08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (3702)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson:

Ég var ekki viðstaddur í gær, þegar hæstv. menntmrh. hafði í sambandi við þetta búnaðarmál ráðizt á Sambandið og Samvinnuskólann með mikilli fákænsku og vöntun á góðum siðum, og þó að ég sjái ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um þetta efni, þá læt ég það vera mér tilefni til að minna á ýmislegt, sem kemur við uppeldismálum á heimili kommúnista, að því leyti sem það getur útskýrt það, sem hér liggur fyrir.

Ég vil þó, áður en ég minnist á þetta efni, benda á, að það virðist í sambandi við meðferð Alþingis á frv. um búnaðarmálasjóð hafa komið illur andi yfir kommúnistaflokkinn og það á elleftu stundu. Þegar þetta mál var til umr. í Nd., sáu kommúnistar ekki ástæðu til að koma með gandreiðarbeizli til að leggja við bændastéttina, en við frekari umr. málsins umbreyttust þeir og hafa svo gert að skilyrði fyrir stjórnarsamvinnunni, að fjötur yrði lagður á bændur. Þetta er því merkilegt, af því að það sýnir, að kommúnistar, sem aldrei hafa hugsað um annað en að koma á upplausn, kunnu lítt til landsstjórnarmála, eins og Snorri Sturluson segir um óróabelgi í Noregi. Er sízt að undra, þó að margt gangi nú illa fyrir kommúnistum, þegar þeir, að líkindum eftir fyrirlagi úr öðru landi, taka þátt í ríkisstjórn án þess að hafa til þess hæfileika eða undirbúning. Það verður ekki tekið öðruvísi en sem merki um talsverða vöntun á greind, að flokkurinn skyldi vera búinn að láta frv. ganga gegnum fimm umr. í þinginu, áður en forkólfarnir sáu þann voða, sem stafað gæti af frelsi bænda. Annars er ég ekkert hissa á framkomu kommúnista í þessu efni, því að þeirra verk miða öll í átt til aukinnar upplausnar, og það er sú kynning, sem menn fá af vinnubrögðum þeirra í lýðfrjálsum löndum.

Hæstv. menntmrh. mun vera kunnugt, að um það leyti sem hann var að taka sína Tyrkjatrú í Berlín, voru skoðanabræður hans í Noregi fjölmennir. Þeir höfðu eins og hér beitt yfirboðum og æsingum, þangað til þeim hafði tekizt að fá nokkurt fylgi á þingi og í bæjarstjórnum. En það fór svo, að þegar kommúnistar áttu að fara að ráða á þingi og í bæjarstjórnum, þá varð allt þeirra ráð að ráðleysi, svo að allar stoðir hrundu undan flokknum og hann þurrkaðist úr landinu. Þegar stríðið byrjaði, var enginn kommúnisti til í norska þinginu. Það verður aldrei nógsamlega virt við Norðmenn og gæti verið hér á landi, að þeir þoldu ekki yfirstjórn frá útlöndum. Sjálfstæðis- og þjóðerniskennd Norðmanna var svo mikil, að þeir vildu ekki láta útlendinga skipa sér fyrir, og þess vegna þurrkuðu þeir þennan flokk út úr landinu.

En fyrst þessi hæstv. ráðh. sá ástæðu til að tala um Sambandið og Samvinnuskólann út af þessu búnaðarmáli, þá er rétt að minnast á, hvað kommúnistar hafa afrekað á þeim vettvangi. Í Rússlandi eyðilögðu þeir samvinnufélögin, og hið sama gerðu þeir í Eystrasaltsríkjunum, þegar Hitler og Stalin gerðu með sér vinmæli 1939. Hér á landi var kommúnistaflokkurinn í opinberri andstöðu gegn samvinnuhreyfingunni um nokkur ár. Síðan komust kommúnistar á þá skoðun, að þeir ættu fremur að beita undirferli og hrekkjum gagnvart félögunum. Tóku þeir þá að ganga í sum kaupfélögin. Hér í bænum áttu þeir þátt í stofnun Kron, en hafa nú um margra ára skeið haldið uppi látlausum illindum og ófriði í því félagi. Er ekki annað sýnna en að það falli innan skamms í marga parta, og eiga flokksbræður hæstv. ráðh. alla sök í því máli. En að því er Sambandið snertir, þá hefur það margsinnis bjargað Kron úr erfiðleikum, og ef Kron hefði ekki notið góðvildar Sambandsins, er ekki sýnilegt, að það væri nú í tölu lifandi fyrirtækja. Loks kom þar, að setja varð dugandi framsóknarmann í forsvar fyrir félagið, og hefur hann getað bætt úr mörgum eldri syndum kommúnista.

Einn var sá maður í liði kommúnista, sem um nokkra stund virtist hafa til að bera áhuga og dugnað til að starfa við samvinnufyrirtæki. Þetta var Jens Figved, kaupstjóri í Kron. En jafnvel hið græna tréð brást. Eini kommúnistinn, sem sýndist vinna af áhuga fyrir kaupfélagsskapinn, var þó ekki meiri kostagripur en það, að félagið var í stöðugri hnignun undir stjórn hans. Var hann skuldugur félaginu um nálega 100 þúsund krónur, er hann var knúður til að yfirgefa félagið. Liðu nokkrir mánuðir, þar til Árna Benediktssyni tókst að bjarga við þessu skuldamáli. (Menntmrh.: Þetta er sagt í skjóli þinghelginnar.) Þetta er sagt af því, að það er satt. Hæstv. ráðh. veit, að það liðu margir mánuðir, þar til þessi skuld var greidd. (Menntmrh. Ef þetta væri ekki sagt í skjóli þinghelginnar, mundi það koma fyrir dóm.) Það er bezt fyrir hæstv. ráðh. að reyna að fá vottorð um, hvenær þessi skuld var borguð. Ég skora á hæstv. ráðh. að sanna það, að Jens Figved hafi verið skuldlaus, þegar hann flosnaði upp í félaginu. Það liggja fyrir um þetta vottorð frá stjórn Kron, og eru þau prentuð í Degi á Akureyri, og þar getur hæstv. ráðh. lesið þau. En það er að segja af þessum flokksbróður hæstv. ráðh., að þegar hann fór frá Kron, setti hann upp heildsölu til að keppa við félagið, sem hann hafði verið með í að stofna og hafði stjórnað. Ég held því, að hæstv. ráðh. ætti að tala sem minnst um samvinnumál, vegna þess að þótt ég vilji ekki fjölyrða um það hér, þá er það vitað, að hans flokkur hefur fyrst og fremst verið að reyna að eyðileggja samvinnufélagsskapinn. Er þar síðast að minnast þess, að á s.l. hausti komu þeir hér á Alþingi með till., sem voru alveg sérstaklega fjandsamlegar samvinnufélögunum. Haustið 1942 stakk þessi hæstv. ráðh. upp á því að skipta samvinnufélögunum upp líkt og Póllandi var skipt upp af sömu ástæðum. Næsta haust vildi hæstv. ráðh. taka af samvinnufélögunum völdin yfir sínum eigin vörum, og jafnframt hélt flokkurinn því fram, að þau hefðu aðallega á boðstólum óætar vörur, kommúnistar gætu ekki lifað á þeim vörum, sem hér væru framleiddar og kaupfélögin seldu. Þannig hefur þessu verið haldið áfram á hverju ári.

Að því leyti sem hæstv. ráðh. minntist á tímarit, sem ég stjórna með fleiri mönnum, þá þarf hann ekki að vera hissa á stefnu þessa rits. Þegar hæstv. ráðh. og flokkur hans gera sig bera í fjandskap við samvinnufélögin, þá þarf hann ekki að undra, þó að þau snúist til varnar í málgagni sínu. Hæstv. ráðh. veit, að ekkert fyrirtæki, hvort sem það er borgaralegt eða kommúnístiskt. vili láta drepa sig. Ég er búinn að vera nokkuð lengi ritstjóri Samvinnunnar, og það hefur gengið vel með mínum samstarfsmönnum, og í hvert skipti sem skaðsamlegar árásir hafa verið gerðar á samvinnufélagsskapinn, hefur vitanlega alltaf verið snúizt til varnar í þessu riti. Samvinnumönnum hefur líka verið ljóst, að þetta var nauðsynlegt. Þegar hæstv. ráðh. hafði í fyrsta skipti komið með sínum legátum á sambandsfund, sem var haldinn á Hólum í Hjaltadal vorið 1943, þá ákvað sambandsstjórnin að stækka Samvinnuna stórkostlega og skoraði á mig að skrifa áfram um samvinnufélögin, ekki aðeins í Samvinnuna, heldur viðar, ef því væri að skipta. Hæstv. ráðh. má vera ljóst, að ekki aðeins ég, heldur einnig mínir samstarfsmenn eru mjög fúsir til að taka upp hanzkann fyrir samvinnufélögin hvenær sem er. Og því meiri ósvífni sem hann sýnir og hans lið, því meira verða þeir húðflettir fyrir vankunnáttu sína og vanmátt til að reka fyrirtæki af þessu tagi. Því meiri sem árásir þeirra verða. því rækilegar verður sýnt og sannað, að þeir geta þar ekkert annað en verið eins og graftarbaktería í kýli.

Að því leyti sem hæstv. ráðh. talaði um misbeitingu á ríkisstyrknum til Samvinnuskólans, þá er það mála sannast, að ríkið má vera þakklátt samvinnumönnum fyrir að standa fyrir og,reka stóran skóla árum saman með 5000 króna styrk. Þeir, sem líta í gegnum gömul fjárlög, geta séð, að þegar ég, sem lengi hafði verið skólastjóri Samvinnuskólans, var ráðh. og gegndi að parti til sömu stöðu og þessi hæstv. ráðh. gegnir nú, þá fór ég ekki að eins og hæstv. ráðh., þegar hann heimtaði, að skáldastyrkurinn væri allur undir n., sem hann ræður yfir. Og hæstv. ráðh. veit, að ástæðan til þess, að Gunnar Gunnarsson var settur inn með alþingisvaldi, var sú, að Alþingi treysti ekki kommúnistaflokknum til að sýna þessum fræga rithöfundi verðugan sóma. og það eru fleiri en hann, sem þörf væri að vernda fyrir þessum mönnum, sem nú fara með féð. Ef hæstv. ráðh. getur bent á nokkurn skóla jafnstóran og samvinnuskólann, sem hafi starfað lengi og látið sér nægja 5000 kr. styrkur, þá skal ég vera honum þakklátur fyrir það. Það er alveg rétt að vera ekki frekur í fjárkröfum í þessu efni, því að bæði samvinnumenn og kaupmenn geta vel kostað sína skóla, eins og þeir hafa líka gert að mestu leyti. En af því að hæstv. ráðh. hefur komið inn á þetta mál tilefnislítið, finnst mér rétt að klykkja út með því að gera upp við hann gömul viðskipti, þar sem mér tókst á alveg ótvíræðan hátt að sanna, hvaða „móral“ hann og hans flokkur hefur gagnvart afskiptum frá erlendu valdi og fjárstyrk þaðan.

Fyrir nokkrum árum þótti grunsamlegt, hvað mikið af efni aðalblaðs kommúnista var komið beint frá Rússum. Þá var þó ekki komið eins og nú, því að nú eru þýddar greinar í blaðið frá Rússlandi, svo að það er líkast því. að það sé gefið út í Moskvu. Ég átti þá nokkurn þátt í, að rannsakað var, hvernig væri með allt þetta rússneska efni í blaðinu. Kom þá í ljós, að Rússar höfðu borgað mikið á annað hundrað þúsund krónur á stuttum tíma í þetta fyrirtæki hæstv. ráðh. Þetta verð ég að segja, að hafi verið mjög heppileg athugun. Þegar svo er komið, að einn flokkur er farinn að taka við fé frá útlendu valdi og er svo óskammfeilinn að reyna að dylja það, þá er ástæða til að koma og taka í taumana, og þá er ástæða til, að þjóðin fái að vita um það. Þessar greiðslur námu 160 þús. kr. á stuttum tíma. Það er kannske ekki talað um þetta á hverjum degi, en eftir að þessi rannsókn fór fram, þá vita allir, að þessi flokkur stendur undir erlendri stjórn og þiggur þaðan fé til starfsemi sinnar. Ég þykist vita, að hæstv. ráðh. sé ekki fyllilega ljóst, hvílík skaðsemi þetta er. Ég þykist vita, að hann sé of illa að sér í sögu landsins til að hann sjái, hvert slík starfsemi stefnir. Við þurfum ekki annað en að líta í okkar sögu. Við skulum líta til 13. aldarinnar. Þá var hér uppi mjög sterk erlend hreyfing, katólska kirkjan, sú virðulega stofnun. Hún var alþjóðastofnun, sem dró til sín vald og áhrif frá landsins eigin börnum og virti einskis lög landsins, ef svo bar undir. Afleiðingin varð sú, að Íslendingar glötuðu frelsi sínu í sjö aldir. Þessi alþjóðastofnun kom hér inn í lítið þjóðfélag og beitti hér sínum alþjóðaáhrifum til að eyðileggja stofnanir landsins sjálfs. Þetta fékk sinn lokadóm árið 1264, og Íslendingar bjuggu við afleiðingarnar í sjö aldir. Við getum litið nær, athugað, hvað gerðist hér á 16. öld, þegar lúterska stefnan var að ryðja sér til rúms. Þá urðu margir Íslendingar til að styðja konungsvaldið í Danmörku til að innleiða þessa breytingu hér. Þeir gerðu þetta í góðri trú, en hverjar voru afleiðingarnar? Konungsvaldið magnaðist svo, að landsmenn urðu að búa við rammasta einveldi og kúgun öldum saman. Þannig hefur þetta verið tvisvar sinnum hér á landi, að þegar landsmenn hafa orðið til þess að innleiða hér eða koma á alþjóðastefnum, þá hafa þeir fyrir það orðið að þjóna útlendingum um langan aldur.

Nú er komin hér til. landsins þriðja alþjóðahreyfingin, bolsevisminn, sem hefur verið öfluglega studd af innlendum mönnum. Þarf þar ekki annað en líta í blað hæstv. ráðherra til að sjá, hverra áhrifa gætir þar mest. Þar er ekki verið að tala um Jón Guðmundsson, ritstjóra Þjóðólfs, Halldór Friðriksson eða aðra mæta Íslendinga, nei, þar eru langar ritgerðir og frásagnir um Súvaroff og ýmiss konar blóðtökumenn úti í löndum. Það eru skrifaðar ævisögur slíkra manna, eins og þeir kæmu okkur sérstaklega mikið við. Þannig er öll framkoma þessa ráðh., allt síðan hann fór að taka móti fé frá útlöndum til blaðs síns og fyrirmælum um, hvað þar ætti að standa.

Nú gæti ég hugsað, að hæstv. ráðh. segði sem svo, að samvinnuhreyfingin væri einnig útlend alþjóðastefna, sem hefði verið innleidd hér. En þar er mjög ólíku saman að jafna. Kommúnisminn er útlend hreyfing undir útlendri yfirstjórn. Samvinnuhreyfingin er ekki fædd hér, en hefur orðið innlend og stendur ekki undir neinu útlendu valdi og hefur aldrei óskað eftir neinum styrk þaðan. En þegar þessir menn, sem þiggja fé og fyrirmæli frá útlendingum, hitta fyrir sér fyrirtæki eins og samvinnufélögin, sem vilja hafa Ísland fyrir Íslendinga, og vita, að þau efla þjóðmenningu Íslendinga og þjóðernistilfinningu, þá vilja þeir fyrir hvern hún eyðileggja þennan félagsskap, og er það mjög skiljanlegt frá því sjónarmiði, sem hæstv. ráðh. hefur. Hann kom upp um sig, þegar hann fór að nefna blöð og að komið gæti til mála, að bændur notuðu fé sitt til að gefa út blöð eða bækur.

Ég vil að síðustu benda á það, eins og ég hef vikið að, að sú stefna. sem þessi hæstv. ráðh. fylgir, er útlend og óþjóðleg, og hann er sjálfur þægasti og auðmýksti fylgismaður þessa útlenda valds, sem hér er að seilast til valda. Þess vegna er minnst af honum að vænta til allra þjóðlegra hluta. Í vor, þegar þjóðin var að undirskrifa frelsi sitt, hverjir voru það, sem ekki þurfti að draga í bilum til kjörstaðanna? Það voru samvinnumennirnir og sveitafólkið, sem mætti 100%, meðan verið var að draga fólkið, sem þessi hæstv. ráðh. er fulltrúi fyrir, í bílum á kjörstað í 4 daga. 4 daga þurfti til þess að tryggja það, að sá lýður, sem þessi hæstv. ráðh. hefur valið sér að vera starfsmaður fyrir, kæmist á þá staði, sem hann hefði getað komizt á á einum degi, eins og sveitafólkið. Það skiptir engu fyrir hans málstað, hvaða heimskustrik eru gerð í þessu efni. En að sama skapi má segja. að með jafngreindan mann og þann, sem situr við hlið hans, sé það óþægilegt að reyna að hafa áhrif á það, að frv. nái fram að ganga. En ég býst við því, að það verði erfitt fyrir hæstv. fjmrh. að bíta af sér þann varg, sem hann hefur við hægri hlið.