09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. sló því hér fram, að ég mundi ekki hafa heyrt mál hans að nokkru leyti, af því að ég hefði ekki verið í deildinni. En það er ekki rétt, því að ég hef setið hér í salnum allan fundartímann og heyrt allt mál hv. þm. Barð.

Að sjálfsögðu lít ég svo á, að hver kaupandi skips frá Svíþjóð verði að tryggja það, þegar er pöntun hans er tekin til greina, að hann geti staðið undir kaupunum, sumpart með peningaframlagi og sumpart með tryggingu fjár í lánsstofnunum, sem verði að ganga til þess að greiða andvirði skipsins að þeim hluta, sem kaupanda ber að sjá um greiðslu andvirðis þess, þ.e. að undantekinni þeirri fjárhæð, sem viðkomandi kaupandi fengi loforð fyrir úr þeim sjóði, sem kann að verða settur á stofn með þeim l., sem hér liggur fyrir frv. um. Ég hef litið svo á, að ekki kæmi til mála neitt annað en þetta.