09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Út af upplýsingum hæstv. atvmrh. verð ég að segja það, að mér finnst hér ekki vera um mjög mikla aðstoð til útgerðarmanna eða útgerðarfyrirtækja að ræða eða fiskimanna yfirleitt, þó að frv. þetta verði samþ., ef farið er eftir þessum skilningi hæstv. ráðh. á nauðsyn trygginga frá hendi kaupenda. Það er alveg vitanlegt, að sáralítill hluti af þeim mönnum eða aðilum, sem sótt hafa um að mega nota þessa aðstoð, er fær um að setja þessa tryggingu, sem hæstv. ráðh. lýsti hér. Og ég efa stórkostlega, að Fiskveiðasjóður taki sér það vald á þessu stigi málsins að binda með loforðum svo og svo margar millj. kr. til lána fyrir þessi skip. Ég veit ekki heldur, hvort það væri rétt af sjóðnum að gera það og gera sig þannig að því leyti óhæfan til þess að lána á sama tíma fé til annarra manna, sem kynnu að fara aðrar leiðir um skipakaup. Ég hygg, að þetta mál hafi verið hugsað svo lítið, að alveg sé rétt á þessu stigi málsins að samþ. till. minni hl. n. um að láta fé þetta ganga í Fiskveiðasjóð, þangað til a.m.k. að fram hafa verið settar meiri og skynsamlegri og betri ástæður fyrir því, að yfirleitt sé mögulegt að framkvæma það, sem hér er gert ráð fyrir með þessu frv.