09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. var hér ekki við, þegar ég hóf mál mitt. Ég lagði þá áherzlu á, að ekkert samkomulag hefði orðið í mþn., sem fjallaði um þetta mál. En mér er fullljóst, að í hv. Nd. var samkomulag um að afgreiða málið á þann hátt, sem það var sent til þessarar hv. deildar, þrátt fyrir það, að ekkert heildarsamkomulag næðist um það í sjútvn. Nd. Og mþn. var þríklofin í málinu, eins og ég hef áður skýrt frá, svo að ekkert samkomulag er um þetta mál, þótt það hins vegar hafi fengið þinglega afgreiðslu. Þetta veit ég, að hæstv. atvmrh. viðurkennir.

Hæstv. atvmrh. segir, að sá skilningur hafi ekki komið fram hjá Alþ. fyrr en nú, að þetta fé hafi átt að fara í Fiskveiðasjóð. Það er rétt. Það var ekki farið að ræða það út af fyrir sig, hvaða reglur ætti að setja um þetta. En þegar ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að taka upp í meginatriðum neinar aðrar reglur um úthlutun á þessu fé en þær, sem settar voru í fyrra um það fé, sem þá var látið ganga til lánadeildar Fiskveiðasjóðs, tel ég það ekkert óeðlilegt eða neina goðgá, þó að um það komi fram till. að láta féð ganga þá leið, þar sem það gerir sama gagn með minni kostnaði og það gerir, þótt frv. það, sem nú liggur hér fyrir, verði að lögum. Ég sé engin skynsamleg rök fyrir því, né heldur hafa þau komið fram, hvorki frá hæstv. atvmrh. né frá meiri hl. Alþ., að rétt sé að stofna sérstakan sjóð til þess að hafa með höndum nákvæmlega sama verkefni og vinna það að kalla nákvæmlega eftir sömu reglum og þeim, er settar hafa verið lánadeild Fiskveiðasjóðsins. Auk þess er það ódýrast að reka lánastarfsemina á þessu fé í einni og sömu stofnun, úr því að lánastarfsemin er byggð að heita má á nákvæmlega sams konar reglum. Þess vegna er það, að fram hefur komið till. frá minni hl. um að láta þetta fé, sem hér er um að ræða, ganga til lánadeildar Fiskveiðasjóðsins.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. segir, að þessar 5 millj. kr. muni ekki duga til að kaupa nema svo sem 10 skip eða milli 10 og 20 skip, eftir stærð þeirra og dýrleika, þá vildi ég fá upplýst eftirfarandi: Hvernig er það hugsað af hæstv. ríkisstj., þegar hún hefur fengið heimild samkv. þessum l., ef frv. verður samþ., til þess að styrkja þessa menn og þá um leið, geri ég ráð fyrir, heimild til að gera alveg jákvæðar ráðstafanir til að kaupa skip frá Svíþjóð, sem mér skilst, að eigi að kaupa, ef frv. verður að l., að tryggja allt það, sem á vantar frá sérhverjum aðila, þegar lán eða styrkur hefur verið veittur af því fé, sem hér um ræðir? Er það hugsað þannig, að þessir menn, sem bátana fá keypta eða vilja kaupa, leggi fram fulla tryggingu fyrir því, að þeir hafi allt það fé, sem á vantar fyrir þessi skip, þegar þau koma? Eða hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér að kaupa skip fyrir þessar 5 millj. kr. að viðbættum þeim hluta kaupverðs, sem kaupendur skipa geta venjulega fengið lánað í Fiskveiðasjóði, og því fé, sem þeir geta lagt fram sjálfir? Eða ætlar stj. sér aðeins að kaupa skip fyrir þessar 5 millj. kr., — og til þess tel ég hæstv. ríkisstj. hafa heimild samkv. fjárveitingu á fjárl., — og selja þau svo aftur til landsmanna eftir þeim reglum, sem Alþ. á sínum tíma samþykkir? Ef sú leið er valin, og hún er raunverulega sú eina, sem fær er, eins og málið stendur í dag, þá hrökkva þessar 5 millj. skammt til, og þá er ekki alveg víst, að málið sé leyst, þrátt fyrir það að við eigum kost á að fá þessi 45 skip í Svíþjóð, sem mér skilst, eftir upplýsingum hæstv. atvmrh., að ríkisstj. eigi kost á. Ég er ekki viss um, að hæstv. ríkisstj. sé örugg um það, að allir þeir menn, sem beðið hafa um skip frá Svíþjóð, hafi 75% af kaupverðsupphæð skipanna í handbæru fé, þegar ríkisstj. þarf á því að halda til þess að greiða skipin út. Og eins og málum er komið nú, sé ég ekki annað en það sé óhjákvæmilegt, ef þessi brtt. verður felld, að koma með brtt. um að fyrirskipa ríkisstj. að kaupa skip fyrir þessar 5 millj. kr. og selja þau síðan til landsmanna með þeim lánakjörum, sem fáanleg eru hjá Fiskveiðasjóði Íslands að viðbættum þeim styrkjum, sem frv. þetta heimilar, og nota síðan það fé, sem þannig kemur inn, til áframhaldandi skipakaupa á sama grundvelli, þar til styrkjaupphæðin er notuð að fullu. Ef fara á inn á þá leið, að þeir, sem vilja fá skipin keypt, annaðhvort allur sá hópur eða einhver hluti hans, setji fram tryggingu fyrir því, að kaupendur, hver um sig, geti greitt 75% kaupverðsins, þegar skipin koma til landsins, þá verður aldrei neitt skip keypt. Enginn veit, hvað stríðið kann að standa lengi. Og ef maður ætlar að kaupa t.d. eitt af þessum skipum, sem fást frá Svíþjóð, fyrir segjum 300 þús. kr., þá er það ekki lítil áhætta, ef hann á að tryggja 75% þess verðs alllöngu fyrir fram, leggja t.d. féð inn í peningastofnun, þar sem ríkissjóður getur gengið að því. Ég efast um, að margir geti gert það eða vilji gera það, því að það eru ekki margir milljónamæringar eða stóreignamenn á listanum yfir þá menn, sem bíða eftir svari um, hvort þeir geti fengið keypt eitthvað af þessum skipum.

Ég tek það aftur fram, að ég tel, að ríkisstj. þurfi ekki frekari heimild í l. til þess að nota þetta fé, sem hér er um að ræða, til kaupa á skipum og að fyrir þær ástæður sé ekki heldur þörf á að flýta málinu, sem hér liggur fyrir, á þeim hluta þings, sem nú stendur yfir, heldur sé miklu eðlilegra og skynsamlegra að athuga þessi mál öll mjög gaumgæfilega og finna síðan þær niðurstöður, sem meira samkomulag gæti orðið um í þinginu en sjáanlegt er, að verður um þetta mál á því stigi, sem það er á nú.