08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (3698)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég er nú búinn að gleyma ýmsu af því helzta, sem ég hefði viljað minnast á í gær. En þó vakti það svo mikla athygli mína, að það gat ekki gleymzt, að hæstv. fjmrh. sagði, að það væri hégómaatriði, sem verið væri að samþ. hér. En svo kemur hér annað hljóð úr horni frá hæstv. kennslumálarh., og var helzt að heyra á honum, að þetta atriði væri aðalatriði frv., því að án þess að þetta atriði væri samþ., væri ekki hægt að samþ. þetta frv. Ég held, að það sé rétt skilið, að þetta hafi verið í ræðu hans, að því er þetta atriði snertir.

Það kemur því fram mjög einkennilegur skoðanamunur frá tveimur ráðherrum í ríkisstjórninni, þar sem annar álítur, að þetta sé meira form, eins og hæstv. fjmrh. taldi þetta vera, en hinn hæstv. ráðh. álítur, að þetta sé efnisatriði, er skipti svo miklu máli, að ekki sé hægt að samþ. frv., ef þetta yrði ekki einnig að lögum. Kemur hér fram nokkuð, sem er eitt meginatriði þessa máls, sem sé það, að þetta atriði er, eins og bent hefur verið á, fyrst og fremst borið fram af forvígismönnum Sósfl., þó að notaður sé til þess þingmaður úr öðrum flokki að bera það fram. Það er líka vitað, að Sjálfstfl. leggur ekki, eins og skilja má, áherzlu á þetta atriði, og margir þm. flokksins munu jafnvel óska eftir, að þetta atriði verði ekki samþ. En Sósfl. aftur á móti leggur á það áherzlu, hefur þvingað það í gegn og fengið hv. þm. A.-Húnv. til þess að bera það fram.

Ég álít, að segja megi með góðum og gildum rökum, að ef hægt er að þvinga það fram á Alþ.,hv. þm. greiði atkv. með því að setja bændum fjárhaldsmann um það fé, sem þeir sjálfir leggja fram, og það jafnvel þótt hinir sömu hv. þm. séu á móti því, sé engin trygging fyrir því, að þetta ákvæði, þegar það er komið í l., verði ekki notað á sama hátt í ríkisstjórninni, þannig að ráðherrar verði þvingaðir í stað þm. áður. Við höfum séð mörg dæmi þess, að mál eru þvinguð fram, þótt þau kosti ríkissjóð nokkrar millj. og séu andstæð vilja ráðherra, ef mikils þykir við þurfa að halda samstarfi um önnur mál.

Það er alveg rétt, sem hæstv. menntmrh. tók fram, að það mundi ekki þykja litlu máli skipta, hvort bændur eru sviptir yfirráðarétti yfir því fé, sem þeir hafa lagt fram í því skyni að efla þessi samtök. Það mundi líka blátt áfram vera þýðingarlaust að lögleiða slíkt, af þeirri einföldu ástæðu, að þótt þetta yrði samþ. hér nú, þá yrði það afnumið á næstu árum, því að þetta mundi eðlilega skapa óánægju meðal bænda, sem þegar í stað mundu taka upp baráttu fyrir sínum málstað og ekki slaka á, fyrr en þingið léti undan, og þeir fengju sjálfir umráðarétt yfir sínu eigin fé.

Að því er snertir þá brtt., sem hæstv. menntmrh. ber hér fram, þá er það rétt, að eins og ákvæðið er nú í frv., geta l. ekki tekið gildi á þeim tíma, sem þar er ráð fyrir gert. En þetta lagfærist af sjálfu sér, þar sem vitað er, að l. taka ekki gildi fyrr en þau hafa verið afgr. hér frá þinginu og síðan staðfest í ríkisráðinu á þann hátt, sem nauðsyn krefur, til þess að þau geti tekið gildi, og taka þau þá gildi þann dag, sem þau koma þaðan og eru auglýst.

Skal ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum.