08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (3782)

259. mál, ítala

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það var aðeins út af því, sem hv. þm. Barð. sagði um það, hver breyt. mundi verða við samþykkt frv.

Ég get ekki betur séð en jarðeigendur, sem búa í sveit, verði alltaf kallaðir á fund með búendum hreppsins. Annars hefur praktiskt verið þannig á þetta litið, að það væru kallaðir fleiri en þeir, sem væru innan hreppsins, — það þyrfti að kalla húseigendur líka. Það verður að telja, að það sé nokkur hægðarauki fyrir þá, sem kalla saman fundi, að þurfa ekki að fara út fyrir hreppinn, og praktiskt hefur það verið þannig.

Það þarf vonandi ekki að skýra það fyrir hv. 6. þm. Reykv., að grg. frv. verður' ekki að l., og það kemur ekkert sjálfu frv. við, hvað er í grg., hvort hún er stíluð í fyrstu persónu o.s.frv. En ég vil segja það á móti því, að Ed. hefði ekki flutt frv., ef það hefði ekki verið búið að vera í Nd., að ef frv. hefði komið fyrr fram, þá hefði það verið athugað betur af landbn. Nú er komið að þinglausnum, og er því ekki tími til mikilla athugana, og sýnist tilgangslaust að fara að hrekja frv. aftur til Nd. En það má skeika að sköpuðu, hvort frv. verður samþ. eða fellt, en ég mun greiða því atkv., af því að ég tel það heldur til bóta.