31.01.1945
Neðri deild: 116. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (3804)

264. mál, húsaleiga

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Þetta frv. er flutt að tilhlutun ríkisstj.

Grg. þess segir ekki mikið um málið, og við 1. umr. var það ekki mikið skýrt. Er því nokkur ástæða til að fara um það nokkrum orðum. Þess er getið í grg., að leitað hafi verið eftir, að húsnæðið yrði rýmt, en sú eftirleitun hafi ekki borið árangur og dómur hefði fallið í málinu.

Það er fullyrt í grg., að ef frv. yrði samþ., væru aðeins lítilvægir hagsmunir fyrir borð bornir, og virðist þetta benda til, að frv. eigi að ná til ákveðinna framkvæmda.

Mér hefði þótt ástæða til að koma með fyrirspurn til hæstv. stj., ef ekki hefði komið skýring á því atriði frá hv. 1. þm. Árn. Hann kom með þá útskýringu, að það væri aðeins eitt húsnæði, sem á að losa, en það er Gimli. Með þessu er málið komið inn á þrengra svið og hægt að tala þannig um það. Það er tekið fram, að með þessu væru aðeins lítilvægir hagsmunir einstaklinga fyrir borð bornir. Ef svo er, getur sannarlega ekki verið um stórvægilega hagsmuni að ræða fyrir ríkið.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að með frv. þessu væri farið fram á, að ríkinu væru veitt sömu réttindi og einstaklingunum. Ég held, að ummæli hans séu á misskilningi byggð og hann hafi ekki rannsakað húsaleigul. sem skyldi. Einstaklingar hafa mjög takmarkaða heimild til að rýma húsnæði. Það er aðeins, þegar um skyldmenni er að ræða, en ekki mega þeir gera það til þess að hafa þar skrifstofur.

Í 4. gr. húsaleigul. segir svo: „Íbúðarherbergi má ekki taka til annarrar notkunar en íbúðar, og íbúðarhús má ekki rífa, nema heilbrigðisnefnd banni að nota þau til íbúðar. Húsaleigunefnd getur þó veitt sérstakt leyfi til þessa og sett það skilyrði, að húseigandi sjái um jafnmikla aukningu á húsnæði til íbúðar annars staðar í hlutaðeigandi kaupstað, kauptúni eða sveit. Ef íbúðarherbergi er heimildarlaust tekið til annarrar notkunar en íbúðar, er húsaleigunefnd rétt að skylda húseiganda, að viðlögðum allt að 200 kr. dagsektum í ríkissjóð, að taka upp fyrri notkun húsnæðisins.“ Með öðrum orðum: Ríkið setur einstaklingnum þær kvaðir, að ef hann lætur rýma húsnæði nema samkvæmt reglum þessum, verði hann að borga 200 krónur í dagsekt. Mér er ekki kunnugt um annað en Reykjavíkurbær taki á leigu hús, t.d. húsnæði það, sem Skipaútgerð ríkisins hefur, og leigi út með gamla verðinu. Má þá ekki Reykjavíkurbær segja upp því húsnæði, sem ríkið notar? Sömu reglur hljóta að eiga að gilda þar, sem ríkið er leigjandinn, og þar, sem það er leigusalinn.

Það er ekki hægt að komast hjá því að kannast við, að húsaleigul. eru gagnrýnd og eru ekki vinsæl, og á sú skoðun nokkur ítök úti um land, í nokkrum þorpum þar sérstaklega. Mér sýnist, að með frv. þessu sé gengið lengra en einstaklingnum er leyft. Í sambandi við þetta frv. finnst mér, að hv. d. eigi að gera þetta upp við sig: Á að láta óvinsæl ákvæði gilda um alla aðila í landinu, eða eiga tvenns konar ákvæði að gilda í þessu efni? Á ríkið eitt að sleppa undan þeim skyldum, sem það setur þegnunum í landinu?

Hæstv. dómsmrh. sagði, að ef brtt. mín yrði samþ., yrðu meiri kvaðir lagðar á ríkið en einstaklingana í landinu. Ég fæ ekki betur séð en brtt. mín sé í fullu samræmi við 4. gr. húsaleigul., í fullu samræmi við þær reglur, sem ríkið skuldbindur einstaklingana til að fylgja, og falla því ummæli hæstv. ráðh. um sjálf sig. Þetta mál er aðeins um eitt hús hér í bænum, að því er fram hefur komið. Það hús er orðið nokkuð gamalt og þarf viðgerðar við. Þeir, sem hafa það nú á leigu, hafa viljað fá gert við það að innan, en þeirri málaleitun var svarað á þá leið, að það væri ekki hægt, vegna þess að fyrir lægi að rífa það og byggja annað hús á lóðinni. En samkvæmt frv. þessu á að gera húsið upp og gera það íbúðarhæft fyrir embættismenn þjóðfélagsins. Þetta er alveg nýtt viðhorf í málinu. Það hefur verið skipuð n. til að athuga, hvaða byggingar ættu að rísa hér við Lækjargötu og Lækjartorg. Mér er ekki kunnugt um starf þessarar n., en hæstv. ríkisstj. mun kunnugri því, hvað n. hefur starfað. Þótt ég flytji þessa brtt. hér, ætla ég að taka hana aftur til 3. umr., svo að hún mun ekki koma undir atkvæði hv. deildar nú.