06.10.1944
Efri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (3717)

155. mál, nýbyggingarsjóður útvegsmanna

Flm. (Gísli Jónsson):

Það er gerð sú breyt. á skattal. 1941, að útgerðarmönnum er leyft að draga einn sjötta frá skattskyldum tekjum sínum til að leggja í sérstakan sjóð, sem kallaður er nýbyggingarsjóður útvegsmanna. Þessu er aftur breytt nokkuð 1942, — sérstaklega ýmis ákvæði í sambandi við þetta. En breyt. kemur enn fram í sjálfum skattal., og þar með er ákveðið, hvernig þessi sjóður skuli geymdur, og ef honum er ráðstafað öðruvísi en til skipabygginga, þá falli svo og svo mikill hluti hans til ríkisins aftur, sem þá sé reiknað eftir því, sem hefði átt að reikna skattalög það árið, sem beztur var aflinn.

Það verður ekki um það deilt, að hugir manna standa mjög til þess, að þessi sjóður eflist í landinu og hann verði eingöngu notaður til að auka fiskiflotann. Það verður ekki heldur deilt um, að það er mjög óeðlilegt, að um þennan sjóð séu ekki önnur ákvæði en ákvæðin í skattal. Það eitt út af fyrir sig að veita skattfrelsi á fé, sem lagt er í sjóðinn, er algerlega sérstakt ákvæði, en hitt er alveg jafnnauðsynlegt, að setja ákvæði um sjálfan sjóðinn, algerlega burtséð frá öllum skattal., og það er það, sem hér er ætlazt til í þessu frv.

Í ákvæðunum í skattal. um nýbyggingarsjóðstillagið er m. a. það, að sé þessu fé varið til að greiða með skuldir, þá fer svo og svo mikill hluti þess aftur til ríkissjóðs. Getur þá svo farið, ef ekki er búið öðruvísi um það fé, að allt að 90 prósent geti farið sem eyðslueyrir og aldrei byggt fyrir það skip, og hefur það aldrei verið tilgangur þeirra, sem stóðu að því að mynda slíkan sjóð.

Það, sem hér er farið fram á með þessu frv., er, að allt það fé, sem þegar er greitt inn, verði lagt í sérstakan sjóð, sem nefndur sé nýbyggingarsjóður útvegsmanna. Í staðinn fyrir að gefa viðkomandi mönnum bankakvittanir um, að þetta fé liggi á þeirra reikningi í bönkunum, þá séu gefin út nýbyggingarsjóðsbréf, sem beri fullkomlega með sér, að þetta fé sé ekki hægt að nota til annars en byggja fyrir það skip eða annað eftir fyrirmælum sjóðsins og þau verði ekki innleyst af viðkomandi bönkum til neins annars. En eftir að þessu sé þannig komið fyrir, þá geti þessi bréf gengið kaupum og sölum á milli manna eða stofnana.

Þetta gerir hvort tveggja í senn, annars vegar að tryggja fullkomlega, að féð verði aldrei notað til neins annars en endurbyggja flotann. Það er beinlínis ekki hægt að nota það, hvorki til að greiða með skuldir né sem eyðslufé. Það getur skipt um eigendur, en hinn nýi eigandi tekur á sig þær skuldbindingar, sem þessu fylgja, að nota ekki féð til neins annars en endurbyggja flotann.

Það hefur þann kost, að viðkomandi útgerðaraðili getur notfært sér eignina, ef hann þarfnast, án þess að þurfa að greiða svo og svo mikið til ríkisins. Þá er tilganginum náð, að þetta verði ekki eyðslueyrir.

Ef bréfin þurfa að ganga kaupum og sölum, getur verið, að þau seljist ekki fyrir nafnverð. Ef aðili ætti t. d. 300 þús. kr. í nýbyggingarsjóði og gert yrði fjárnám, þá gengju 90% í ríkissjóð, og yrði það ef til vil1 að eyðslueyri, og fengi hann þá aðeins 10%. Þessi möguleiki er fyrir hendi og ekki víst nema komið sé að því fyrir tveimur útgerðarmönnum að neyðast til að taka til skattgreiðslu þann hluta, sem þeir eiga í nýbyggingarsjóði. Það er ekki svo lítið fé, sem lagt hefur verið í nýbyggingarsjóð í mjög smáum upphæðum, allt niður í kr. 5000.00. Ef farið er eftir því, sem farið er fram á í þessu frv., er hægt að sameina allar þessar smáu upphæðir og nota þær til að byggja upp flotann, því að eigendur margra þeirra hafa kannske aldrei bolmagn til að auka þær svo, að hægt sé að byggja fyrir þær skip, með öðru móti.

Ég vil, að sjóðurinn greiði féð út í sömu mynt og inn í hann hefur verið greitt. Hafi verið greitt inn í pundum, skal líka greiða út í pundum, og má eigi breyta því. Þetta er gert samkvæmt reynslu, sem fékkst árið 1939–1940. Ef þá hefði legið fyrir fé í erlendri mynt, hefði verið mikil eftirspurn eftir þessum bréfum og útgerðarmönnum gert léttara fyrir að efla flotann. Þá hefðu þeir ekki þurft að sækja undir gjaldeyrisnefnd, eins og var á þeim tíma. Þá vænti ég, að margir kjósi að hafa þetta fé tiltækilegt í erlendri mynt, og er það töluverð trygging fyrir því, að gjaldeyrinum sé dreift yfir á fleiri en eitt land, heldur en að hafa allt féð í einu landi.

Það má ekki verja fénu öðruvísi en í þágu útgerðarinnar, til útgerðartækja. Hins vegar eru ákvæði um, hvað skuli teljast eðlilegt um þau. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að fénu sé aldrei varið í lakari skip en það kemur frá, t. d. fé frá togara skal ekki notað til byggingar mótorbáta. Því öruggari og betri sem skipin eru, því betri verður afkoma útgerðarinnar og atvinnureksturinn öruggari. Þetta hefur nýlega átt sér stað um eitt glæsilegasta skip íslenzka fiskiflotans, og er illt til þess að vita. Það er að hugsa niður á við og stíga niður á við. Þetta ákvæði er gert til þess, að þessi háttur sé ekki hafður á.

Ákvæði 6. gr. er sett til tryggingar því, að féð verði notað eftir því sem segir fyrir um í 5. gr., en gæta verður þess að íþyngja engum útgerðaraðila með óheppilegum skuldbindingum, og tel ég engan vanda að koma í veg fyrir, að féð sé notað til annars en það er ætlað.

Ég legg til, að stjórn sjóðsins sé skipuð 5 mönnum, en um það má semja. Ráðh. skipi þá til þriggja ára, þannig að einn sé skipaður frá hverjum eftirtalinna aðila: Landsbanka Íslands, Útvegsbanka Íslands h/f, Félagi íslenzkra botnvörpunga, Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Alþýðusambandi Íslands. Stjórn sjóðsins skal kjósa formann og skipta að öðru leyti með sér verkum. Þóknun fyrir störf hennar skal greiða úr ríkissjóði.

Tel ég, að þannig sé séð fyrir því, að þeir aðilar, sem mest eiga í húfi, hafi aðstöðu til að stjórna sínum málum.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum að svo stöddu. Ég óska, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn. Hér er ekki um skattamál að ræða, og á frv. því ekkert erindi til fjhn. Hér er um hreint sjávarútvegsmál að ræða.

Ég vil að síðustu leyfa mér að benda á, að hér er gert ráð fyrir, að einstaklingar, aðrir en útgerðarmenn, geti lagt fé í nýbyggingarsjóð. Hafa margir sjómenn margsagt, að þeir vildu gjarnan leggja fé í sjóðinn, ef tryggt væri, að fyrir það yrðu byggð skip. Hafa komið fram raddir um, að skylt væri, að fé þetta væri undanþegið skatti, en það er allt annað mál, og ber að ræða það á öðrum vettvangi. En rétt er að halda opinni þessari leið fyrir þá, sem áhuga hafa á að leggja fé í sjóðinn í þessu augnamiði. Mun ég svo ekki ræða þetta meira að sinni.