09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Það er ákaflega leiðinleg mynd af ábyrgðartilfinningu Alþ., að hér skuli vera að kalla auðir stólar, þegar verið er að ræða um það, hvernig ráðstafa eigi fimm millj. kr., og þegar verið er að skapa ákveðna reglu, sem verður til fordæmis síðar meir. Nál. minni hl. hefur nú verið útbýtt á þessum fundi, en ég er ekki viss um, að allir hv. dm. hafi gefið sér tíma til að kynna sér nál. eða haft ástæður til þess og þær miklu breyt., sem þar er farið fram á. Ég vil því beina því til hæstv. forseta, hvort honum finnist ekki ástæða til að fresta umr. um þetta mál, þar til hv. alþm. hafa kynnt sér málið og þar til þeir geta borið ábyrgð á því, hvernig Alþ. ver fimm millj. kr. úr ríkissjóði. Á þessu getur oltið mikið um framtíð aðalatvinnuvegs Íslendinga, sjávarútvegsins, og finnst mér að þm. ættu að kynna sér þau rök, sem færð eru með og móti þessu máli. En hér virðist alveg gengið fram hjá því, og ef slík hefur verið meðferð málsins í Nd., þá getur þetta ekki leitt til blessunar fyrir þjóðina. Jafnvel hæstv. atvmrh. sér ekki ástæðu til þess að vera við og taka þátt í umr. eða segja álit sitt á þeim brtt., sem fram eru komnar. Ég vildi láta þetta koma fram nú í upphafi, því að ég tel ekki þýðingarlaust að koma hér með nokkrar athugasemdir, áður en málið er afgr. í þessari hv. d. Ég vil einnig leyfa mér áð benda á, að í öllum þeim n., sem hafa haft mál þetta til meðferðar, hefur ekki verið samkomulag um málið á neinn veg. Mér þykir því athyglisvert um mál eins og þetta, að það eigi þó að hraða því svo, að ekki sé tími til að brjóta það til mergjar og reyna að skapa um það samkomulag, sem ég álít, að hægt sé, ef menn vilja leggja sig fram til þess að leita að samkomulagsleiðum. Ég er ekki sammála hv. 1. þm. S.-M. um, að svo aðkallandi sé að afgreiða þetta mál nú á þessu Alþ., að ekki sé betra að fresta því, ef það fengist á því betri afgreiðsla á næsta Alþ.

Mþn. í sjávarútvegsmálum gat ekki orðið sammála um málið. Tveir af nm. vilja veita allt þetta fé sem styrk, en aðrir tveir vilja veita það allt sem lán. Loks virðist hv. 5. landsk. ekki enn hafa gert það upp við sig, hvort hann vill heldur fallast á styrkja- eða lánaleiðina, a.m.k. kom það ekki skýrt fram í n., en svo virðist, að í Nd. hafi það helzt verið afstaða hans til málsins, að atvmrh. mætti valsa og galsa með þetta fé eins og honum sýndist. Nú er það vitanlegt, að það má ekki undir neinum kringumstæðum gera það að aðalatriði þessa máls, hvort einn ráðh. fái leyfi til að úthluta fénu eða ekki, heldur hitt, hvort viturlegt er að nota það á þennan hátt eða einhvern annan. En það verður ekki séð, að þetta hafi vakað fyrir hv. þm. í Nd.

Það, sem vekur sérstaka athygli, er, að sá fulltrúi í mþn., sem kjörinn er af sjómönnum sjálfum eða a.m.k. af fulltrúum þeirra, sem valinn var eftir óskum frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, — þótt það væri að vísu Sjálfstfl., sem valdi manninn, þá var það þó gert eftir ósk frá þessu félagi, — að hann hefur eindregið lagt til, að fé þetta verði ekki notað sem styrkur. Þessi maður hefur sérstaklega haft samband við fiskimennina sjálfa um þetta atriði, og ég fullyrði, að hann hefur haft ástæðu til þess að vera sjálfstæðari í skoðun á þessu máli en hinir nm., sem bundnir eru einhverjum persónulegum böndum eða flokksböndum með skoðun sína í þessu máli. Þess vegna legg ég mjög mikið upp úr því, hvaða till. þessi maður leggur til þessa máls.

Það er hins vegar ekki rétt, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að aðalágreiningurinn hefði verið um það, hvort veita ætti þetta fé sem styrk eða sem lán. Aðalágreiningurinn í n. var fyrst og fremst um það, hvort veita ætti þetta fé í lánadeild Fiskveiðasjóðs nú á þessu fyrsta stigi málsins og veita það aftur þaðan sem styrki eða lán. En andstaða hv. 1. þm. S.-M. var svo föst þegar á fyrsta stígi málsins, að hann þvertók fyrir að veita þessa upphæð í Fiskveiðasjóð til þess að veitast þaðan aftur sem styrkur eða lán. Hann vildi ekki og ekki heldur 9. landsk., að fé þetta rynni til Fiskveiðasjóðsins yfirleitt. Þegar búið var að gera út um þetta í sjútvn., þá kom það aldrei til greina, hve mikið af þessu fé skyldi veitt sem styrkur og hve mikið sem lán. Þetta veit hv. 1. þm. S.-M., að er rétt, og mig undrar þetta, af því að hann barðist fyrir því á síðasta Alþ., að slíkri upphæð yrði varið til Fiskveiðasjóðs, langmest til þess að lána út aftur.

Það varð samkomulag á Alþ. um það mál, að 2 millj. kr. skyldu settar í deild, sem sérstaklega var stofnuð við Fiskveiðasjóðinn, til þess síðar að veita styrk úr þeirri deild, en 1/3 af útflutningsgjaldinu skyldi um aldur og ævi verja í lánadeild þessa sama sjóðs, og skyldi fé þetta veitt á svipaðan hátt og nú er gert ráð fyrir, að fé þessu verði ráðstafað, nema hvað það er nú lagt í vald ráðh. Þess vegna fannst okkur, sem viljum fara lánaleiðina, að ekki væri ástæða til að stofna sérstakan annan fiskveiðasjóð til þess að gegna sama hlutverki og Fiskveiðasjóður Íslands eða réttara sagt lánadeild hans gegnir nú. Um þetta urðu aðalátökin í sjútvn., en ekki hitt, hvort veita ætti fé þetta sem styrk eða lán. Um hitt varð nokkur ágreiningur í n., en þó ekki mikill, hvort það væri Alþ., sem ætti að ákveða, að hve miklu leyti þessu fé skyldi varið sem styrkjum og að hve miklu leyti sem lánum. Að sjálfsögðu höfðu verið möguleikar til að ræða þetta í n. og ef til vill getað náðst samkomulag um málið þar. En það fékkst enginn samkomulagsgrundvöllur þar, vegna þess að meiri hl. í n. hélt því fast fram að samþykkja frv. óbreytt, svo að atvmrh. gæti farið með þetta fé eins og honum sýndist á hverjum tíma. Þetta gat minni hl. ekki beygt sig undir, og hann telur það engan sóma fyrir Alþ. að fara inn á þá braut.

Ég held, þótt þetta frv. nái ekki fram að ganga á þessu Alþ., að veitt sé heimild í fjárl. til að verja þessu fé til skipakaupa á þessu ári án nokkurrar frekari heimildar, og það hefur líka vakað fyrir hv. Alþ., þegar þetta fé var veitt til skipakaupa, að ríkisstj. hefði heimild til að kaupa ný skip inn í landið fyrir alla þessa upphæð. Ég hygg, að ekki þurfi að setja nein sérstök lagafyrirmæli, til þess að ríkisstj. geti gert slíka ráðstöfun, og þess vegna er ekki þörf nú á þessu Alþ. að setja frekari reglur um þetta atriði. En hitt er aftur eðlilegt, að áður en ríkisstj. selur þau skip, þá komi menn sér saman um einhverjar reglur, hvort heldur skuli selja skipin fyrir sama verð og fyrir þau var gefið eða lægra. Þetta eru atriði, sem setja mætti um reglur síðar og þarf ekki að hamla þeim framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir að gera nú þegar.

Ég sé því ekki ástæðu til, að þetta mál verði afgr. nú á þessu Alþ. eða að það þyrfti neitt að tefja þær framkvæmdir, sem gera þarf í þessu máli, þótt afgreiðslu þess yrði frestað. Ég viðurkenni, að ég sem form. sjútvn. þessarar d. hefði getað notað þetta vald í n. til þess að leita umsagnar Fiskifélags Íslands, stéttarfélaga og annarra stofnana, sem hagsmuna eiga hér að gæta, en ég vildi ekki sem minni hl. í n. beita því valdi, sem ég hafði til að gera þetta, þótt ég hins vegar hefði getað gert það. En þá ber líka meiri hl., sem óskar, að þetta mál fái framgang, og vill ljúka því nú, ábyrgð á þeirri stefnu, sem tekin er í þessu máli.

Minni hl. leggur til, að á þessu stigi málsins verði ekki gert annað en það að breyta þessu í það horf, að allt féð verði veitt í Fiskveiðasjóð og síðan megi nota það samkv. ákvæðum l. nr. 34, 6. gr., a-liðar, frá síðasta Alþ. Ég verð að líta svo á, að ríkisstj. geti framkvæmt kaupin, eftir því sem henni þóknast, þegar Alþ. er búið að ráðstafa fénu þannig. Eftir till. Fiskifélags Íslands og annarra aðila getur ríkisstj. svo tryggt sér kaupendur að skipunum. Það má selja þau til þeirra aðila, sem óska að kaupa þau, með þeim lánskjörum, sem Fiskveiðasjóður má lána út á.

Ég er ekki sammála hv. 1. þm. S.-M., að hér sé ekki um styrk að ræða. Með þessu móti mætti lána allt að 85% af byggingarkostnaði skipanna. Ég tel, að þetta sé svo mikill styrkur fyrir menn, að vafasamt sé að ýta undir menn með að fara út í skipakaup, ef þeir geta ekki staðið undir 15% af andvirði skipanna. Breytist tímarnir svo, að enn meira þurfi að styrkja þessa menn, þá er heimilt að veita 3. veðréttar lán afborgunarlaust í fimm ár og vaxtalaust í tíu ár. Ég get ekki fallizt á, að hér sé ekki um stórkostlegan styrk að ræða. Hins vegar tel ég þá stefnu fjarstæðu að fara að mynda hér hreinan og beinan kreppulánasjóð fyrir sjávarútveginn á þeim árum, sem hann er aðalauðlind ríkissjóðs. Slíkt nær vitanlega ekki nokkurri átt. Ég veit ekki, hvar menn hugsa sér að taka tekjur í ríkissjóð, ef þessi skip geta ekki staðið undir þessum lánskjörum. Það þýðir þá að minnsta kosti ekki að hugsa sér að taka þær af sjávarútveginum, því að færi svo, væri hann stórkostleg byrði fyrir landið, en ekki hið berandi afl í landinu, eins og hann er núna.

Mig undrar mjög mikið, að hv. 1. þm. S.-M., sem barðist með þessari stefnu minni á síðasta Alþ., skuli nú ekki hafa þor eða skap í sér til að fylgja sannfæringu sinni, sem ég veit, að er óbreytt frá því, sem þá var.

Ég sé ekki ástæðu til að fara miklu nánar út í einstök atriði þessa máls. Ég hef lýst afstöðu minni hl. til þess, en ég vil aðeins að lokum taka það fram, að ég mun bera fram brtt. við frv. síðar, ef till. minni hl, verða felldar við þessa umr., og þá einkum og sér í lagi við 12. gr. þess, því að vitanlega er það engan veginn þinglegt að samþ., lagabreyt. á öðrum l. við lagagr. í þessu frv. Ég tel enga heimild yfirleitt fyrir því að fara svo með þetta mál að stórspilla með því l. um Fiskveiðasjóð, en þeirri löggjöf er stórspillt með 12. gr. þessara l. Ef endilega á að spilla löggjöfinni á þennan hátt, þá væri eðlilegra að bera fram beina brtt. við það frv., en ekki að klína þessu hér við annað mál þessu óskylt. Ég vil í þessu sambandi minna. á, að ráðun. hefur gefið út reglugerð við 1. nr. 34 frá síðasta Alþ., og tel ég 10. gr. þessarar reglugerðar langt frá því að hafa stoð í þeim l., sem þar um ræðir. Finnst mér, að ráðun. ætti að endurskoða og breyta þeirri reglugerð.

Ég mun svo gera frekari grein fyrir þeim brtt., sem ég kann að flytja, við 3. umr. málsins, ef svo fer móti von minni, að till. minni hl. verða felldar, en ég tel, að þær komi þessu stórmáli í viðunandi horf, svo að það verði Alþ. ekki til vansa.