31.01.1945
Neðri deild: 116. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (3801)

264. mál, húsaleiga

Jörundur Brynjólfsson:

Eins og frv. þetta ber með sér, þá er það flutt af allshn. þessarar hv. d. með því fororði. að nm. séu óbundnir aðilar um flutning þess og hafi óbundnar hendur um að greiða atkv. með brtt., er fram kunna að koma. Ég tók það fram þegar í byrjun af minni hálfu, að mér lægi í léttu rúmi, hvort þetta mál væri flutt hér í d. eða ekki í þessum búningi. og ég hefði alveg óbundnar hendur um það, hvort ég í nokkru mundi vera með málinu. Nú get ég að vísu lýst því yfir af minni hálfu, að hugsað gæti ég mér að fylgja málinu í gegnum þingið, ef því yrði breytt eitthvað í það horf, sem brtt. hv. þm. A.-Sk. hljóðar um.

Það, sem veldur því, að ég get ekki fallizt á þetta mál, eins og það er nú, er fyrst og fremst það, að ég kann ekki við að ríkinu einu sé veittur ríkari réttur en einstaklingarnir hafa í þessu efni. Einstaklingarnir hafa ekkert vald á húsnæði nema að mjög takmörkuðu leyti, og það er ekki undir þeirra eigin geðþótta komið eða áliti þeirra sjálfra, ekki einu sinni, þó að þeir hafi ríka nauðsyn fyrir húsnæðið sjálfir, annaðhvort til íbúðar eða þá til atvinnu sinnar, heldur fer það að miklu leyti eftir dómi þar til lögboðinna manna.

Eftir þessu frv. getur ríkið losað húsnæði, þó að íbúðarhúsnæði sé, ef það þarf á því að halda, annaðhvort til sinnar starfsemi fyrir skrifstofu eða eitthvað þess háttar eða þá fyrir embættismannabústað. Nú get ég vel skilið. að ríkið kunni að þurfa að fá til umráða slík hús, sem það á, en mér finnst, að þá sé ekki unnt að ganga lengra í þessum ívilnunum en að ríkið verði þá að sjá þeim mönnum fyrir viðunandi húsnæði, sem kunna að hafa það til notkunar nú, og sérstaklega ef húsnæðið er að einhverju leyti notað til íbúðar. En jafnvel þótt það væri að einhverju leyti notað til annarra hluta, svo sem atvinnurekstrar eða þess háttar, finnst mér tæpast viðunandi. að ríkið fái þarna ríkari rétt en þegnum þjóðfélagsins er áskapað með lögum.

Það mun nú vera sérstakt hús, sem haft er í hyggju, eftir því sem mér er tjáð, og er þess valdandi, að þetta frv. er flutt. Mér er sagt, að þetta muni aðallega vera sakir þess, að hæstv. ríkisstj. telji sig þurfa að halda á húsnæðinu Gimli hér í bænum. Það hús er notað fyrir mötuneyti og er leigt þar af nokkrum mönnum. (ÞG: Framsóknarmönnum.) Framsóknarmönnum, stingur hv. 2. landsk. inn í. Þótt svo væri, þurfa þeir nú að borða, og enn er ekki komið svo, þó að einhverjir hafi tilhneigingu til þess, að þeir séu sviptir þegnréttindum. Það er ekki enn komið svo, þó að það sé kannske í uppsiglingu eða einhverjir hafi kannske hneigð til þess, — það er líklega rétt að orða það svo. Hvað þetta innskot áhrærir, get ég upplýst þennan hv. þm. um, að það kennir margra grasa í þessu mötuneyti hvað pólitískar skoðanir áhrærir. Eitthvað kann að vera af framsóknarmönnum, en hinir 3 landsmálaflokkarnir eru þar líka, því að ég veit þau deili á þeim félagsskap, sem þar er, og hefur aldrei verið neitt um það sakazt. En svo er það líka notað til íbúðar, og ég kann ekki við, að sú kona, sem leigir þarna húsnæði. ekkja mesta sæmdarmanns, sem gegndi um langa og góða stund trúlega og með hinni mestu sæmd starfi sínu í þágu þjóðfélagsins. sé borin út á götuna, þó að ríkið kunni að þurfa á því húsnæði að halda, sem hún býr í, og mun ég ekki greiða atkv. með því. Öðru máli gegnir þó að nokkru um hinn félagsskapinn, þó að mér finnist að vísu, að hann eigi að hafa sömu réttindi og aðrir þegnar þjóðfélagsins hér í þessu landi.

En svo eru fleiri ástæður, sem eru þess valdandi líka, að ég tel þetta hæpna ráðstöfun, a.m.k. í því skyni að taka húsnæðið til íbúðar, þótt fyrir embættismenn sé og ég geti fullkomlega viðurkennt, að það muni vera þörf á því. Þá er það fyrst, að ástand hússins mun vera svo, að það þarf allrækilega viðgerð, ef það á allt að geta heitið nothæft til íbúðar, og það mun kosta mikið fé. Ég hef átt tal við byggingafróðan mann, sem veit deili á húsinu, og telur hann, að viðgerð á því geti ekki farið fram nema fyrir mikla peningaupphæð.

Byggingar ríkisins, sem standa á lóðinni frá Bókhlöðustíg að Arnarhólstúni, eru orðnar gamlar og úreltar, og er ekki ráðlegt að leggja í kostnað við að gera mikið við þær, því að þær verða á sínum tíma rifnar og aðrar byggingar, stórar og veglegar, byggðar í þeirra stað. Til þess ber að taka tillit.

Þetta eru þær höfuðástæður, sem eru þess valdandi, að ég get ekki verið með málinu.

Þótt till. hv. þm. A.-Sk. verði samþykkt, ætti ríkisstj. að athuga, að ekki er ráðlegt að leggja mikla fjárhæð í þessi hús. Það er mjög aðkallandi, að reist verði þarna ný og vegleg hús til afnota fyrir ríkið.