08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (3776)

259. mál, ítala

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég skil ekki í því, hvaða ástæðu þetta nál. hefur gefið hv. 6. þm. Reykv. til þess að fara að rísa hér upp og tala um óviðkomandi mál, ég held, að hann hafi tækifæri, þegar þar að kemur, til þess að tala um þá hluti. Ég get ekki skilið, að hann geti séð það á nál., að það telji, að sérstakar umbætur séu gerðar á ítölul. með þessu frv., en hitt er annað mál, að ef frv. hefði átt að ganga gegnum Nd. líka, þá hefði verið munur á því að gera það, ef skammt hefði verið liðið á þingið, og taka þá upp ítölulögin til frekari athugunar og ganga betur frá þeim en gert væri með samþykkt þessarar litlu breyt., sem að litlu gagni kæmi. Væri mikill munur á því að koma með brtt., ef málinu væri ekki svona langt komið, að ekki eru eftir nema tvær umr. og þar að auki er þingtíminn næstum liðinn, svo að ekki er tími til að fara að athuga ítölulögin í heild, heldur aðeins taka þetta atriði og samþ.

En hv. þm. getur ráðlagt hvað sem honum sýnist, — hitt get ég látið hann vita, að landbn. leitar ekki ráða til hans um það, hvað henni sýnist um brtt. og hvaða brtt. hún kemur fram með hér í d. heldur en hann spyr landbn., hvaða brtt. hann kemur með sem allshn.-maður.