02.12.1944
Efri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (3729)

155. mál, nýbyggingarsjóður útvegsmanna

Bjarni Benediktsson:

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu að svara hv. þm. Barð.

Mér þótti nokkuð hafa skipazt veður í lofti, þar sem hann taldi sjálfsagt í fyrri ræðu sinni, að ég væri í stjórn sjóðsins, en nú er það helzt til bjargar að aflétta þeirri óhæfu, að ég komi þar nokkuð nærri. En það getur engin áhrif haft á mig, hvort ég held því litla starfi og verð í þessari n. eða ekki, og það hefur engin áhrif á mig neinn ótti yfir, að ég verði sviptur því starfi. Fyrir mér vakir eitt í þessu, og það er, að ég tel sanngjarnt og verð því eindregið fylgjandi, að útgerðarmenn fengju hlunnindi, ef þeir legðu fé til hliðar til að endurbyggja og endurnýja útgerðina. En ég er jafneindregið á móti því, ef ég sé fram á, að það er verið með löggjöf, sem geri að verkum, að það á að fara á einn eða annan veg með þá skyldu, sem hvílir á útgerðarmönnum að verja þessu fé, sem þeir hafa fengið með sérstökum hlunnindum. Það á að fara í kringum þá skyldu og gera þeim mögulegt að komast fram hjá þeirri endurbyggingu, sem þeir hafa fengið að halda fénu til, en þeir eiga eftir sem áður að halda fénu skattfrjálsu í sínum félögum. Þó að ég sé útgerðinni mjög hlynntur, ekki síður að mínu áliti en hv. þm. Barð., þá er ég eindregið á móti þessu, og ég er það ekki sízt vegna þess, að ég þykist vera vinur útgerðarinnar og vinna fyrir hennar hag. Ég er þeirrar skoðunar, að útvegurinn geti því aðeins haldizt í svipuðu formi og verið hefur í höndum einstaklinga og félaga, að þessir aðilar misbeiti ekki aðstöðu sinni í þjóðfélaginu, reyni ekki með krókabrögðum að komast framhjá bæði þeim eðlilegu skyldum, sem hvíla á ríkum mönnum til þess að verja sínu fé skynsamlega, og svo sérstaklega þeim lagaskyldum, sem þeim eru lagðar á herðar til að verja fé nýbyggingarsjóðs á skynsamlegan hátt.

Ég þykist sjá og hef ekki gert annað með ummælum mínum en að benda á það, að með þessu frv., eins og það liggur fyrir samkv. brtt. n., er skapaður mjög rúmur möguleiki fyrir þá útgerðarmenn, sem það vilja við hafa, að halda þessu fé skattfrjálsu, án þess að þeir þurfi að leggja það til nýbygginga og án þess að nokkrar líkur séu til þess, að nýbyggingarsjóður verði yfirleitt til þess að endurbyggja fiskiskip okkar til hagsbóta fyrir landsmenn. Ég segi þetta alveg sem mína skoðun án þess að vera með nokkrar aðdróttanir til hv. þm. Barð., eins og hann var með til mín. Ég tel, að þeir menn geri útgerðinni lítið gagn, sem vilja beita sér fyrir lagabreyt. í þessa átt, og ég tel, að útgerðarmenn geri sjálfum sér, stétt sinni, ekki meira tjón með öðru en ef þeir ætla með brögðum að reyna að komast undan þeirri sanngjörnu skyldu, sem á þeim hvílir, að verja fé sínu, sem þeir hafa grætt á útgerð, til að halda við útgerðinni í landinu. Þrátt fyrir þetta hef ég ekki alveg viljað fordæma það frv., sem hér liggur fyrir. Hv. þm. Barð. segir að vísu, að það sé af ótta við útgerðarmenn. Ég hef þá ekkert að óttast, ég á ekkert undir þeim á einn eða annan veg, og hvað sem þeim líður, þá held ég minni skoðun gagnvart þeim eins og öðrum alveg hræðslulaust. Sannleikurinn er sá, og á því verður hann að átta sig, að hugmynd hans er ekki að öllu leyti forkastanleg, og þess vegna hef ég léð máls á því í sjóðsstjórninni og á þingi að ræða þetta frv. og íhuga, hvort hægt sé að færa það til betri vegar.

Ég er honum sammála, að núverandi fyrirkomulag skattal. sé ekki að öllu leyti heppilegt og það leiði til þess, að féð geti farið í taprekstur, án þess að byggt sé fyrir það, og ég vil vera með í að finna leið til að koma í veg fyrir, að féð þurfi að eyðast á þann veg í taprekstur. Fljótt á litið virðist það ekki óeðlileg leið, sem hv. þm. bendir á, en á henni eru einnig annmarkar, en hv. þm. má ekki skoða það sem fjandskap við sig og enn síður við stéttina, við útgerðarmenn, þó að ég eftir því litla viti, sem ég hef á þessum málum, bendi á, hverju ég tel ábótavant í málinu, meðan ég er form. í sjóðsstjórninni, og hvað ég tel, að helzt mætti gera til bóta.

Ég sé ekki, þó að það kunni að vera rétt, að mörg frv., sem ég hef flutt hér í d., séu mér til skammar, og þó að ég stjórni bæjarfélaginu illa og þjaki útgerðina og ýmislegt fleira miður fagurt sé í mínu fari, að það sé á nokkurn hátt bót fyrir þetta frv., en það er fróðlegt og gagnlegt, sérstaklega fyrir mig, að heyra hina fögru lýsingu á mér; hinir þurfa þess síður með, því að þeir hafa sjálfsagt gert sér grein fyrir, hvílík skaðræðisskepna ég er, en þetta tel ég ekki breyta rökum þessa máls, og skal ég því leiða það hjá mér.

Aðalatriðið í ábendingum mínum er, að það er ein góð hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., en sá annmarki fylgir, að með þessu er mönnum gert hægara en ella að skjóta fé frá nýbyggingunni, án þess að tryggt sé, að féð renni til annarra nýbygginga. Ef ég ætti nú að vera með svipaðar getsakir til hans og hann var til mín, þá ætti ég að halda því fram, að þetta vekti fyrir honum, hann væri útgerðarmaður og ætlaði að koma sér hjá því að byggja ný skip, og þess vegna bæri hann þetta frv. fram til að fá peningana lausa, en mér dettur ekki í hug að væna hann um svo ískyggilegan tilgang, en þessi annmarki liggur fyrir, að útgerðarmönnum, sem vilja það við hafa, er gert auðveldara að sleppa með skattfrjálst fé frá nýbyggingunni, þó að það leggi stórar nýjar kvaðir á útgerðarmenn, sem vilja halda sig við að endurreisa útgerðina.

Að segja, að einhver n. eigi að ráða ráðstöfunum og framkvæmdum þessara manna í staðinn fyrir að þeir geri það sjálfir, það efast ég um að fái staðizt samkvæmt stjórnarlögum ríkisins. Þetta kemur ekkert til með mig, ef því fæst framgengt, sem hv. þm. Barð. taldi höfuðnauðsyn, að losna við mig úr sjóðsstjórninni, og ég tel mig alls ekki bærari heldur en syni Einars Þorgilssonar í Hafnarfirði til að segja til um, hvað skynsamlegast sé í útgerðarmálum, því að þar er um að ræða menn, sem á erfiðleikaárunum flutu alltaf og græddu oftast nokkurt fé. Ég veit ekki, hvort ég og hv. þm. eða einhverjir aðrir eru þeim hæfari til að segja, að þær ráðstafanir, sem þeir telja skynsamlegt að gera, séu beinlínis óhagkvæmar fyrir afkomu sjávarútvegsins.

Ég tel, að þessir menn hafi sýnt, að þeir kunni skil á þessu. Svipað má segja um aðra útgerðarmenn. Ég veit ekki, hvort ég og hv. þm. Barð. erum þeim nokkuð hæfari. Ég segi það a. m. k. hreinskilnislega, að hvað mig snertir skortir mig sannfæringu um, að ég hafi betra vit á þessu máli en þeir.

Ég efast ekki um, að hv. þm. Barð. hafi aðra skoðun um sjálfan sig. Hann yrði þá skipaður formaður þessarar sjóðsstjórnar!

Mér finnst sannast að segja, að hér sé um að ræða vandamál, sem þarf að leysa. Ég er með hv. þm. um það, að við ættum að geta rætt illindalaust um málið hér á þ., án þess að vera með dylgjur um illar hvatir og annað slíkt. Hjá mér býr ekki annað undir en að hér liggur fyrir frv., sem ég tel, að hafi að nokkru leyti við rök að styðjast, en leiði þó í ófærur, verði það samþ. óbreytt. Hv. þm. Barð. varð að játa það, að tvær gr. frv. verði að skilja gagnstætt orðalagi þeirra, ef hans skilningur fær staðizt.

Mín skoðun á þessu máli er óbreytt, að heppilegast væri, að n. íhugaði málið betur, og síðan yrði annaðhvort reynt að fá breytingarnar fram á þessu þ. eða, sem mér virðist heppilegra, að málinu yrði vísað til ríkisstj., svo að hún gæti á febr.þinginu lagt fram till. til úrbóta og reynt að sneiða framhjá þeim göllum, sem óneitanlega eru á frv. hv. þm. Barð.