08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (3699)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Ég er ósnortinn af þessum hita, sem fram kemur í þessu máli. Mér skilst á hv. þm. Str., að þetta sé eitt af þeim málum, sem næstum skipti flokkum nú, þvingunum sé beitt við hv. þm. og svo í ríkisstjórninni innbyrðis. Hér sé gengið inn á svo varhugaverða braut, að það sé spurning, hvort þjóðfélagið bíði ekki mikinn hnekki, ef þessi breyt. verði ekki gerð á frumvarpinu.

Það var rangt, sem hann sagði, að einstakur þm. hafi borið þetta fram í hv. Nd., því að það var hluti nefndarinnar, sem bar það fram og hafði til meðferðar. Og viðvíkjandi allri þessari þvingun og ósköpum, sem hér um ræðir, verð ég að játa, að ég hef ekki heyrt þetta nefnt. Ég álít, að ekki megi rugla hér saman frv. og þessari brtt. Það er aðeins þessi brtt., sem er hér til umr. nú, og ég vil taka undir það með hæstv. fjmrh., að þetta er meginatriði í mínum augum, en þykir þó frv. rétt, eins og það kemur frá hv. Nd. Mér þykir það ekki nokkur þvingun, og mér þykir það mjög einkennilegt að heyra þetta borið saman við frjálsan félagsskap. Því skyldi ekki t.d. Alþýðusamband Íslands og annar sams konar félagsskapur geta gert með sér frjáls samtök að leggja fram svo og svo mikið fé? Þetta er alveg eðlilegt, og það er sá munur á því, ef þetta er gert með l., að þá er hver félagsskapur frjáls að því, hvort hann gerir þetta eða ekki, og því engin ástæða til að hafa neitt opinbert eftirlit með því.

Mér skildist á hv. 1. þm. N.-M., að þessu væri þvingað upp á bændur. Mér hefur nú skilizt, að þetta frv. væri gert í greiðaskyni við bændur, og lít svo á, að hæstv. Alþ. sé með þessu að styðja bændur í ákveðnu máli, sem þeir álíta, að þeir hafi ekki nóg samtök til að koma í kring öðruvísi. En ekki er hægt að neita því, að um leið og þessi l. eru sett, eru allir neyddir til að vera með í þessu. Það, sem ríkið hér leggur til. er því það, að hæstv. Alþ. megi setja um það lög. Það lætur einn ráðh. setja reglugerð um málið og felur síðan innheimtumönnum innheimtu þessa gjalds, lögtaksrétt o.s.frv. Og þar sem auk þess allir eru þvingaðir til að vera með, er óverjandi, að Alþ. neyði svo fámenna stétt til að vera með í þessum samtökum öðruvísi en þeir, sem óánægðir kynnu að verða, gætu leitað á náðir þessa sama valds, sem setti þessi lög.

Hv. þm. Str. sagði, að þessu yrði fljótlega breytt aftur, ef ráðherra ætti að hafa þetta vald. Ég aftur á móti gæti trúað því, að þetta yrði flutt aftur, ef það yrði fellt í burtu nú. Hver getur sagt með vissu. að ekki myndist einhver sterkur minni hl. meðal bænda í landinu, sem væru alveg á móti því, hvernig þessu fé væri varið og vildu ekki leggja það fram? Þeir mundu segja sem svo: Ef þetta væri frjáls félagsskapur, mættum við segja okkur úr honum. Nú eru þetta landslög, og við heimtum, að það Alþ., sem þvingaði okkur með þessum l., búi um leið til einhvern opinberan rétt, sem við getum kært til gegn því gerræði, sem hér er framið.

Mér skilst því, að þetta sé alveg eins verndarráðstöfun gagnvart bændunum og verið sé að svipta þá umráðaréttinum.

Mér finnst þeir hv. þm., sem talað hafa með þessari brtt., ekki gera mun á frjálsum samtökum og því, sem er lögþvingun.

Ég mun því greiða atkv. móti þessari brtt.