07.02.1945
Neðri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (3812)

264. mál, húsaleiga

Páll Þorsteinsson:

Ég fæ ekki betur séð en það standi óhaggað, sem ég hef haldið fram í þessu máli. Ég sé ekki, að það sé alls kostar í samræmi við ákvæði húsaleigul., að ríkinu séu veitt þau sérréttindi, sem farið er fram á í þessu frv. Það' stendur óhaggað, að með þessu frv. er farið fram á, að ríkið geti rekið úr húsnæði sínu aðila, sem hafa gerzt leigutakar hjá því, en ríkið á samt að geta notið þeirra hlunninda að sitja fast í því húsnæði, sem það leigir hjá öðrum, eins og Viðskiptaráð leigir hjá Kron, allar skrifstofur Skipaútgerðar ríkisins eru í húsnæði Reykjavíkurbæjar o.s.frv. Hér er verið að stofna til misréttis milli ríkisins annars vegar og einstaklinga hins vegar. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr forsendum fyrir þeim dómi, sem gengið hefur um þetta mál. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. húsaleigulaganna er húseiganda óheimilt að segja upp íbúðarhúsnæði, nema honum sé þess brýn þörf til íbúðar fyrir sjálfan sig eða skyldmenni sín í beina línu o.s.frv. Ákvæði þetta virðist sett með einstaklinga fyrir augum, er þeir semja sín á milli, en þeir einstaklingar, sem gera samninga eins og þennan leigusamning við ríkið, verða eftir atvikum að njóta sama réttaröryggis eins og þeir væru að semja við aðra einstaklinga.“ Ég held, að þetta sé allskýrt, og hv. þdm. ættu að taka það til athugunar. Ég held, að það sé þess vert í sambandi við afgreiðslu þessa máls.