09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Við 1. umr. um þetta mál hér í hv. d. gerði hæstv. atvmrh. ýtarlega grein fyrir tildrögum frv. og efni þess. Ég tel því óþarft að fara út í það nánar, nema því aðeins að sérstakt tilefni gefist, vil aðeins nú til að byrja með víkja að niðurstöðum sjútvn. um afgreiðslu málsins. Það fór þannig, eins og sjá má af nál., að sjútvn. klofnaði um málið, og leggur minni hl. til, að frv. sé gerbreytt og fénu ráðstafað á allt annan hátt en gert var ráð fyrir. Skal ég ekki ræða það frekar. Hv. frsm. minni hl. gefst kostur að gera grein fyrir því. En fyrir niðurstöðum meiri hl. skal ég gera örstutta grein.

Það mun verða að teljast óhjákvæmilegt, að áður en Alþ. er frestað, séu gerðar ákvarðanir um það, hvernig verja skuli því fé, sem heimilað er á fjárl. síðastliðins árs að verja til styrktar nýbyggingum fiskiskipa. Í þessu frv. er, eins og hv. dm. er kunnugt, gert ráð fyrir heimild til að verja þessu fé á tvennan hátt, fyrst og fremst til þess að veita lán gegn 2. og 3. veðrétti og þó áhættulaust að miklu leyti, lán, sem eru með mun aðgengilegri kjörum en nokkur lánsstofnun veitir; auk þess sem þau verða allmiklu hærri. En það atriðið, sem ágreiningur varð um í n., er það, að í frv. er gert ráð fyrir að veita styrki af þessu fé, sem eru að nokkru leyti óendurkræfir, ef lánin ganga til reksturs fiskiskipa. Um þetta atriði gat ekki orðið samkomulag í n. Minni hl. gat ekki fallizt á, að slík heimild væri lögfest. Ég skal játa, að mér og sennilega öllum er geðfelldari hin leiðin, áhættulánsleiðin. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að hæstv. atvmrh. hafi við umr. um málið í Nd. lýst yfir því viðvíkjandi þeim skipum og bátum, sem fyrirhugað er að kaupa frá Svíþjóð, að hann muni nota þá leið, áhættuleiðina, en alls ekki styrktarákvæðið. Ég er þessu fyllilega sammála, og ég hygg, að svo sé um meiri hl. sjútvn. allan. En við getum verið vissir um, að eftir þeim umsóknum, sem komið hafa um að fá að vera þátttakendur í kaupum á þessum bátaflota, sem hugsanlegt er, að við getum fengið frá Svíþjóð, að það er svo langt frá því, að skipasmíðaþörfinni verði fullnægt með því, sem hægt er að búast við, að fáist frá Svíþjóð. Þess vegna finnst mér ekki annað fyrir hendi en hefja skipasmíðar í allstórum stíl hér innan lands.

Það er kunnugt öllum hv. þm., sem þekkja til sjávarútvegsins, að fiskiflotinn er af eðlilegum ástæðum svo úr sér genginn, að það verðúr að verja milljón ofan á milljón bæði frá einstaklingum og að einhverju leyti frá hinu opinbera til að koma honum í rétt horf og eðlilegt ástand, því að af völdum stríðsins hefur bæði fiskiskipum fækkað og við ekki haft tök á að framkvæma viðhald hans, svo að viðunanlegt væri. En við verðum að gera okkur ljóst, að ef við verðum að grípa til skipasmíða innan lands, þá verða þau skip allt að helmingi dýrari en skip þau, sem við gerum okkur vonir um að geta fengið frá Svíþjóð. Við verðum að horfast í augu við það ástand. Það má segja, að rétt væri að athuga, hvort ekki mætti leita lagfæringar á þessu á ýmsan hátt. Menn hafa heyrt raddir um, að mikið mætti bæta úr þessu með því að aflétta öllum tollum á efni til bátanna, og nokkru kann það að geta munað. Í öðru lagi hefur verið bent á, að farmgjöldin séu óeðlilega há. En ekki er rétt að horfa einvörðungu á þetta, því að við getum líka búizt við, að hráefnið, timbrið, hækki. Auk þess er vitað, að vinnulaun hér eru miklu hærri en í þeim löndum, sem við gætum haft viðskipti við, t.d. Svíþjóð. Ég er hræddur um, að erfitt verði að draga úr þeim lið og hann hljóti að verða hinn stærsti. Ég hugsa mér því, að það sé óhyggilegt að loka fyrir þennan möguleika og að rétt sé að veita beina styrki til bátasmíða hér innan lands, ef önnur sund kynnu að lokast, sem vel má búast við, að verði.

Þess vegna höfum við í meiri hl. ekki getað fallizt á að hverfa frá því, að þessi heimild væri til. Ég get vel ímyndað mér, að það sé ekki út í bláinn að ætla, að eftir stríðið verði töluvert af fólki hér á landi, sem nokkrir erfiðleikar verði á að útvega vinnu, en vafalaust verða allir sammála um, að úr því verði að leysa. Mér virðist að minnsta kosti, eins og málin horfa nú við, að jafnvel atvinnubótavinna við bátasmíðar gæti orðið arðsöm fyrir þjóðfélagið, og þess vegna tel ég mjög vafasamt að breyta þessu frv. nú þannig að útiloka þegar í byrjun þá leið að heimila að veita styrk til bátasmíða.

Ég geri ráð fyrir því, að reynslan sýni, að breyta þurfi þessum l., sem við setjum núna, eftir því viðhorfi, sem er á hverjum tíma í þessum efnum, því að það er alls ekki ólíklegt, að viðhorfið geti breytzt frá því, sem það er í dag.

Ég vil fyrir hönd meiri hl. sjútvn. mæla eindregið með því, að frv. nái fram að ganga óbreytt, sérstaklega vegna þess, að ég tel, að fái frv. ekki afgreiðslu á þessu Alþ., þá geti tafizt, að gerðar verði þær ráðstafanir, sem mega ekki undir neinum kringumstæðum dragast og framkvæma þarf nú þegar á þessu ári. Á ég þar við skipakaupin frá Svíþjóð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, og ég mun fyrir mitt leyti reyna að stilla umr. í hóf hér eftir, ef málið gæti þá fengið skjótari afgreiðslu.