tveggja lagt á stéttir, og sá munur er einn á því, að vegna þess að bændur eru svo dreifðir í þessu landi, eins og við vitum, er erfiðara með þeirra samtök. Þeir selja sínar vörur á þann hátt, sem við vitum, að þeir geta. Þess vegna er nær því ókleift fyrir þá og þeirra samtök að leggja á sig þennan skatt. Það er vegna þessa, að bændur verða að flýja á náðir löggjafans til þess að koma sínu fram, sem verkalýðsstéttirnar hafa komið fram með samtökum vegna sinnar aðstöðu.

Ég mun ekki lengja umr. um þetta mál, þó að mikið mætti um það ræða. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með þeirri brtt., sem hér er komin fram. Það er rétt, að það sýni sig, hvort hv. þm. ætla sér að fella þetta frv. og hvort þeir ætla að taka ráðstöfunarvaldið af bændum og gera þá ómynduga yfir sínu eigin fé. En hvað sem samþ. verður nú á þessu Alþ. og reynt að gera bændur ómynduga, þá mun það sannast, að strax á næsta búnaðarþingi mun verða hafin barátta fyrir frelsi bænda yfir sínu eigin fé. Það er kannske hægt að segja, að bændur hafi að ýmsu leyti erfiða aðstöðu nú í þessu þjóðfélagi, en það mun sýna sig, eins og svo oft áður, að sú jafnvægisröskun, sem kann að vera í bili, varir ekki lengi. Og seinna mun koma að því, að bændastétt landsins mun fá þá aðstöðu hér á Alþ., að hún verður fær um að brjóta af sér þennan klafa. En verði þetta frv. samþ., geta þó bændur byrjað að safna fé í þennan sjóð, sem þeim er nauðsynlegur til þess að byggja upp sín samtök.