09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég skal ekki vera langorður, en tel þó, að ég verði að gera nokkrar athugasemdir.

Í fyrsta lagi er mér það ekki ljóst, hvað hv. frsm. minni hl. á við, þegar hann slær því föstu, að um þetta mál hafi ekkert samkomulag fengizt innan Alþ. Þetta mál hefur fengið sömu afgreiðslu í Nd. og öll önnur mál, og ég held, að það hafi verið afgr. sammála til Ed.

Mér skildist einnig á ræðu þessa sama hv. þm., að hann teldi, að sú brtt., sem minni hl. sjútvn. flytur, væri að hans dómi meira í samræmi við óskir og vilja Alþ. heldur en frv. eins og það var lagt fram í Nd. og er nú til 2. umr. í þessari hv. d. Hann virðist sem sé hafa þann skilning, að það hafi verið ætlun hv. Alþ., að fé það, sem um getur í 22. gr. núgildandi fjárl., færi til Fiskveiðasjóðs og annað ekki ráðlegt með það að gera. Ég benti á það við 1. umr., að ef þetta hefði verið vilji Alþ. í des., þegar fjárl. voru sett, þá mundi það hafa komið fram. En svo er ákveðið, að fé þessu skuli verja samkv. þeim reglum, er Alþ. setur. Ef það er vilji Alþ., að fé þetta renni í Fiskveiðasjóð, þá getur Alþ. ákveðið það. Í öðru lagi kom enginn hv. þm. í mþn. í sjávarútvegsmálum fram með þá till., að fé þetta skyldi renna í Fiskveiðasjóð, enda þótt þar yrði ekki samkomulag um þær reglur, sem um fé þetta skyldu gilda. Ég tek þetta fram af því, að það virðist ekki hafa komið fram þessi andi, fyrr en hv. þm. Barð. tók að tala um þessi mál.

Viðkomandi því, sem l. þm. S.-M., frsm. meiri hl., tók fram um það, hvað ég hefði sagt í Nd., þá tel ég rétt, að ég lýsi yfir, að verðlag á þessum skipum, sem nú eru líkur til, að við getum fengið í Svíþjóð, verður lágt samanborið við verðlag það, er verið hefur nú um stund hér á Íslandi. Ég tel því ekki ástæðu til að verja fé í beina styrki til kaupa á þeim skipum og mundi þar af leiðandi, að svo miklu leyti sem ég kynni að hafa með málið að gera, verða á móti því, að svo yrði gert, ef verðlag þeirra fæst á svipaðan hatt og nú er búizt við. Hins vegar tók ég það fram, að vegna öryggisreglna um siglingar yrði vart hægt að gera ráð fyrir því að sigla minni skipum en 30 rúmlesta frá Svíþjóð til Íslands og því yrði að búast við, að allir þeir, sem vildu og þyrftu að eignast minni skip en 30 smálesta, — t.d. 10, 15 eða 20 smálesta báta, sem eru hentugastir í allmörgum verstöðvum á þessu landi, — yrðu væntanlega fyrst um sinn að sæta því verði, sem er á bátum smíðuðum hér á landi. Og þá gæti komið til mála, til þess að þeir, sem þá keyptu, væru ekki miklu verr settir en menn í hinum verstöðvunum, sem fengju skip frá Svíþjóð, — að veittir yrðu styrkir til smíði skipa innan lands. Þetta var ástæðan til þess, að ég sem atvmrh. hafði valið að leggja frv. fram eins og það er, að hafa hvora tveggja leiðina opna, um lán og beina styrki.

Ég lýsti því einnig í hv. Nd., að ég gerði það persónulega ekki að neinu kappsmáli, hvort það væri nefnd eða atvmrh., sem ætti að hafa úrskurðarvald í þessum málum, og að það væri að sjálfsögðu á valdi Alþ.; hvað það vildi gera í því efni. En viðkomandi því atriði, að það sé nú orðið mikill tími til að gerbreyta frv., þá vil ég fyrir mitt leyti lýsa yfir, að ég lít svo á, að það sé alveg nauðsynlegt, áður en þingseta hættir nú, að þetta mál fái einhverja afgreiðslu, því að ég er algerlega ósammála þeirri skoðun, sem kom fram hjá hv. þm. Barð., þar sem hann sagði, að vafalaust mætti kaupa skip nú fyrir þessa fjárhæð, án þess að nokkur samþykkt Alþ. kæmi til. Ákvæði í 22. gr. fjárl. segir, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 5 millj. kr. til smíði fiskiskipa samkv. reglum, sem Alþ. setur. Þetta orðalag virðist mér alveg skýrt, og ég verð að lýsa yfir, að ég teldi mér ekki fært, fyrr en Alþ. setur þessar reglur, að ráðstafa þessu fé. Ég tel, að það verði ekki hægt að nota þessa fjárupphæð til hjálpar eða styrktar eða hvatningar mönnum um kaup á þessum sænsku skipum, nema Alþ. setji reglur um það áður.

Um hitt atriðið, að kaupa skip fyrir þessa upphæð frá Svíþjóð, er það að segja, að það yrði ekki mikil framkvæmd, því að mér virðist, að það, sem kaupa mætti fyrir þessa upphæð eina, væru 10 eða 15 eða í mesta lagi 20 skip. Nú eru komnar til ráðun. yfir 250 óskir um skipakaup í Svíþjóð. Má búast við, að einhverjar af þeim pöntunum gangi úr, þegar farið verður að ganga eftir upplýsingum um. ýmislegt, sem þessu viðkemur. En þessi tala bendir þó til, að mikill áhugi sé á því að geta komið til greina um kaup á sænskum skipum. Við höfum þegar fengið leyfi um 45 skip til innflutnings hjá stjórn Svíþjóðar og höfum sótt um að fá þá tölu hækkaða verulega. Og án þess að svar sé endanlegt komið um það, þá geri ég mér vonir um, að tala skipanna fáist hækkuð töluvert.

Með tilliti til þess, sem ég hef sagt, vil ég eindregið mæla með því, að þessi hv. d. afgreiði þetta mál á einhvern þann hátt, að svo gæti orðið, að áður en hv. alþm. hverfa heim frá þingsetu nú, hafi Alþ. sett reglur um meðferð fjárins, sem ætlað er á fjári. yfirstandandi árs til stuðnings nýbyggingar fiskiskipa, svo að hægt verði að nota það.