19.01.1945
Neðri deild: 109. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (3757)

259. mál, ítala

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Sú lýsing, sem hv. þm. V.-Húnv. hefur gefið á meðferð þessara mála, er í aðalatriðum rétt. Hann gengur bara fram hjá því í þessu sambandi, að það er alveg skilyrðislaust gert ráð fyrir því í l. um ítölu, að á þessa fundi, sem um er að ræða, séu boðaðir allir ábúendur og jarðeigendur á viðkomandi svæði, og þar með allir, sem eiga þar einhvern jarðarpart. Og það er það, sem talin eru nokkur tvímæli á, hvort ekki sé hægt að hnekkja ítölumati, ef það kemur upp, að einhver jarðeigandi, sem t.d. er utan sveitar, hefur ekki verið boðaður á fund, sem fjallað hefur um málið á, viðkomandi stað. Og tilgangurinn með þeirri breyt. á l., sem þetta frv. felur í sér, er að koma í veg fyrir misfellur vegna þeirra örðugleika, sem þarna er um að ræða.