13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (3832)

264. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Húsaleigul. voru til umr. í þessari hv. d. 1943, og var þá töluvert rætt um hin ýmsu ákvæði þeirra.

Mér kom dálítið einkennilega fyrir þetta allt, sem hér er viðurkennt af hv. allshn., og einnig ummæli hv. frsm., því að það er kunnugt, að um þessi l. hefur staðið mjög mikil óánægja, og mundi hún engan veginn minnka, ef farið væri inn á þessa braut, sem ég get ekki séð annað en farið sé inn á, að gefa ríkinu meiri rétt en einstaklingum. Mér finnst rétt að gefa ríkinu sama rétt, en ég álít ákaflega varhugavert að fara inn á þá braut að gefa ríkinu meiri rétt við lagasetningu, sem er þó jafnóvinsæl og viðkvæm og þau l. eru, sem hér er um að ræða. Ég sé ekki heldur, að það sé nauðsyn að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, til þess að ná því, sem ætlazt er til með þessum l. hvað snertir starfsmenn ríkisins. En hvað viðvíkur því, að ríkinu sé heimilað að taka íbúðir til þess að nota þær sem skrifstofur, þá er öðru máli að gegna. Þar er gengið lengra en einstaklingi er leyft, þeim er ekki leyft að taka sitt eigið hús og gera það að skrifstofu fyrir sig, og eins. ef ríkinu á að vera frjálst að byggja, þá getur slíkt varla talizt heldur sanngjarnt. Það hefur ekki verið leyft. Ég þekki þess mörg dæmi, að mönnum hefur verið fyrirmunað að byggja stórhýsi, sem skapaði mikið húsnæði, en í stað þess hefur mönnum verið fyrirskipað að halda við lélegum húskofum, sem varla eru mannabústaðir, af því að í þeim eru tvær hræður, sem bæði er vegna þess, að það er ekki hægt að koma þessu húsi af lóðinni vegna húsaleigul. En hér finnst mér, að annar og meiri réttur sé skapaður sjálfu ríkinu í þessu efni en þegnunum. Nú er það alveg áreiðanlegt, að húsaleigul. hafa gengið mjög á rétt einstaklinga í þessum bæ og viðar í landinu, en það hefur verið réttlætt fyrir þá sök, að vegna styrjaldarinnar þurfi að halda niðri dýrtíðinni í landinu, og þess vegna hafi verið takmarkaður réttur þeirra manna, sem eiga húseignir, og þeim bannað að græða á húsaleigunni. Þetta hefur þótt nauðsynlegt vegna þeirrar nauðsynjar að hleypa ekki af þessum ástæðum dýrtíðinni upp í landinu. En þá er það sjálfsögð krafa þeirra manna, sem telja sig hafa orðið fyrir barðinu á Alþ., að a.m.k. sjálft ríkið verði að beygja sig undir þessi sömu húsaleigul. Það getur engan veginn verið hægt að ætlast til þess, að þeir menn, sem verða á margvíslegan hátt að líða það tjón, sem þeir hafa liðið og líða enn vegna hinna hörðu ákvæða húsaleigul., þoli það, að ríkið geti hvar, sem það þarf á að halda, tekið húsnæði í sínar þarfir.

Ég vil einnig í sambandi við þetta mál leyfa mér að benda á, að í Sþ. er þáltill. um það að fá rannsókn á húsaleiguvísitölunni á ný, vegna þess að viðkomandi menn þykjast vera mjög illa leiknir af þeirri vísitölu, sem ákveðin er og reiknuð hefur verið út.

Þetta mál hefur komið fyrir allshn., og hefur komið skýrt fram þar, að það skiptir miklu meira máli fyrir húseigendur, að þeim ákvæðum í þessum l. væri breytt, sem hvort tveggja í senn gæti mildað fyrir þeim hin hörðu skilyrði, sem Alþ. hefur sett þeim með þessum l., heldur en þótt farið yrði að rannsaka grundvöll húsaleigul., og skal ég í þessu sambandi benda á, að fulltrúar þessara manna hafa upplýst, að fjölmargir menn, sem sitja í gömlu húsaleigunni, leigi nú svo og svo mikið af húsnæði sínu fyrir okurverð, án þess að ákvæði l. geti náð til þeirra, og gera þetta húsnæði að tekjulind fyrir sig, sem ætti að vera tekjulind sjálfra húseigendanna.

Ég hygg, að með þessari lagabreyt. á sjálfum húsaleigul. mætti ef til vill að nokkru eða öllu leyti fyrirbyggja þetta, m.a. með því, að húseigendur sjálfir ættu kröfu á því. að ef einhver, sem hefur íbúð á leigu samkvæmt gamalli leigu, þyrfti ekki að nota fyrir sig allt það húsnæði, þá ætti húseigandi sjálfur rétt til þess að leigja það út eftir núgildandi húsaleigul. Ég hef sömu skoðun á þessum málum og á þinginu 1943, þegar þetta mál var til umr., og er ég á móti þessu frv. eins og það liggur fyrir og ber því fram rökstudda dagskrá, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti nú þegar endurskoða húsaleigulögin og leggi síðan fyrir næsta reglulegt Alþingi tillögur um breytingu á þeim, er tryggi ríkinu og þegnunum sama rétt yfir eignum sínum og gefi auk þess húseigendum meiri ráð yfir húseignum sínum en nú er, án þess þó að raska grundvaliaratriðum laganna, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég álít, að þessi húsaleigul. þurfi endurskoðunar við og lagfæringar; ég hygg, að þau l. hafi bakað húseigendum mikið tjón og ríkinu mikil útgjöld. En ekkert annað finnst mér sæma í þessu máli en þegnunum sé gefinn jafn réttur og ríkinu.

Ég sé ekki neitt, sem er svo aðkallandi í þessu máli fyrir ríkið sjálft. að það megi ekki bíða til næsta hausts, svo að þessi rannsókn geti farið fram og helzt í samráði við húseigendur, því að óneitanlega bera þeir þyngstu byrðina í þessu máli.

Ég vænti þess, að þessi dagskrá, sem ég legg hér fram fyrir hæstv. forseta, verði samþ. og málið afgr. á þennan hátt.