14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (3785)

174. mál, jarðræktarlög

Frsm. 2. minni hl. (Páll Hermannsson):

Í nál. á þskj. 673 hef ég í rauninni tekið fram það, sem ég tel þurfa að segja um þetta mál. Benda vil ég á, að lesa ber í nál.: „með 21 shlj. atkv.“, en ekki „23“, eins og þar stendur, og er um pennavillu að ræða, en rétta talan aftur neðar á sömu bls.

Ég hef orðið sannfærður um það, að 17. gr. jarðræktarl. nái ekki tilgangi sínum nú. Ég ætla, að stríðið með verðbólgu sinni eða ígerð hafi farið með síðustu vonir um það. Þess vegna þarf að setja önnur ákvæði í staðinn og athuga málið á víðara grundvelli en gert er í frv. Þess vegna finnst mér skylt að bíða uppástungna búnaðarþings áður en þessi gr. er felld niður. Treysti ég á, að það afgreiði málið í búnaðarþingi því, sem saman kemur eftir áramótin, og þar sem n. þessi er einmitt að vinna að málinu, tel ég óverjandi að afgreiða það fyrr héðan vegna svo stuttrar biðar, sem á áliti þess ætti að verða. Óhjákvæmilegt er að íhuga þessi efni vandlega í sambandi við l. um endurbyggingarstyrki sveitabæja og nýbýlalög o. fl. Með þetta í huga hef ég borið fram hina rökst. dagskrá. Verði hún ekki samþ., mun ég greiða atkv. gegn frv.